Verkstjórafundur Íslenska sjávarklasans var haldinn í fjórða sinn dagana 7.-8. janúar sl., að þessu sinni í Húsi sjávarklasans. Fundurinn var afar vel sóttur og mættu um 60 verkstjórar úr fiskvinnslum víðsvegar að af landinu. Áhersla fundarins var á öryggismál, stjórnun og leiðtogahæfni og flutt voru mörg áhugaverð erindi. Meðal annars var fjallað um samskipti við erlent starfsfólk en það er margt sem getur flækst í samskiptum meðal annars vegna tungumálaörðugleika og ólíks menningarbakgrunns. Mikilvægt er að fara yfir þessi mál þar sem skortur á samskiptum getur meðal annars haft áhrif á öryggi starfsmanna, starfsanda o.fl.

Heimir Hallgrímsson var sérstakur gestur fundarins og ræddi við gesti um leiðtogaþjálfun. Það átti sérstaklega vel við að fá þjálfara íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu til að tala við íslenska landssliðið í fiskvinnslu ef svo má segja. Heimir ræddi um mikilvægi liðsheildar og þess að vera góður leiðtogi. Þegar ná á árangri þurfa allir að vera í sama liði og vinna saman. Að auki var fjallað um möguleika í sölu á fiski á netinu, kynntar voru ýmsar nýjungar í kæli-, framleiðslu- og vinnslutækni fyrir fiskvinnslur og nýjar vörur og nýsköpun í sjávarútvegi. Hátæknifyrirtækið Valka var sótt heim og starfssemi fyrirtækisins kynnt. Dagskránni lauk svo á fundi Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi um öryggismál.

Verkstjórafundurinn var haldinn í samstarfi við Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi, Skagann/3X, Völku, Marel og Samhenta og vill Íslenski sjávarklasinn þakka þeim sem og gestum og fyrirlesururum sérstaklega fyrir góðan fund og veittan stuðning.