[gdlr_notification icon=“icon-flag“ type=“color-background“ background=“#62bdc7″ color=“#ffffff“]Þú ert að lesa vefútgáfu af skýrslunni Efnahagsleg umsvif og afkoma sjávarklasans á Íslandi 2013. Hægt er að sækja skýrsluna í heild á PDF undir útgáfa.[/gdlr_notification]

Tæknibúnaður fyrir vinnslu og veiðar

  • Vöxtur 2013: 12%
  • Starfsmenn: 1.000 – 1.500
  • Fjöldi fyrirtækja: Um 70

Tæknigeiri sjávarklasans á Íslandi hefur einkennst af miklum vexti undanfarin ár. Greinin samanstendur af ríflega 70 fyrirtækjum sem þróa, framleiða og selja tæknibúnað og rekstrarvörur fyrir sjávarútvegsfyrirtæki undir eigin vörumerki. Vörur tæknifyrirtækja sjávar- klasans eru veiðarfæri, vinnslubúnaður, umbúðir, kælilausnir, upplýsingakerfi og ýmis annar vél- og hugbúnaður. Flest fyrirtækin eru lítil að stærð, með ársveltu undir 200 milljónum og færri en 20 starfsmenn. Á hinn bóginn myndi um fjórðungur þeirra teljast meðalstór á íslenskan mælikvarða, með ársveltu á bilinu 200-1.000 milljónir og 20-100 starfsmenn. Tæpur fimmtungur fyrirtækjanna hefur ársveltu yfir 1.000 milljónir og yfir 100 starfsmenn.

Mikill meirihluti tæknifyrirtækja sjávarklasans stundar útflutning af einhverju tagi, sem að meðaltali skapar 50-60% heildartekna þeirra. Hjá nokkrum þeirra, sérstaklega þeim stærri, er útflutningur 80-90% af tekjum. Á myndinni hér að neðan má sjá upplýsingar Hagstofu um útflutningsverðmæti nokkurra tæknivöruflokka sem að mestu eru framleiddir af tæknifyrirtækjum í sjávarklasanum. Þessir vöruflokkar veita takmarkað yfirlit yfir útflutning fyrirtækjanna í heild en gefa þó mynd af því hvernig hann hefur þróast síðastliðinn áratug.

EH2

RISARNIR STANDA Í STAÐ

Í tæknigeira sjávarklasans á Íslandi má segja að hafi myndast þrír risar, þ.e. stór alþjóðafyrirtæki sem hafa útvíkkað starfsemi sína að miklu leyti út fyrir sjávarútveg. Þetta eru Marel, Promens og Hampiðjan, en tvö fyrrnefndu fyrirtækin eru á meðal allra stærstu fyrirtækja landsins. Þessi fyrirtæki eiga það sameiginlegt að hafa byggt starfsemi sína í upphafi á sérhæfðum lausnum fyrir innlend sjávarútvegsfyrirtæki en útvíkkuðu starfsemi sína síðan til annarra atvinnugreina og heimshorna með árunum. Heildarvelta Marel samsteypunnar var 107,4 milljarðar króna árið 2013 og þar starfa rúmlega 4.000 manns. Heildarvelta Promens samsteypunnar var 96,5 milljarðar króna en þar starfa um 3.500 manns og heildarvelta Hampiðjunnar nam um 8,2 milljörðum króna en þar starfa yfir 600 manns. Heildarvelta Marels dróst saman um 6,8% milli ára á meðan ársvelta Promens jókst um tæplega 1%. Ársvelta Hampiðjunnar jókst myndarlega milli ára eða um 12,8%. Taka skal fram að aðeins hluti tekna þessara félaga er af sjávarútvegstengdri starfsemi hér á landi og aðeins sá hluti er meðtalinn í greiningum á veltu tæknifyrirtækja í sjávarklasanum.

MESTUR VÖXTUR Í FISKVINNSLUTÆKNI

Heildarvelta íslenskra tæknifyrirtækja í sjávarklasanum jókst um 12% milli ára, leiðrétt fyrir áhrif verðbólgu. Mestur vöxtur árið 2013 var hjá fyrirtækjum sem framleiða fiskvinnslutæki, eða 15%, að frátöldu Marel sem dróst saman á því sviði. Næstmestur vöxtur var í framleiðslu báta, eða 14%. Þá var myndarlegur vöxtur hjá fyrirtækjum sem framleiða veiðarfæri (13%) og umbúðir (11%). Hjá fyrirtækjum í kælitækni jókst velta um 4% en hjá fyrirtækjum sem selja upplýsingatækni til sjávarútvegsfyrirtækja dróst velta saman lítillega. Meðalstór og stór tæknifyrirtæki juku tekjur sínar mest (að Marel undanskyldu) á meðan lítil fyrirtæki juku tekjur sínar óverulega í heild.

