Chitin 2Rösklega 50 manns frá Bandaríkjunum, Kanada og Íslandi sóttu fund sem haldinn var að frumkvæði Íslenska sjávarklasans og New England Ocean Cluster í Boston hinn 5. mars sl. Samstarfsaðilar klasans voru stofnanir frá Alaska, Massachusetts og Maine.

Fundarefnið var hvernig fullnýta megi skel. Mikið af skel humars og rækju fer til spillis í Bandaríkjunum en skelin inniheldur verðmæt prótein. Geir H. Haarde, sendiherra Íslands í Bandaríkjunum og Robert C. Barber sendiherra Bandaríkjanna hér á landi ávörpuðu fundinn og í kjölfarið kynntu sérfræðingar frá Maine, Alaska, Massachusetts, Íslandi og Nýfundnalandi hvernig skel er nýtt á þessum svæðum.

„Við erum að sýna nágrönnum okkar hvernig við nýtum hvítfiskinn og viljum þannig stuðla að meiri nýtingu á öðrum sjávardýrum,“ segir Þór Sigfússon hjá Íslenska sjávarklasanum. Þór segir að íslensk tæknifyrirtæki geti liðsinnt við nýtingu á skel og að tæknifyrirtækin Héðinn og Samey hafi bæði komið að slíkum verkefnum í Bandaríkjunum.