[gdlr_notification icon=“icon-flag“ type=“color-background“ background=“#62bdc7″ color=“#ffffff“]Þú ert að lesa vefútgáfu af skýrslunni Efnahagsleg umsvif og afkoma sjávarklasans á Íslandi 2013. Hægt er að sækja skýrsluna í heild á PDF undir útgáfa.[/gdlr_notification]
Rannsóknir og menntun
Í sjávarklasanum á Íslandi er fjöldi opinberra stofnana sem sinnir rannsóknum og menntun tengdum sjávarútvegi og auðlindanýtingu hafsins. Líklega eru þessar rannsóknir á nytjastofnunum við Ísland og nýtingu þeirra umfangsmestu náttúrulífsrannsóknir sem fram fara hér á landi.
2,8 MILLJARÐAR Í SAMKEPPNISSJÓÐI
Auk menntastofnana sinna Hafrannsóknastofnun, Fiskistofa og Matís umfangsmiklum rannsóknum í sjávarklasanum. Hafrannsóknastofnun er í raun stærsta rannsóknastofnun landsins á þessu sviði en hún hefur það hlutverk að stunda rannsóknir á hafinu og lífríki þess, að veita ráðgjöf til stjórnvalda
um sjálfbæra nýtingu auðlinda hafsins og miðla upplýsingum til stjórnvalda, hagsmunaaðila í sjávarútvegi og almennings. Á síðastliðnum árum hafa fjárframlög stjórnvalda til stofnunarinnar verið skorin niður, en á árinu 2014 var hins vegar tilkynnt um aukið framlag upp á 243 milljónir króna.
Tækniþróunarsjóður Rannís hefur reynst fyrirtækjum í tækni- og vöruþróun í sjávarútvegi, sjávartækni og sjávarlíftækni dýrmætur, en sjóðurinn var skorinn niður árið 2013. Þessu var hins vegar snúið við árið 2014 og fjárframlög til sjóðsins aukin. Í maí 2014 var síðan tilkynnt um aukið framlag hins opinbera í tækniþróunarsjóð og rannsóknasjóð um 2,8 milljarða króna á árunum 2015-2016. Heildarframlag í tækniþróunarsjóð verður þá um 1.400 milljónir króna samanborið við 590 milljónir árið 2013. Gera má ráð fyrir að nýsköpunar- og þróunarfyrirtæki í sjávarklasanum taki því fagnandi.
STÓRAUKIN AÐSÓKN Í SJÁVARÚTVEGSTENGT NÁM
Aðsókn í nám tengt sjávarklasanum á Íslandi hefur vaxið stöðugt frá árinu 2008 á sama tíma og fjölbreytni námsleiða á því sviði hefur aukist. Á framhaldsskólastigi eru í boði námsleiðir í skipstjórn, vélstjórn, bátasmíði, netagerð og fisktækni. Á háskólastigi finnast námsleiðir í auðlindafræði, haf- og strandsvæðafræði, sjávartengdri nýsköpun, fiskeldi, matvælafræði og sjávarútvegsfræði. Árið 2013 bauð Háskólinn í Reykjavík auk þess upp á sérstakt nám fyrir stjórnendur í sjávarútvegi. Heildarfjöldi nemenda í þessar námsbrautir jókst um 73% milli áranna 2008 og 2013. Á undanförnum árum hefur mest nemendaaukning verið í skipstjórnarnám við Tækniskólann, en þar stunda nú 250 manns nám samanborið við tæplega 100 manns árið 2008. Þar að auki hefur fjöldi nemenda í sjávarútvegsfræði ekki verið meiri síðan 1997 en árið 2013 lögðu 62 manns stund á námið.
Merkja má aukinn áhuga ungs fólks á haftengdum greinum og margt bendir til að áhugi á sjávartengdri nýsköpun hafi sjaldan eða aldrei verið meiri. Á næstu árum verður umráðafé nýsköpunarsjóða stóraukið sem gefur til kynna áframhaldandi grósku í nýsköpunar- og þróunarfyrirtækjum sjávarklasans. Vonir standa til að þetta muni hafa áhrif til verðmætaaukningar og bættrar nýtingar auðlinda í sjávarklasanum á Íslandi til framtíðar.