[gdlr_notification icon=“icon-flag“ type=“color-background“ background=“#62bdc7″ color=“#ffffff“]Þú ert að lesa vefútgáfu af skýrslunni Efnahagsleg umsvif og afkoma sjávarklasans á Íslandi 2013. Hægt er að sækja skýrsluna í heild á PDF undir útgáfa.[/gdlr_notification]
Flutningar og hafnastarfsemi
- Starfsmenn: 11.900
- Heildarvelta: 331 milljarður króna
Umsvif og afkoma fyrirtækja í flutningum tengist sterklega hagvexti og framleiðslu í landinu hverju sinni. Þess vegna fundu fyrirtæki á þessu sviði skarplega fyrir áhrifum efnahagsáfallsins árið 2008. Uppgangur í sjávarútvegi og ferðaþjónustu hefur knúið áfram aukna eftirspurn eftir flutningum síðan þá og nú er einnig talsverður stígandi í innflutningi og neyslu. Þar fyrir utan hafa þrjú stærstu fyrirtækin á þessu sviði, Eimskip, Samskip og Icelandair, fyrir löngu hafið umfangsmikla starfsemi á erlendri grundu enda eru flutningar í eðli sínu alþjóðleg atvinnugrein.
Flutningum (e. logistics) má lýsa sem stjórnun á flæði afurða og fólks frá upphafsstað og þangað sem þeirra er þarfnast samkvæmt tilteknum kröfum viðskiptavina eða fyrirtækja. Fjölmargar tegundir fyrirtækja taka þátt í þessari starfsemi, svo sem skipafélög, flugfélög, landflutningafélög, póstfyrirtæki, hafnir, flugvellir, vöruhús, flutningsmiðlanir og umskipunarfyrirtæki.
MIKILVÆGI FLUTNINGA Í SJÁVARKLASANUM
Skilvirkir flutningar og samgöngur eru eðli máls samkvæmt gríðarlega mikilvægir þættir í framleiðslu og útflutningi sjávarafurða. Á öllum stigum í virðiskeðju þeirra afurða sem íslensk fyrirtæki framleiða úr auðlindum hafsins spila flutningar mikilvægt hlutverk, hvort sem um ræðir á landi, í lofti eða á sjó. Að sama skapi má segja að sjávarútvegurinn hafi skipað stóran sess í að byggja upp öfluga innviði í flutningum hér á landi, enda mynda flutningar með sjávarafurðir tæplega 30% af heildarvöruútflutningi.
Ótvírætt er að sjávarútvegurinn skapar gríðarlega eftirspurn eftir flutningum. Samkvæmt rannsóknum Íslenska sjávarklasans má áætla að um fimmtungur af tekjum fyrirtækja í flutningsmiðlun og þjónustu sé kominn til vegna viðskipta við sjávarútvegsfyrirtæki. Þá má ætla að 7-8% af samanlögðum tekjum fyrirtækja í samgöngum á landi, sjó og vatnaleiðum sé af viðskiptum við sjávarútvegsfyrirtæki. Enn fremur má gera ráð fyrir að í kringum 40% af veltu í fraktflugi megi rekja til viðskipta sjávarútvegsfyrirtækja, en um 90% af öllum vöruflutningum frá Íslandi flugleiðis er með sjávarafurðir. Af þessu má áætla að tekjur af flutningum með sjávarafurðir hafi numið 19 milljörðum króna árið 2013.
HÆGUR STÍGANDI
Heildartekjur í flutningum með flugi (þ. á. m. fólksflutningum) hafa vaxið myndarlega á hverju ári undanfarin ár. Öðru máli gegnir um veltu í flutningum á landi, sjó og vatnaleiðum og vörugeymslu og stoðstarfsemi fyrir flutninga. Í hvorugri grein hafa tekjur náð sama stigi og árið 2008, mælt á föstu verðlagi, og lækkaði veltan lítillega í báðum greinum á milli áranna 2012 og 2013.
Samanlagðar heildartekjur stóru alþjóðlegu flutningafélaganna, Eimskips, Icelandair og Samskipa, jukust lítillega árið 2013. Tekjur Eimskips á árinu 2013 námu 433,8 milljónum evra, sem jafngildir 70,4 milljörðum króna, og stóðu þannig í stað milli ára á föstu verðlagi. Heildartekjur Samskipa námu 560 milljónum evra, sem jafngildir 90,9 milljörðum króna og jukust þannig um 3% milli ára á föstu verðlagi. Heildartekjur Icelandair Group numu milljarði bandaríkjadala, 125 milljörðum króna, á árinu 2013 og hafa þannig vaxið um rösklega 40% frá árinu 2009. Að baki vexti Icelandair eru stórauknir farþegaflutningar, en tekjur af þeim námu um 86 milljörðum króna. Tekjur Icelandair af vöruflutningum námu 5,2 milljörðum króna á árinu 2013.
