[gdlr_notification icon=“icon-flag“ type=“color-background“ background=“#62bdc7″ color=“#ffffff“]Þú ert að lesa vefútgáfu af skýrslunni Efnahagsleg umsvif og afkoma sjávarklasans á Íslandi 2013. Hægt er að sækja skýrsluna í heild á PDF undir útgáfa.[/gdlr_notification]

Sjávarútvegur og fiskvinnsla

  • Heildarafli: 1,36 m. tonn
  • Útflutningur: 272 ma. kr.
  • Starfsmenn: 8.600

Á árinu 2013 var heildarafli íslenskra skipa 1.363.000 tonn og dróst saman um 86.000 tonn milli ára. Heildaraflinn mun svo dragast enn meira saman á þessu ári sökum slakrar loðnuvertíðar í upphafi þessa árs. Ef frá er talin ýsa og úthafskarfi er bolfiskaflinn almennt að aukast og veiði úr þorskstofninum nú er meiri en verið hefur síðastliðinn áratug. Þá hafa verð á ferskum þorskafurðum stigið vel það sem af er þessu ári eftir almennar verðlækkanir síðan 2011. Verð á landfrystum afurðum eru enn nokkuð lág líkt og þau voru á árinu 2013 og skýrir það meðal annars hvers vegna afkoma í greininni dregst aðeins saman milli áranna 2013 og 2012. Sterkara gengi krónunnar árið 2013 skýrir einnig slakari afkomu milli ára.

121 ÞÚSUND TONNA SAMDRÁTTUR Í UPPSJÁVARAFLA

Samdráttur var á heildarafla uppsjávartegunda um 121.000 tonn milli áranna 2013 og 2012. Síldarafli dróst saman um 15%, loðnuafli um 22% og norsk- íslensk síld um 22%. Kolmunnaveiðar jukust hins vegar um 70% og horfur stofnsins eru mun betri en verið hefur undanfarin ár. Loðnuvertíðin í upphafi þessa árs var vonbrigði en aðeins veiddust um 112.000 tonn.

Á árinu 2013 veiddust hins vegar 450.000 tonn. Útflutningsverðmæti loðnu var 33,7 milljarðar króna árið 2013 en verður nálægt 13 milljörðum á þessu ári. Almennt hafa verð á uppsjávarfiski, lýsi og mjöli verið afar góð undanfarin misseri. Þá eiga sér stað breytingar í vinnslu uppsjávarfisks með bættri kæligetu nýrra skipa og aukinni vinnslu til manneldis. Lægra hlutfall uppsjávaraflans fer nú til bræðslu en áður.

ÚTFLUTNINGSFRAMLEIÐSLA EYKST

Útflutningur sjávarafurða jókst milli áranna 2012 og 2013 um 5% og útflutningsframleiðslan um 2,2%, þrátt fyrir aflasamdrátt. Útflutningur bæði uppsjávar- og botnfisktegunda jókst milli ára. Útflutningur þorskafurða nam 121.000 tonnum sem er aukning um 10.000 tonn frá árinu 2012. Þar af jókst útflutningur ferskra afurða um 8.300 tonn.

Útflutningsverðmæti sjávarafurða á árinu 2013 námu alls 272 milljörðum króna sem samsvarar 1,4% vexti frá fyrra ári. Hlutur sjávarafurða í verðmæti vöruútflutnings er nú 43%. Útflutningsverðmæti botnfiskafurða námu 57% af heildarútflutningsverðmætum, þar af námu verðmæti þorskafurða 32% heildarútflutningsverðmæta eða 87,6 milljörðum króna. Útflutningsverðmæti afurða sem framleiddar eru úr aukaafurðum er nú ekki minni en 25 milljarðar króna á ári.

EH1

[gdlr_divider type=“dotted“ ]