[gdlr_notification icon=“icon-flag“ type=“color-background“ background=“#62bdc7″ color=“#ffffff“]Þú ert að lesa vefútgáfu af skýrslunni Efnahagsleg umsvif og afkoma sjávarklasans á Íslandi 2013. Hægt er að sækja skýrsluna í heild á PDF undir útgáfa.[/gdlr_notification]

HAGRÆÐING Í VEIÐUM, VÖRUÞRÓUN OG MARKAÐSSETNING

Enn er talsvert svigrúm til hagræðingar í veiðum, einkum bolfiskveiðum, en afkoma í veiðum uppsjávarfisks og bolfisks er enn nokkuð ólík. Hagræðingu í veiðum á kostnaðarhliðinni þarf hins vegar einnig að mæta með vöruþróun og bættu markaðsstarfi. Þar eiga íslensk fyrirtæki mikið inni. Neytendamarkaðir í Evrópu og Bandaríkjunum breytast nú ört, neytendur forðast vörur sem þeir vita ekki hvaðan koma og vilja í auknum mæli náttúrulegar, heilnæmar og rekjanlegar vörur. Hér er því um tækifæri að ræða fyrir íslenskan sjávarútveg en mikil vinna er eftir óunnin og samkeppnin á matvælamarkaðnum er hörð.

FLUTNINGAKLASINN Á ÍSLANDI

Umfang utanríkisviðskipta hefur jafnan stjórnað lífskjörum á Íslandi og þessi viðskipti hafa verið gerð möguleg fyrir tilstilli flutninga til og frá landinu. Eimskip fagnar 100 ára afmæli á þessu ári en saga þess er að vissu leyti samofin nútímavæðingu íslensks atvinnulífs á 20. öldinni. Nú eru flutningafyrirtækin hér á landi svo öflug, innanlands sem utan, að hægt er að tala um sérstakan flutningaklasa á Íslandi. Leiðarkerfi þessara fyrirtækja mynda svo saman stærsta og víðtækasta flutninganetið á Norður-Atlantshafi. Á næstu árum og áratugum má eiga von á nokkrum breytingum á umfangi flutninga og byggja þarf upp sterkari og samstilltari innviði til að mæta þeirri aukningu sem fyrirsjáanleg er, svo nýta megi þau tækifæri sem kunna að skapast í flutningum til og frá landinu.

Í byrjun október stóð Íslenski sjávarklasinn fyrir ráðstefnu um framtíð og stefnumörkun í flutningum á Íslandi. Þetta var í fyrsta sinn sem slík ráðstefna er haldin hér á landi, þar sem reynt er að draga upp heildstæða mynd af flutningastarfsemi á Íslandi og spáð í spilin varðandi framtíð greinarinnar. Fylgja þarf skýrri stefnu til framtíðar en það mun krefjast bæði pólitískrar forystu og samvinnu ólíkra fyrirtækja innan flutningaklasans. Sú vinna sem farið hefur verið í á vettvangi Íslenska sjávarklasans við stefnumörkun í greininni til framtíðar hefur gengið vel og gæti nýst sem fyrirmynd fyrir fleiri greinar, svo sem sjávarútveginn, tæknigeirann í matvælaiðnaði og líftækniiðnaðinn á Íslandi.

