Fjölmennt var á árlegri ráðstefnu Íslenska sjávarklasans, Flutningalandið Ísland, sem fram fór í Hörpu í gær. Markmið ráðstefnunnar er að fá ólíka aðila sem starfa við flutninga (e. logistics) á Íslandi til að segja frá stórum verkefnum og ræða framtíðarsýn fyrir Ísland í flutningamálum.
Meðal fyrirlesara í gær voru Skúli Mogensen, forstjóri WOW Air, sem fjallaði um uppbyggingaráform félagsins á næstu árum og kynnti einnig metnaðarfulla framtíðarsýn um að Keflavíkurflugvöllur kræki í milljónir millilendingafarþega til viðbótar ár hvert. Skúli tók dæmi af Dubai-flugvelli sem nú er stærsti flugvöllur í heimi með 78 milljónir farþega árlega. Þetta sé vegna markvissrar stefnumótunar sem íslensk stjórnvöld gætu tekið sér til fyrirmyndar, þó markmiðið sé varla að um Keflavík fari viðlíka fjöldi. Þó verður að hafa í huga að um íslenska flugumferðarsvæðið fara árlega meira en 50 milljónir farþega. Skúli sagði að hér væri tækifæri til staðar en það yrði ekki hér að eilífu, það mun renna Íslendingum úr greipum ef ekki er unnið markvisst að því að nýta það.
Undir þetta tók Kjartan Eiríksson, framkvæmdastjóri Kadeco, þróunarfélags Keflavíkur. Kjartan fjallaði um áætlanir um lagningu hraðlestar milli Keflavíkurflugvallar og höfuðborgarsvæðisins. Unnið hefur verið markvisst að undirbúningi verkefnisins í nokkur ár undir stjórn Kadeco. Gangi núverandi áætlanir eftir gætu framkvæmdir hafist 2020 og fyrsta ferðin farin fjórum árum síðar. Ferðatími lestarinnar milli Keflavíkurflugvallar og Vatnsmýrar í Reykjavík er áætlaður 15-18 mínútur.
Þorsteinn Hermannsson samgöngustjóri Reykjavíkurborgar fjallaði um fyrirhugaða íbúafjölgun á höfuðborgarsvæðinu og hvernig sú fjölgun næstu 25 árin kallar á nýja nálgun í samgöngumálum í Reykjavík. Fram kom í máli Þorsteins að um 15% af umferð í borgum væri atvinnuumferð líkt og vöruflutningar. Með fjölgun íbúa höfuðborgarsvæðisins um 70.000 íbúa fram til ársins 2040 er fyrirséð að álag á stofnumferðarkerfi höfuðborgarsvæðisins muni aukast gríðarlega ef ekki verður fjárfest í nýrri tegund almenningssamgangna, svokallaðri Borgarlínu, sem annað hvort verður léttlest eða hraðvagnakerfi sem ekur um í sérrými. Það er því brýnt hagsmunamál atvinnulífsins að vandað verði til uppbyggingar nýrra almenningssamgangna samhliða íbúafjölgun og þéttingu byggðar, svo ferðatími vöruflutninga og annarrar atvinnuumferðar lengist ekki.
Fjöldi annarra áhugaverðar efna voru tekin fyrir á ráðstefnunni. Ingi Björn Sigurðsson fjallaði um það hvernig þróun í upplýsingatækni muni koma til að breyta viðskiptaháttum flutningafyrirtækja. Hafsteinn Helgason sagði frá uppbyggingaráformum í Finnafirði þar sem hugsanlegt er að rísi stórskipahöfn til þjónustu við gas- og olíuiðnað á Drekasvæðinu, námavinnslu á Grænlandi og síðar til umskipunar gáma. Þá kynnti Mikael Tal Grétarsson niðurstöður úr greiningu Íslenska sjávarklasasann fyrir Icelandair Cargo á sótspori (e. carbon footprint) fersk fisk sem tekur flugið á markaði með Icelandair. Þær niðurstöður gefa til kynna að íslenskur fiskur sé mjög samkeppnishæfur þegar kemur að því að takmarka sótspor framleiðslunnar.
Íslenski sjávarklasinn þakkar samstarfsaðilum sínum fyrir vel heppnaða ráðstefnu.