SAMEININGAR Í TAKT VIÐ SPÁR

Ein stærstu tíðindi síðustu mánaða í tæknigeira sjávarklasans eru kaup móðurfélags Skagans hf. á ráðandi hlut í 3X Technology í ársbyrjun 2014. Fyrirtækin eru bæði í hópi stærri tæknifyrirtækja landsins, en móðurfélag Skagans á fyrir skipasmíðastöðina Þorgeir og Ellert. Þótt ekki séu fyrirætlanir um að sameina fyrirtækin undir einu nafni í bráð er augljóslega um að ræða vísi að sterku tæknifyrirtæki með talsvert breiða starfsemi. Þá má að auki geta þess að í ágúst 2013 yfirtók 3X Technology fiskvélahluta Egils ehf. og efldi um leið þjónustudeild sína.

Önnur meðalstór tæknifyrirtæki hafa jafnframt eflst töluvert síðastliðin 2-3 ár, en dæmi eru þess að fyrirtæki með hundruð milljóna í ársveltu hafi tvöfaldað veltu sína á síðustu tveimur árum og sjái fram á stórfelldan vöxt í tekjum á árinu 2014. Þetta er í samræmi við fyrri spár Íslenska sjávarklasans um líklega þróun í greininni.

PANTANABÆKUR VAXA

Meirihluti stjórnenda stærri tæknifyrirtækja í sjávarklasanum lítur nokkuð björtum augum á árið 2014 og stórar pantanabækur gefa fyrirheit um
gott framhald á næstu mánuðum. Ástæða er til að búast við enn meiri vexti milli áranna 2013 og 2014, sérstaklega þegar litið er til þeirra fjárfestingaáætlana sem mörg sjávarútvegsfyrirtæki hafa.

Líkt og hefur komið fram í greiningum Íslenska sjávarklasans eru umtalsverðar fjárfestingar væntanlegar hjá sjávarútvegsfyrirtækjum, bæði í nýjum skipum og landvinnslu. Þetta mun ótvírætt auka eftirspurn eftir vörum og þjónustu íslenskra tæknifyrirtækja, sér í lagi á sviði veiðarfæra og fiskvinnslutækni. Erlendis gætir einnig vísbendinga um auknar fjárfestingar í sjávarútvegi, fiskeldi og fiskvinnslu. Enn fremur kann fríverslunarsamningur milli Íslands og Kína að hafa jákvæð áhrif, en fjölmörg íslensk tæknifyrirtæki hafa haslað sér völl á Kínamarkaði.

[gdlr_styled_box background_color=“#62bdc7″ ]

[gdlr_heading tag=“h4″ color=“#ffffff“ font_weight=“bold“]10 stærstu tæknifyrirtæki sjávarklasans[/gdlr_heading]

1. Marel
2. Promens
3. Hampiðjan
4. Héðinn
5. Skaginn
6. Kælismiðjan Frost
7. Curio
8. Trefjar
9. Vaki
10. Valka

[/gdlr_styled_box]

TÆKIFÆRI Í SAMSTARFI

Þekking á sjávarútvegi, vel menntað starfsfólk og góðar aðstæður fyrir orkufreka framleiðslu gera það að verkum að samkeppnishæfni Íslands er mikil í sjávarútvegstengdri tækni. Sem fyrr segir samanstendur bróðurpartur tæknigeira sjávarklasans á Íslandi af litlum og meðalstórum fyrirtækjum, en víst er að í mörgum þeirra felast umtalsverðir vaxtarmöguleikar. Annað árið í röð vex tæknigeiri sjávarklasans umfram sjávarútveginn sjálfan. Tækifærin til sóknar eru mikil, bæði í sölu tengdri aukinni fjárfestingu innanlands og á alþjóðamörkuðum.

Áframhaldandi vöxtur í tæknigeiranum er ekki laus við áskoranir. Ógreiður aðgangur að fjármagni, gjaldeyrishöft og takmörkuð geta til að takast á við stór verkefni standa mörgum þeirra fyrir þrifum. Hvað síðastnefnda þáttinn varðar getur samstarf skipt sköpum. Í gegnum samstarfsvettvang Íslenska sjávarklasans hefur hópur tæknifyrirtækja unnið saman að verkefnum á borð við markaðsátakið Green Marine Technology og samstarfi um íslenska heildarlausn í tæknibúnaði fyrir ísfisktogara. Áframhaldandi samstarf tæknifyrirtækja og sjávarútvegsfyrirtækja er sömuleiðis mikilvægt, enda ein af undirstöðum samkeppnishæfni tæknigeirans. Sjávarútvegsfyrirtæki hafa tekið virkan þátt í þróun tæknilausna og sömuleiðis reynst mikilvægur samstarfsaðili í útrás tæknifyrirtækja á erlenda markaði. Þá geta frekari sameiningar fyrirtækja stuðlað að áframhaldandi vexti útflutnings.

[gdlr_divider type=“dotted“ ]

Næsta síða: Fiskeldi