MAKRÍLL

Eftirhrunsárin í íslenskum sjávarútvegi hafa öðrum þræði verið lituð bláum strípum makrílsins, milljörðunum sem hann hefur skilað til þjóðarbúsins og deilunum sem hann hefur valdið. Frá árinu 2007 hefur samanlagt útflutningsverðmæti makríls á Íslandi numið rúmum 76 milljörðum króna og er árið 2014 þá ótalið. Þar af nam útflutningur á árinu 2013 rúmum 21 milljarði króna og útlit er fyrir að árið 2014 verði svipað. Stutt saga makrílveiða á Íslandi er nokkuð athygliverð. Þannig hefur makríliðnaðurinn á nokkrum árum farið frá því að þekkja lítil sem ekkert til veiða, meðhöndlunar, vinnslu og sölu makríls yfir í það að skapa sér ágæta stöðu á ýmsum mörkuðum með makrílafurðir sínar. Árið 2008 fór 94% makrílaflans til mjöl- og lýsisvinnslu. Nú fer líklega minna en 20% aflans í slíka vinnslu og allur afli sem hægt er að setja í verðmætari vinnslu er fluttur út frosinn og í litlu magni ferskur. Rússland er þar einn allra mikilvægasti markaður íslenskra fyrirtækja fyrir makríl en innflutningsbann Rússa á sjávarafurðir frá löndum ESB og Noregi, sem sett var á í byrjun sumars, hefur frekar haft neikvæð áhrif á íslensk útflutningsfyrirtæki með því að draga úr trausti á markaðnum. Heilt yfir hafa áhrif bannsins á verð og útflutningsmagn frá Íslandi verið hverfandi.

Makrílafli á árinu 2013 var 154 þúsund tonn sem er svipað og síðastliðin tvö ár. Hlutur smábáta í makrílkvótanum óx nokkuð í sumar og var nálægt 5%. Að vanda fór stærstur hluti kvótans til uppsjávarskipa eða um 70%. Meðan enn er ósamið við aðrar strandþjóðir um skiptingu makrílkvótans er ólíklegt að ráðherra komi tegundinni varanlega fyrir í kvótakerfinu eða geri miklar breytingar á því hvernig úthlutun er háttað. Semjist í vetur er líklegt að heildakvótinn til íslenskra aðila muni lækka nokkuð til næstu ára enda veiðar á tegundinni umfram ráðgjöf Alþjóða hafrannsóknaráðsins.

LITLA TÆKNIBYLTINGIN

Tæknifyrirtæki í sjávarklasanum hafa eflst myndarlega frá árinu 2008 og heildartekjur greinarinnar vaxa nú annað árið í röð um 12-13%. Þótt tekjur stærsta íslenska tæknifyrirtækisins, Marels, hafi dregist saman á liðnu ári eru dæmi þess að fyrirtæki með ársveltu upp á hundruð milljóna króna hafi tvöfaldað tekjur sínar á skömmum tíma. Eitt þeirra félaga sem hefur náð mestum vexti undanfarin ár er Skaginn hf. á Akranesi, en móðurfélag þess á jafnframt skipasmíðastöðina Þorgeir & Ellert. Á meðal stærri tíðinda síðustu missera í tæknigeira sjávarklasans eru kaup móðurfélags Skagans á ráðandi hlut í 3X Technology í ársbyrjun 2014. Fyrirtækin eru bæði í hópi stærri tæknifyrirtækja landsins og með kaupunum hefur myndast vísir að stóru félagi með breiða starfsemi, þótt ekki standi til að sameina félögin undir einu nafni strax.

Um svipað leyti og tilkynnt var um kaupin á 3X Technology var greint frá því að Skaginn, í samstarfi við Kælismiðjuna Frost, hefði gert samning við færeyskt sjávarútvegsfyrirtæki um uppsetningu uppsjávarvinnslukerfis í Fuglafirði í Færeyjum. Heildarverðmæti samningsins nemur rúmlega þremur milljörðum króna og að verkefninu koma um 20 íslensk tæknifyrirtæki. Viðskipti þessi eru til marks um mikla grósku og sterka samkeppnisstöðu tæknifyrirtækjanna á alþjóðlegum mörkuðum.

Margir stjórnendur tæknifyrirtækja í sjávarklasanum líta björtum augum á árið 2014 og bólgnar pantanabækur gefa fyrirheit um gott framhald á næstu misserum. Ástæða er til að búast við meiri vexti milli áranna 2013 og 2014, sérstaklega í ljósi fjárfestingaáætlana í íslenskum sjávarútvegi.

[gdlr_divider type=“dotted“ ]