Dagana 7. og 8. apríl mun hópur ungra frumkvöðla kynna og selja vörur sínar í Smáralind. Þetta eru 120 hópar  framhaldsskólanemenda sem hafa lært að stofna fyrirtæki og vinna að frumkvöðla- eða nýsköpunarhugmynd sinni. Vörumessunni er ætlað að vera þeim vettvangur til að sýna afrakstur sinn. Þetta er frábært tækifæri fyrir almenning til að skoða viðskiptahugmyndir unga fólksins og að styðja við fyrstu skref þeirra í viðskiptalífinu.

60 fyrirtæki munu kynna og selja vörur sínar á laugardeginum 7. apríl, eftir formlega opnun vörumessunnar, kl. 12:00 af Halldóri Benjamín Þorbergssyni, framkvæmdastjóra Samtaka Atvinnulífsins.
Á sunnudeginum 8. apríl, munu svo önnur 60 fyrirtæki kynna og selja vörur sínar. Vörumessunni lýkur formlega kl. 17:30 á sunnudag með verðlaunaafhendingu.

Íslenski sjávarklasinn hefur verið hópunum innan handar við hugmyndavinnu og skemmtilegt er að sjá hversu margir hópar eru spenntir fyrir nýsköpun í sjávarútvegi. Framtíðin er björt þegar kemur að ungum frumkvöðlum og tækifærin að því er virðist endalaus í haftengdri nýsköpun.

Við hvetjum alla til þess að gera sér ferð í Smáralind um helgina og kynna sér þær spennandi vörur sem ungir frumkvöðlar hafa upp á að bjóða.