[gdlr_notification icon=“icon-flag“ type=“color-background“ background=“#62bdc7″ color=“#ffffff“]Þú ert að lesa vefútgáfu af skýrslunni Efnahagsleg umsvif og afkoma sjávarklasans á Íslandi 2013. Hægt er að sækja skýrsluna í heild á PDF undir útgáfa.[/gdlr_notification]

Sjávarklasinn

Þegar litið er yfir sviðið í íslenskum sjávarútvegi að nýloknu fiskveiðiárinu er ýmislegt sem gefur tilefni til bjartsýni. Samkeppni á erlendum mörkuðum er hins vegar hörð og verð hafa ekki verið jafn hagfeld og vonir stóðu til, einkum í bolfisktegundum. Þar að auki er krónan nú nokkuð sterkari en undangengin ár. Hátt gengi krónunnar það sem af er ári 2014 mun síðan setja svip sinn á afkomu sjávarútvegsins á þessu ári. En þó afkoma í greininni hafi dregist eilítið saman er hún viðunandi. Íslenskur sjávarútvegur stendur að mörgu leyti traustum fótum, skuldastaða greinarinnar er gjörbreytt frá því sem áður var, hraðar tæknibreytingar eiga sér stað í veiðum og vinnslu, fjárfestinga er að vænta á næstu misserum og áhugi á greininni og sjávarklasanum vex. Þá blasa við ýmis tækifæri til framtíðar í tækni, fullvinnslu, flutningum og öðrum geirum sjávarklasans. Svo þessi tækifæri megi nýta þarf hins vegar sterkari og skýrari framtíðarsýn sjávarútvegsins og sjávarklasans í heild.

FJÁRFESTING

Nýliðið fiskveiðiár markaði viss þáttaskil í atvinnugreininni með tilkynningum um stóraukna fjárfestingu í nýjum fiskiskipum sem væntanleg eru á næstu árum. Sú fjárfesting er þörf enda hluti fiskveiðiflotans kominn fram yfir miðjan aldur og löngu tímabært að skipta út mörgum þeirra skipa sem nú hverfa úr flotanum. Nýfjárfesting í fiskiskipum nú er þannig öðrum þræði dregin áfram af algerri nauðsyn.

Efnahagsáföll hrunsins höfðu einkum áhrif á rekstur og fjárhagsstöðu sjávarútvegsfyrirtækja með tvennum hætti. Annar vegar með því að stökkbreyta efnahagsreikningi þeirra til hins verra og hins vegar með því að gjörbreyta rekstrargrundvelli þeirra til hins betra með hækkandi afurðaverði í íslenskum krónum. Nú hefur að mestu tekist að vinda ofan af neikvæðri eiginfjárstöðu sjávarútvegsins með endurskipulagningu og niðurgreiðslu skulda. Þannig hefur eiginfjárstaða sjávarútvegsfyrirtækjanna farið úr því að vera neikvæð um 80 milljarða króna í árslok 2008 yfir í að vera jákvæð um 107 milljarða króna í árslok 2012. Á þessu ári hefur svo verið tilkynnt um nýsmíði 10 nýrra fiskiskipa sem bætast munu við flotann á næstu árum.

Sjávarútvegurinn er mikilvægasta atvinnugrein landsins að því leyti að hún stenst alþjóðlegan samanburð með tilliti til framleiðni og skilar þar að auki mjög miklum virðisauka til þjóðarbúsins í formi launa og hagnaðar. Þeirri stöðu er nauðsynlegt að viðhalda, meðal annars með tímabærum fjárfestingum í nýjum skipum og búnaði. Í endurnýjun flotans felst einnig mikilvægt viðskiptatækifæri fyrir fjölmörg tæknifyrirtæki sjávarklasans á Íslandi en hægt er að tala um nokkra tæknibyltingu í veiðitækni, aflameðferð og fullvinnslu afurða um þessar mundir, svo mikil hefur gróskan verið undanfarið.

Í nýsmíði þeirra skipa sem þegar eru í smíðum fyrir íslensk sjávarútvegsfyrirtæki eru send jákvæð skilaboð um bætta hráefnanýtingu og aukna verðmætasköpun, sem birtist meðal annars í breyttum áherslum í vinnslu uppsjávarfisks til manneldis og aukinni ferskfiskvinnslu bolfisks á síðustu misserum. Með brotthvarfi nokkurra frystitogara og tilkomu nýrra ísfisktogara sem koma til með að leysa þá af kristallast einnig geta íslensks sjávarútvegs til að bregðast við breyttum ytri aðstæðum og samkeppnisstöðu sinni á alþjóðlegum markaði.