STÓRAR HAFNIR STÆKKA, LITLAR HAFNIR MINNKA
Hér á landi eru 87 hafnir sem reknar eru í 44 hafnarsjóðum. Heildartekjur íslenskra hafna námu
um 7,3 milljörðum króna á árinu 2013 sem er 5,8% aukning frá fyrra ári. Aflagjöld vega þyngst í tekjum meirihluta íslenskra hafna, en þau námu 1.889 milljónum króna árið 2013 sem er lækkun frá fyrra ári um 3,3% mælt á föstu verðlagi. Stærri hafnir landsins hafa hins vegar umtalsverðar tekjur af annarri starfsemi eins og vöruflutningum, stóriðjuflutningum og ferðaþjónustu.
Mikill munur er á tekjum og fjárhagsstöðu einstakra hafnarsjóða. 62% af heildarveltu í hafnarstarfsemi tilheyrir fjórum stærstu hafnarsjóðunum, Faxaflóahöfnum, Fjarðarbyggðarhöfnum, Vestmannaeyjahöfn og Hafnasamlagi Norðurlands. Meirihluti minni hafna hefur ekki nægar tekjur til að standa straum af nauðsynlegum fjárfestingum og er mjög skuldsettur. Samþjöppun veiðiheimilda í sjávarútvegi hefur haft þau áhrif að fiski er sífellt landað í færri höfnum umhverfis landið. Þó ekki sé ástæða til að búast við viðsnúningi þessarar þróunar, nema síður sé, eru eftir sem áður starfræktar jafn margar hafnir og áður. Það er því nokkuð ljóst að annað hvort þarf að koma til fækkunar hafna og hafnasjóða eða umtalsverðrar aukningar í fjárveitingum ríkisins til reksturs þeirra. Í nýrri stefnumótun Hafnasambands Íslands, sem kynnt var í lok árs 2013, koma m.a. fram áætlanir um athuganir á sameiningar- og samstarfskostum íslenskra hafna.
Á myndinni til hliðar má sjá hvernig magn landaðs afla í höfnum landsins tók breytingum milli áranna 2012 og 2013. Hlutfallslega minnkaði afli mest í höfnum erlendis (-40%), á Vesturlandi (-14%), Suðurnesjum (-12,6%) og Suðurlandi (-10,4%). Hlutfallsleg aukning aflamagns var mest á Norðurlandi vestra (27,5%), Vestfjörðum (20,2%) og á höfuðborgarsvæðinu (5,2%). Að baki þessum breytingum býr m.a. samdráttur í uppsjávarafla um 121.000 tonn sem að megninu til er unninn á Austurlandi og í Vestmannaeyjum og aukinn botnfiskafli um 86.000 tonn, en um helmingur hans er unninn á höfuðborgarsvæðinu og á Suðurnesjum.
ÁHERSLUBREYTING KALLAR Á BREYTTA FLUTNINGA
Áherslubreyting sjávarútvegsfyrirtækja úr frystum afurðum í ferskar kallar á bætta og breytta flutninga, bæði innan lands og utan. Vöxtur í ferðaþjónustu undanfarin ár hefur eflt flutninganet landsins svo um munar og stækkað dreifingarsvæði ferskra sjávarafurða. Til marks um þá þróun nægir að nefna stóraukinn útflutning ferskra sjávarafurða til Kanada í kjölfar þess að Icelandair Cargo hóf áætlunarflug til Torontó árið 2012 og Edmonton árið 2013. Á milli áranna 2011 og 2013 jókst útflutningsverðmæti ferskra sjávarafurða frá Íslandi til Kanada úr 2,4 milljónum króna í 473 milljónir króna sem er 200-földun. Samverkandi vöxtur í ferðaþjónustu, sjávarútvegi og framleiðslu getur á þennan hátt spilað saman í að stækka og efla flutninganet og útflutningsmöguleika íslenskra fyrirtækja.
Í ljósi vaxtar í ferðaþjónustu, breytinga í sjávarútvegi og fjárfestingaáætlana í orkufrekum iðnaði er víst að flutningakerfi landsins þarf að taka stórfelldum breytingum á komandi árum. Þörf er á stækkun og fækkun hafna, eflingu vegakerfisins og öðrum breytingum á innviðum. Samhliða aukinni áherslu á útflutning ferskra sjávarafurða munu bættar flugsamgöngur opna sjávarklasanum á Íslandi ný tækifæri til verðmætasköpunar.
[gdlr_divider type=“dotted“ ]