[gdlr_notification icon=“icon-flag“ type=“color-background“ background=“#62bdc7″ color=“#ffffff“]Þú ert að lesa vefútgáfu af skýrslunni Efnahagsleg umsvif og afkoma sjávarklasans á Íslandi 2013. Hægt er að sækja skýrsluna í heild á PDF undir útgáfa.[/gdlr_notification]

Fiskeldi

  • Starfsmenn: 340
  • Uppskera: 7.000 tonn
  • Heildartekjur: 6,5 ma. kr.

Fyrir ári síðan greindi Íslenski sjávarklasinn á þessum vettvangi frá miklum uppbyggingaráformum í fiskeldi hér á landi. Á undanförnum misserum hefur verið ráðist í nokkrar fjárfestingar í greininni og fiskeldið verið ein fárra atvinnugreina hér á landi sem notið hefur áhuga erlendra fjárfesta. Þessar fjárfestingar munu líklega byrja að skila sér í aukinni framleiðslu á næsta ári en samkvæmt tölum frá Landssambandi fiskeldisstöðva má búast við að um 8.500 tonnum af eldisfiski verði slátrað á árinu 2014 og allt að 10.500 tonnum árið 2015. Það yrði þá aflahæsta ár greinarinnar síðastliðin 10 ár. Á árinu 2013 var um 7.000 tonnum slátrað sem er svipað og árið á undan.

Aukin framleiðsla næstu ára verður að stærstum hluta í framleiðslu lax, bleikju og regnbogasilungs, bæði í sjókvíeldi og landeldi, og gangi uppbyggingaráformin eftir má gera ráð fyrir að framleiðsla á eldisfiski muni aukast talsvert hér á landi næsta áratuginn, jafnvel þrefaldast. Líklegt er hins vegar að uppbyggingin verði nokkuð hægari en bjartsýnustu spár hafa gert ráð fyrir.

Færa má fyrir því rök að hægur en stöðugur vöxtur sé skynsamlegasta leiðin til framtíðaruppbyggingar í greininni enda nauðsynlegt að byggja áfram upp þekkingu og reynslu á framleiðslunni, vinna markaði og treysta rekstrargrundvöll fyrirtækjanna til framtíðar, fremur en að keyra um þverbak í upphafi.

Aðstæður til fiskeldis á Íslandi eru að mörgu leyti ólíkar aðstæðum í nágrannalöndunum og taka mun tíma að byggja upp þekkinguna sem nauðsynleg er fyrir stöðugleika í framleiðslu, einkum í sjókvíeldi. Hvað varðar landeldi er samkeppnisstaða Íslands aftur á móti vænlegri og ef til vill mætti nýta hana betur.

Nú þegar hafa verið gefin út rekstrarleyfi sem svara til um 43.000 tonna framleiðslu, þar af er um helmingur til eldis laxafiska í sjókvíum og um 11.000 tonn af þorski. Litlu er þó enn slátrað af þorski. Þá liggja fyrir umsóknir um framleiðsluleyfi fyrir öðrum 40.000 tonnum og búast má við afgreiðslu hluta þeirra umsókna á árinu 2015.

Tekjur af fiskeldi eru nú um 6,5 milljarðar króna og bein ársverk í greininni eru um 340. Beinu ársverkunum hefur fjölgað um 90 frá árinu 2012 og
á sunnanverðum Vestfjörðum, þar sem uppgangurinn hefur verið hvað mestur undanfarið, starfa nú um 150 manns við fiskeldi.

EH3

MARGT ÓUNNIÐ

Þó kastljósið beinist nú að fiskeldinu og margir sjái greinina sem öfluga viðbót við aðrar útflutningsgreinar er margt eftir óunnið í uppbyggingarstarfinu. Í Evrópu eru norskir eldisframleiðendur ráðandi á markaðnum og hafa þríþætt samkeppnisforskot á íslenska framleiðendur. Í fyrsta lagi gegnum betri vaxtarskilyrði fisksins í hlýrri sjó norsku fjarðanna. Laxinn þar vex því hraðar en hér á landi og kostar því minna í framleiðslu. Í öðru lagi gegnum stærðarhagkvæmni sína en í Noregi eru laxeldisrisar á borð við Marine Harvest og Austevoll Seafood sem báðir velta hærri fjárhæðum árlega en allur íslenski sjávarútvegurinn samanlagt. Augljóst er að stærðarhagkvæmni af þessari gerð verður aldrei náð hér á landi. Í þriðja lagi hafa norskar eldisstöðvar samkeppnisforskot gegnum lægri flutningskostnað afurða inn á meginland Evrópu. Samherji áætlar til að mynda að flutningur með fisk frá norðurhéruðum Noregs til meginlands Evrópu kosti um 0,3 evrur á hvert kíló, flutt landleiðina. Flutningar frá Íslandi kosta á sama tíma nálægt 1,5 evrur á hvert kíló. Norðmenn flytja nú út ríflega eina milljón tonna af laxi á ári.

Íslenskir framleiðendur munu því seint keppa við norska framleiðendur í magni en eiga möguleika á notfæra sér styrkleika sinnar samkeppnisstöðu með ýmsum hætti. Ein leið er að fullvinna afurðir hér á landi og skapa sem mestan virðisauka í framleiðslunni áður en afurðirnar eru fluttar úr landi, til dæmis inn á markaði með frosnar, tilbúnar vörur í neytendapakkningum og í sérhæfðum gæðaafurðum á Asíumarkað. Í þess konar framleiðslu hafa íslenskir framleiðendur líklega samkeppnisforskot á norska framleiðendur vegna lægri launakostnaðar hér á landi.

Annar mikilvægur þáttur er markaðssetning afurðanna og aðgreining þeirra frá norskum laxi og öðrum sambærilegum vörum. Áhersla á gæði, hreinleika, rekjanleika og notkun grænnar orku í framleiðslunni mun þar skipta máli sem og vottanir um lífræna framleiðslu, líkt og Dýrfiskur hefur tryggt sér, fyrst fiskeldisfyrirtækja hér á landi. Á Íslandi er framleiðslan einnig laus við sjúkdóma og lyfjanotkun og það bætist við lista þeirra atriða sem notfæra má til að aðgreina og markaðssetja íslenskan eldisfisk.

Í maí 2014 voru samþykkt ný lög sem einfalda eiga umsóknarferli starfs- og rekstrarleyfa fiskeldisfyrirtækja. Þá var ákveðið að ráðstafa auknu fé til rannsókna, einkum á burðarþoli fjarða, en skortur á slíkum rannsóknum hefur tafið fyrir uppbyggingu í greininni. Ekki þarf að fjölyrða um þá fjölmörgu umhverfisþætti sem huga þarf að við uppbyggingu fiskeldis og ljóst að aukinni framleiðslu þurfa að fylgja auknar kröfur um umhverfisvernd og aukið fé til rannsóknarstarfs.

[gdlr_divider type=“dotted“ ]

Næsta síða: Flutningar og hafnastarfsemi