Halldór Ásgrímsson fyrrverandi forsætisráðherra var mikill áhugamaður um nýsköpun í sjávarútvegi. Hann heimsótti Íslenska sjávarklasann reglulega og sýndi þeim verkefnum sem klasinn vann að áhuga. Á síðasta ári kom starfsfólk klasans að máli við hann og kynnti hugmynd um að sameina krafta ýmissa íslenskra sérfræðinga til að efla sölu á ráðgjöf og þekkingu í sjávarútvegi á alþjóðavísu. Halldór var boðinn og búinn að aðstoða við þetta verkefni og tók þátt í undirbúningi þess.
Nokkrum dögum áður en hann lést ræddi Halldór svo við starfsfólk klasans um hvernig efla mætti áhuga á vöruþróun í sjávarútvegi. Hann vildi sjá meira af nýrri kynslóð í ýmsum spennandi verkefnum tengdum sjávarútvegi eins og í vöruþróun, vöruhönnun og markaðsmálum.
Á sínum langa stjórnmálaferli átti Halldór ríkan þátt í að móta þá umgjörð um íslenskan sjávarútveg sem stuðlað hefur að farsælum uppgangi greinarinnar og sjávarklasans alls síðustu ár og áratugi.
Við þökkum Halldóri samstarf og áhuga sem hann sýndi okkar frumkvöðlastarfi og sendum eiginkonu hans og fjölskyldu okkar dýpstu samúðarkveðjur.