[gdlr_notification icon=“icon-flag“ type=“color-background“ background=“#62bdc7″ color=“#ffffff“]Þú ert að lesa vefútgáfu af skýrslunni Efnahagsleg umsvif og afkoma sjávarklasans á Íslandi 2013. Hægt er að sækja skýrsluna í heild á PDF undir útgáfa.[/gdlr_notification]
Sölu- og markaðsstarfsemi
Líkt og árið 2012 voru markaðsmál sjávarafurða ofarlega á baugi í umræðum um íslenskan sjávarútveg á árinu 2013. Margir eru þeirrar skoðunar að sóknarfæri séu í sameiginlegri markaðssetningu íslenskra sjávarafurða á erlendum mörkuðum, sér í lagi í ljósi síharðnandi samkeppni og svipulla verðbreytinga. Öllum er ljóst að meira er hægt að gera í markaðssetningu íslensks fisks, óháð því hvort það verður gert í sameiginlegu átaki eður ei. Hér á landi eru starfrækt ríflega fjörutíu fyrirtæki sem stunda sölu og markaðssetningu á sjávarafurðum sem þau veiða ekki sjálf og nokkur þeirra selja einnig fisk sem veiddur er utan íslenskrar lögsögu.
BREYTTAR ÁHERSLUR HJÁ SÖLUFYRIRTÆKJUM
Tvö sölufyrirtæki í sjávarútvegi eru stærst hér á landi, Icelandic Group og Iceland Seafood International (ISI), en samanlagðar tekjur þeirra árið 2013 voru 135 milljarðar króna. Talsverðar breytingar urðu á rekstri Icelandic Group á árinu 2013. Skrifstofu félagsins í Noregi var lokað og nöfnum dótturfélaga var breytt svo að nú starfa þau öll undir vörumerki Icelandic.
Þá gekk félagið frá kaupum á fiskvinnslunni Ný-Fiski í Sandgerði og Útgerðarfélagi Sandgerðis sem gerir út línubát. Kaupin marka tímamót fyrir Icelandic sem nú hefur útgerð, víkkar út starfsemi sína og lengir í virðiskeðjunni til að bregðast við kröfum viðskiptavina sinna. Heildartekjur Icelandic Group námu 96 milljörðum króna árið 2013 sem er lítilsháttar aukning frá fyrra ári. Heildartekjur Iceland Seafood International námu 39 milljörðum króna sem er svipað og árið áður.
MARKAÐSSAMSTARF FÆR HLJÓMGRUNN
Sóknarfæri í samstilltu markaðsstarfi í sjávarútvegi hafa fengið aukinn hljómgrunn á undanförnum árum. Tvö slík verkefni eru nú starfrækt, annars vegar Iceland Responsible Fisheries, sem beinist einkum að fyrirtækjamarkaði og er í raun umhverfisvottun og hins vegar markaðsátak fyrir íslenskar saltfiskafurðir, en bæði verkefnin eru á vegum Íslandsstofu. Í árslok 2013 voru 107 fyrirtæki aðilar að Iceland Responsible Fisheries og 27 að markaðsátaki fyrir saltfiskafurðir. Þessi verkefni eru ótvírætt mun smærri í sniðum en hliðstæður þeirra, til að mynda í Noregi og Alaska, og margir hafa talað fyrir stærra og almennara markaðssamstarfi í sjávarútvegi. Ljóst er að þörf er á afar ríkum samstarfsvilja ætli íslensk sjávarútvegsfyrirtæki að koma því á fót og færð hafa verið rök fyrir því að líklega myndi slíkt seint verða að veruleika nema rekinn væri markaðssjóður fjármagnaður með sérstöku útflutningsgjaldi, sem óhjákvæmilega yrði umdeilt.
Innan sjávarklasans á Íslandi eru flest fyrirtækin lítil á alþjóðlegan mælikvarða og bolmagn til markaðssetningar óhjákvæmilega ekki mikið. Stærstu fyrirtækin á þessu sviði hafa byggt upp vörumerki en flest smærri fyrirtækin treysta hins vegar á sölustarfsemi en leggja lítið upp úr eiginlegri markaðssetningu og vörumerkjastjórnun sem beinist að neytandanum. Samstarf gæti reynst lykillinn að öflugri markaðssetningu, hvort sem er í útflutningi matvæla, tæknibúnaðar eða þekkingar.
[gdlr_divider type=“dotted“ ]