Í tilefni tíu ára afmælis Íslenska sjávarklasans veitti Sjávarklasinn í dag viðurkenningar til einstaklinga sem hafa með einum eða öðrum hætti stuðlað að auknu samstarfi á ýmsum sviðum sem tengjast Íslenska sjávarklasanum. Athöfnin fór fram í Húsi sjávarklasans að Grandagarði 16. Þórdís Kolbrún Gylfadóttir Reykfjörð ráðherra ferðamála, iðnaðar og nýsköpunar afhenti viðurkenningarnar og forseti Íslands, herra Guðni Th. Jóhannesson ávarpaði gesti.

Gísla Gíslasyni fyrrum hafnarstjóra Faxaflóahafna var veitt sérstök viðurkenning frá stjórn samstarfsvettvangs samstarfsfyrirtækja Sjávarklasans fyrir forystu um uppbyggingu klasans við Reykjavíkurhöfn. Hús sjávarklasans við Reykjavíkurhöfn hefur stuðlað að margháttuðu samstarfi ólíkra einstaklinga og fyrirtækja og orðið vagga nýsköpunar í haftengdri starfsemi. Árangur Húss sjávarklasans hefur víða spurst út og hafa hafnir, bæði í Evrópu og Bandaríkjunum, sóst eftir upplýsingum um hvernig staðið var að þessari uppbyggingu. Forysta og áhugi Gísla Gíslasonar og stjórnar Faxaflóahafna skipti sköpum um þann árangur sem Hús sjávarklasans hefur náð.

Ásta Dís Óladóttir dósent við viðskiptadeild Háskóla Íslands hlaut viðurkenningu fyrir að efla samstarf atvinnulífs og Háskóla Íslands. Ásta Dís hefur stuðlað að því að fleiri nemendur hafa myndað tengsl við fyrirtæki í sjávarklasanum og kynnst þannig atvinnulífinu og tækifærum í bláa hagkerfinu.

Eva Rún Michelsen stofnandi Eldstæðisins hlaut viðurkenningu fyrir að hafa komið á fót vettvangi fyrir matvælafrumkvöðla sem hefur hefur aukið samstarf og opnað tækifæri fyrir fjölda frumkvöðla til að vinna að sinni nýsköpun í matvælum. Eva var jafnframt fyrsti framkvæmdastjóri Húss sjávarklasans.

Salóme Guðmundsdóttir fyrrum framkvæmdastjóri Icelandic startups hlaut viðurkenningu fyrir forystu um uppbyggingu á sprotastarfsemi í landinu. Salóme stóð í stafni við að koma á viðskiptahraðlinum Til sjávar og sveita en Icelandic Startups og Sjávarklasinn stofnuðu til þess verkefnis. Þessi nýi hraðall hefur stuðlað að enn öflugra frumkvöðlastarfi og aukið samstarf landbúnaðar og sjávarútvegs í frumkvöðlastarfsemi.

Sigurður Pétursson frumkvöðull og stofnandi fiskeldisfyrirtækisins Arctic Fish hlaut viðurkenningu fyrir ötult frumkvöðlastarf á sviði fiskeldis og fyrir að hvetja til víðtæks samstarfs frumkvöðla og iðnaðar. Sigurður var einn af fyrstu íbúum Húss sjávarklasans og þar hóf hann að þróa hugmynd sína um öflugt fiskeldi á Vestfjörðum. Sigurður hefur jafnframt verið afar hjálplegur við fjölda frumkvöðla sem leitað hafa í hans smiðjur.

Vilhjálmur Jens Árnason verkefnisstjóri hjá Sjávarklasanum hlaut viðurkenningu fyrir þátt hans í uppbyggingu klasans og kynningu á honum. Vilhjálmur hefur fylgt klasanum frá fyrsta degi og unnið að margháttuðum verkefnum hér og erlendis í tengslum við klasauppbyggingu og ráðgjöf.  Fyrsta verkefni Vilhjálms var í undirbúningi að stofnun klasans þegar hann hafði forystu um gerð ítarlegrar kortlagningar á allri haftengdri starfsemi á Íslandi. Sú aðferðafræði sem þar var tekin upp varð síðan fyrirmynd sambærilegra kortlagninga erlendra klasa sem tengjast Sjávarklasanum.  Vilhjálmur hefur kynnt klasastarfið víða um heim og liðsinnt þeim erlendu aðilum sem sýnt hafa áhuga á að opna sambærilega klasa utan Íslands.

Ljósmynd Eygló Gísladóttir.