Fiskifýla, betur þekkt hér á landi sem peningalykt, hefur reynst þröskuldur fyrir sölu á fiskipróteinum til manneldis. Í nýrri grein, sem birtist í vísindatímaritinu Applied and Environmental Microbiology, segir að með tiltekinni ensímvinnslu megi eyða þessari lykt.

Í dag er 10 milljónum tonna af hliðarafurðum sjávarafurða hent. Ef hægt er að draga úr fiskifýlunni opnast dyr fyrir hliðarafurðir sjávarafurða að verðmætum prótein mörkuðum þar sem eftirspurn er mikil en lítið framboð af náttúrulegum, sjálfbærum og rekjanlegum próteinum. Markmið Sjávarklasans er að draga úr sóun hliðarafurða um heiminn, undir merkjum “100% Fish”. Þessar niðurstöður geta skapað gríðarleg tækifæri fyrir sjávarútveginn og nýsköpunarfyrirtæki í geiranum.