[gdlr_notification icon=“icon-flag“ type=“color-background“ background=“#62bdc7″ color=“#ffffff“]Þú ert að lesa vefútgáfu af skýrslunni Efnahagsleg umsvif og afkoma sjávarklasans á Íslandi 2013. Hægt er að sækja skýrsluna í heild á PDF undir útgáfa.[/gdlr_notification]
Líftækni
Líftækni er tækni sem notar lífverur eða einstaka hluta þeirra, frumur eða frumuhluta, til framleiðslu afurða, eða til að hafa áhrif á náttúrulega ferla. Líftækni er þannig fag þar sem frumur eða frumuhlutar eru notaðir til að framkvæma efnahvörf til að framleiða einstök efni sem við getum nýtt okkur, til dæmis í matvælaiðnaði eða við framleiðslu snyrtivara og lyfja.
Líftækniiðnaðurinn tengdur nýtingu aukaafurða er einn mest spennandi vettvangur sjávarklasans á Íslandi og nokkur fyrirtæki vinna að þróun og sölu slíkra líftækniafurða. Þessi fyrirtæki eru meðal annars Genís, Primex, Kerecis, Lipid Pharmaceuticals, Codland og Zymetech.
Af þessum sex fyrirtækjum eru Primex og Zymetech lengst komin í sinni þróun og markaðssetningu og skiluðu bæði hagnaði á árinu 2013. Genís er komið skemmra á veg enda fremur ungt fyrirtæki sem þróar afar flóknar lækningavörur, meðal annars til ígræðslu
í beinvef. Slík þróun krefst bæði tíma og fjármagns og því nokkur ár eða jafnvel áratugir þar til starfsemin fer að skila tekjum eða hagnaði. Primex og Zymetech eiga það sameiginlegt að vera elstu fyrirtækin í hópnum, stofnuð rétt fyrir aldamótin síðustu og rannsóknir þær sem Zymetech byggir aðferðir sínar og vörur á ná mun lengra aftur.
Á árinu 2014 hóf Codland tilraunaframleiðslu kollagens úr fiskiroði á Spáni í samvinnu við þarlenda sérfræðinga sem sérhæfa sig í framleiðslu gelatíns. Tilraunaframleiðslan er fyrsta skrefið í könnun á því hvort hagkvæmt sé að setja upp slíka verksmiðju hér á landi á næstunni.
Nýting aukaafurða vex nú ár frá ári og með breytingu á samsetningu fiskiskipaflotans, þar sem frystiskipum fækkar en nýir og fullkomnari ísfisktogarar leysa þá af hólmi, má búast við að þessi vöxtur haldi áfram og hráefnanýting batni enn. Hráefnið til þróunar líftækniafurða er því til staðar og tækifærin mikil. Þá býr hafið og landgrunnið einnig yfir miklu magni lífvirkra efna sem gætu skapað landi og þjóð mikil tækifæri, meðal annars í þörungavinnslu og einangrun lífvirkra efna úr þeim.
Á Íslandi er að mörgu leyti einstakur grundvöllur til uppbyggingar öflugs líftækniklasa. Sá grundvöllur byggir annars vegar á miklum auðlindum, bæði til lands og sjávar, og á sérstakri vistfræði landsins, og hins vegar á mannauði og stofnanaumhverfi sem byggt gæti undir slíkan klasa. Skynsamlegt væri að marka öfuga stefnu til framtíðar um uppbyggingu líftækniiðnaðarins á Íslandi í samvinnu ríkis, háskólasamfélagsins, heilbrigðisgeirans og atvinnulífsins.
[gdlr_divider type=“dotted“ ]