Við erum í óðaönn við að ýta úr vör nýju verkefni – Verbúð Sjávarklasans – sem er hugsað sem langtíma stuðningur við öfluga frumkvöðla og tenging við rótgrónari fyrirtæki í samstarfsneti Sjávarklasans

Fyrirtækin koma að borðinu með áskoranir sem þau standa frammi fyrir sem Klasinn sér svo um að auglýsa og finna einstaklinga eða teymi sem hafa þróað lausnir sem get leyst þessar áskorunum.

Lausnirnar verða svo metnar í samstarfi við fyrirtækin og álitlegustu teymin komast áfram í tveggja daga hakkaþon sem haldið verður á vormánuðum í samstarfi við Háskóla-, nýsköpunar- og iðnaðarráðuneytið.

Þátttakendur hakkaþonsins komast svo áfram í Verbúðina – þar sem langtíma stuðningur við frumkvöðla og lausnir þeirra fer fram í samstarfi við fyrirtækin, mentora og starfsfólk Sjávarklasans.

Markmiðið með verkefninu er að vinna með markvissum hætti að því að sannreyna og prófa lausnir frumkvöðla í raunheimum og stuðla að því að lausnir sem verið er að þróa í nýsköpunarumhverfinu þjóni atvinnulífinu. Að auki verða til mikilvægar tengingar og samtal sem ætlað er að ýta undir aukna verðmætasköpun í víðum skilningi.

Héðinn skrifaði undir samstarfssamning við okkur í byrjun mánaðarins og munu þau m.a koma til með að taka þátt í Verbúðinni. Við kíktum í heimsókn til Eðvarðs Inga Björgvinssonar framkvæmdarstjóra og Mattíhasar Stephensen fjármálastjóra í Hafnafjörðinni að því tilefni og vorum leyst út með bókargjöf um 100 ára sögu félagins. Þau gerast varla rótgrónari fyrirtækin og mikill fengur fyrir okkur að fá jafn öflugt og fjölbreytt fagfólk til samstarfs um að efla nýsköpun og auka nýtingu í bláa hagkerfinu.

Eðvarð Ingi Björgvinsson framkvæmdastjóri Héðins, Heiða Kristín Helgadóttir framkvæmdastjóri Sjávarklasans og Mattíhas Stephensen fjármálastjóri Héðins. 

Landsbankinn mun koma að verkefninu sem styrktaraðili, auk þess sem sjávarútvegsteymi bankans mun styðja við frumkvöðla með handleiðslu og ráðgjöf. Rætur bankans ná aftur til ársins 1885, þannig að við teljum okkur sannarlega vera að standa undir væntingum þegar við segjumst ætla að tengja frumkvöðla og nýsköpunarumhverfið við rótgróin fyrirtæki. Við þökkum Hauki Ómarssyni og hans teymi fyrir komuna og hlökkum til framhaldsins. 

Haukur Ómarsson forstöðumaður sjávarútvegsteymis Landsbankans  og Heiða Kristín Helgadóttir framkvæmdastjóri Sjávarklasans.

Penninn var áfram á lofti, enda stemming fyrir því að leysa áskoranir einstaklega mikil í febrúar. Marel skrifaði undir samstarfssamning við Klasann og verður einnig þátttakandi í Verbúðinni. Saga þessa 40 ára gamla félags er mjög samofin nýsköpun í sjávarútvegi og því tilvalinn samstarfsaðili í þetta verkefni. Ólafur Karl Sigurðsson framkvæmdastjóri Marel Fish vandaði sig sérstaklega við undirritun og við erum sannfærð um að hann og hans fólk muni ljá verkefninu sterkar undirstöður.

Ólafur Karl Sigurðsson framkvæmdarstjóri Marel Fish og Heiða Kristín Helgadóttir framkvæmdastjóri Sjávarklasans.

Þegar leysa á áskoranir er alltaf gott að hafa traust teymi verkfræðinga og tæknimenntaðra einstaklinga sér við hlið. Þess vegna fögnum við því alveg sérstaklega að fá EFLU til liðs við okkur í Verbúðinni. En EFLA er þekkingarfyrirtæki, með hátt í 50 ára sögu, og veitir fjölbreytta þjónustu á öllum helstu sviðum verkfræði, tækni og tengdra greina.

Reynir Snævarsson vöruþróun og nýsköpun hjá EFLU og Heiða Kristín Helgadóttir framkvæmdastjóri Sjávarklasans

Fleiri samstarfsaðilar eru á teikniborðinu og við ráðgerum að teygja okkur út í frumkvöðla- og rannsóknarsamfélagið á næstu mánuðum með nokkrar áskoranir í farteskinu sem þarf að leysa.