Þór Sigfússon, stofnandi Íslenska sjávarklasans, hefur verið skipaður af Guðlaugi Þór Þórðarsyni, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, fomaður nýs starfshóps sem hefur það hlutverk að setja fram tillögur sem varða innleiðingu á hringrásarhagkerfi.
Kristinn Árni Lár Hróbjartsson og Kristín Soffía Jónsdóttir munu gegna stöðu framkvæmdastjóra. Með hópnum starfa Guðmundur B. Ingvarsson og Kjartan Ingvarsson frá umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytinu.
Stjórnvöld leggja áherslu á nauðsyn þess að innleiða hringrásarhagkerfi hér á landi sem þátt í að uppfylla markmið í loftslagsmálum og um kolefnishlutleysi. Um áramótin taka meðal annars gildi breytingar á lögum um meðhöndlun úrgangs, lögum um úrvinnslugjald og lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir sem stuðla eiga að hringrásarhagkerfi. Þá var á síðasta ári gefin út stefnan Í átt að hringrásarhagkerfi, sem er heildarstefna í úrgangsmálum og settar hafa verið upp fjölmargar aðgerðir í málaflokknum til næstu ára.
Tillögur starfshópsins að innleiðingu hringrásarhagkerfis eiga m.a. að fela í sér:
- Hvernig unnt verði að flýta eins og kostur er innleiðingu á hringrásarhagkerfi hér á landi.
- Aukið samstarfi ríkis, sveitarfélaga og einkaaðila til þess að stuðla að virku hringrásarhagkerfi.
- Að atvinnulífið verði leiðandi í innleiðingu hringrásarhagkerfis í samstarfi við ríki og sveitarfélög.
- Hvernig megi stuðla að opnum og gegnsæjum markaði með úrgang sem ýtt gæti undir nýsköpun hér á landi.
Þetta eru sannarlega góðar fréttir fyrir hringrásarhagkerfið. Meira um fréttina hér.