Sögulega lág atvinnufjárfesting er meiriháttar vandamál í fjölmörgum atvinnugreinum á Íslandi. Þessi litla fjárfesting á sér vafalítið margrar rætur, sú augljósasta er erfið eiginfjárstaða margra fyrirtækja. Önnur rót vandans er kerfislægur í íslenska hagkerfinu þar sem vinnuafl er í mörgum tilfellum einfaldlega ódýrara en fjármagn við núverandi aðstæður á Íslandi. Þetta á líklega við um einhverja fiskvinnslu í landi, þar sem störfum fjölgar, en líklega ekki í veiðum og vinnslu úti á sjó, þar sem störfum fækkar. Frá árinu 2008 hefur starfandi í fiskiðnaði fjölgað úr 3.000 í 5.000 samkvæmt tölum Hagstofunnar en starfandi við fiskveiðar hefur aftur á móti fækkað úr 4.200 í 3.600. Samkeppnisforskot Íslands í framleiðslu sjávarafurða liggur því nú að hluta í lágum framleiðslukostnaði í landi þar sem hægt er að fullvinna afurðir.

Þótt veik króna í höftum hafi bætt rekstrargrundvöll greinarinnar á eftirhrunsárunum fer því fjarri að langtímahagsmunum hennar og sjávarklasans í heild sé þjónað með óbreyttu ástandi peningamála. Því til rökstuðnings má nefna að ört vaxandi tæknigeira sjávarklasans eru miklar skorður settar í núverandi stöðu peningamála. Losun hafta og langtímastefna í peningamálum skipta sjávarklasann því ekki minna máli en aðrar atvinnugreinar.

STÆRRI OG HAGKVÆMARI REKSTRAREININGAR

Eitt helsta einkenni íslensks sjávarútvegs eftir kerfisbreytingarnar á 9. og 10. áratug síðustu aldar er samþjöppun aflaheimilda í stærri og hagkvæmari rekstrareiningar. Þeirri þróun er ekki lokið, sérstaklega ekki í botnfiskveiðum. Stóru sjávarútvegsfélögin munu halda áfram að stækka rekstrareiningar sínar á næstu árum, hagræða í rekstrinum og lengja í virðiskeðjum sínum. Margt bendir þannig til að skipum muni áfram fækka nokkuð á næstu áratugum og löndun og vinnsla bolfisks muni færast á færri staði á landinu. Þetta ferli er hins vegar mun lengra komið í veiðum og vinnslu uppsjávarfisks þar sem stærri og hagkvæmari rekstrareiningar stunda veiðar og vinnslu. Um 80% alls uppsjávarafla er landað í nokkrum höfnum á Austfjörðum og í Vestmannaeyjum.

EITT SJÁVARÚTVEGSFYRIRTÆKI Á MARKAÐI

Það sem af er ári 2014 hefur verið sérstaklega viðburðaríkt hjá HB Granda sem keypti bæði Laugafisk og Vigni G. Jónsson, tilkynnti kaup á fimm nýjum skipum og var skráð á aðalmarkað NASDAQ OMX Iceland í vor. HB Grandi er núna eina sjávarútvegsfyrirtækið sem skráð er á markað en um aldamótin síðustu mynduðu ýmis sjávarútvegsfyrirtæki hryggjarstykkið í íslenska hlutabréfamarkaðnum. Þegar mest var árið 1999 voru 24 sjávarútvegsfyrirtæki skráð á aðalmarkað kauphallarinnar. Sameiningar félaga og fleiri breytingar í rekstrarumhverfi þeirra og skipulagi urðu þess valdandi að skráðum sjávarútvegsfyrirtækjum fækkaði hratt á nýrri öld. Nú er hins vegar möguleiki á endurkomu sjávarútvegsfyrirtækjanna á íslenska hlutabréfamarkaðinn en ætla má að það væri markaðnum og einhverjum stærri sjávarútvegsfyrirtækjum góður kostur að stefna á skráningu í kauphöllinni. Eitt af einkennum sjávarútvegsins er hve nýliðun í greininni er lítil. Skráning fleiri sjávarútvegsfyrirtækja á markað væri ákjósanleg leið til að opna greinina fyrir fjárfestum og almenningi.

[gdlr_divider type=“dotted“ ]

Næsta síða: Sjávarklasinn (framhald): Hagræðing, flutningar, makríll, litla tæknibyltingin