Á dögunum tók Íslenski sjávarklasinn á móti þeim Stål Heggelund, framkvæmdastjóra norska fiskeldisklasans NCE Aquaculture og Jostein Refsnes, stjórnarformanni laxeldisfyrirtækisins Nordlaks. Tilgangur ferðarinnar var að kanna möguleika á samstarfi íslenskra og norskra fyrirtækja í hvítfiski annars vegar og laxeldi hins vegar með sérstaka áherslu á nýtingu hliðarafurða úr framleiðslu. 

Stål og Jostein heimsóttu Vísi í Grindavík, Haustak og önnur framúrskarandi fyrirtæki í framleiðslu bolfisks og áttu fundi með aðilum sem eru í fararbroddi í fullnýtingu hráefnis. Þeim þótti ljóst að Norðmenn geti lært mikið af Íslendingum á því sviði. Á sama tíma séu gríðarleg tækifæri í að tengja saman íslensk og norsk fiskeldisfyrirtæki enda geti þekking Norðmanna nýst í þeirri uppbyggingu greinarinnar sem nú á sér stað hér á landi.
 
Við hlökkum til að vinna áfram með NCE Aquaculture að þessu verkefni, en m.a. eru uppi hugmyndir um ráðstefnu næsta vetur fyrir stjórnendur íslenskra og norskra sjávarútvegs- og fiskeldisfyrirtækja.