Verkstjórafundur Sjávarklasans var haldinn öðru sinni föstudaginn 10. janúar í samstarfi við Iceland Seafood International og Icelandic Group. Alls sóttu 53 verkstjórar í sjávarútvegi fundinn sem fór fram í Sjóminjasafninu Víkinni við Grandagarð í Reykjavík. Verkstjórafundir Sjávarklasans er fyrst og fremst vettvangur fyrir verkstjóra í útgerð og vinnslu til að fræðast og ræða saman um þær áskoranir sem nú er tekist á við innan greinarinnar og um leið uppskeruhátíð fyrir þann árangur sem náðst hefur undanfarna áratugi við að bæta verklag, gæðamál og aflanýtingu hér á landi.

Á fundinum að þessu sinni voru tvö þemu í brennidepli, annars vegar gæðamál og hins vegar fullvinnsla afurða. Sex erindi voru flutt en áhersla lögð á umræður í hópum. Erindi um gæðamál fluttu þeir Sigurjón Arason yfirverkfræðingur og deildarstjóri hjá Matís, Jón Garðar Guðmundsson aðstoðarforstjóri Icelandic Group og Guðmundur Jónasson deildarstjóri ferskfiskdeildar ISI. Um fullvinnslu afurða fluttu erindi þeir Arnljótur Bjarki Bergsson sviðsstjóri á Matís, Pétur Pálsson framkvæmdastjóri Vísis hf. og Einar Lárusson þróunarstjóri Þorbjarnar í Grindavík.

Starfsfólk Íslenska sjávarklasans vill þakka fyrirlesurum og gestum fundarins sérstaklega fyrir þátttökuna og vonast til að sjá sem flesta aftur að ári.