Í bókinni „The New Fish Wave – How to ignite the seafood industry“ lýsir Þór Sigfússon stofnandi Sjávarklasans hvernig Íslendingar hafa byggt upp fjölbreytta atvinnustarfsemi í kringum Íslenskan sjávarútveg og tekist að búa til fjölmörg haftengd nýsköpunarfyrirtæki sem eru á heimsmælikvarða.

Í dag er talið að um 10 milljónum tonna af fiski sé hent á heimsvísu og stór hluti þess eru verðmæt prótein sem nýta má á ýmsan hátt. Íslendingar nýta mun meira af hverjum veiddum hvítfiski en aðrar þjóðir en víða erlendis er nær öllu nema fiskflakinu hent.

Útrás þekkingar íslenskra tæknifyrirtækja í vinnslu, fjölmarga fullvinnslufyrirtækja og rannsóknastofnana getur stuðlað því að draga úr sóun og slæmri meðferð á sjávarauðlindum um allan heim. Bókin er því ekki síður ákall til Íslendinga um að þeir skynji þau tækifæri sem þjóðin hefur til að hafa umtalsverð og jákvæð áhrif á umgengni þjóða um sjávarauðlindir og þar með umhverfi hafsins.

„The New Fish Wave“ fjallar um hvernig Íslenski sjávarklasinn, sem stofnaður var árið 2011, hóf markvisst að efla áhuga á og hlúa að fjölbreyttri nýsköpunarstarfsemi í tengslum við sjávarútveg. Sá árangur sem náðist hefur vakið athygli út fyrir landsteinana. Nú þegar hafa verið stofnaðir fjórir systurklasar í Bandaríkjunum og áhugi er hjá aðilum víða um heim að setja upp sjávarklasa að íslenskri fyrirmynd. Þá verður Hús sjávarklasans opnað í Portland í Mainefylki í Bandaríkjunum hinn 18. mars næstkomandi.

Bókin er hugsuð sem eins konar leiðarvísir fyrir svæði eða lönd sem vilja efla haftengda
starfsemi með því meðal annars að auka nýsköpun og bæta nýtingu afurða sjávar.

„The New Fish Wave“ kemur út á vegum Leete‘s Island Books í Bandaríkjunum. Hún verður einnig fáanleg á rafrænu formi og hjá Amazon. Eymundsson á Skólavörðustíg selur einnig bókina. Hönnuðir bókarinnar eru arnar&arnar.