Dagur þorsksins

Á fimmtudaginn næsta, þann 24. september, ætlum við í Húsi sjávarklasans að fagna Degi þorsksins ásamt ýmsum samstarfsfyrirtækjum okkar og öðrum vinum við Gömlu höfnina. Við opnum Hús sjávarklasans fyrir gesti kl. 14 og fjöldi fyrirtækja og frumkvöðla sem tengjast þorskinum á einhvern hátt munu kynna sig og vörur sínar.

Markmið dagsins er að kynna íslensk fyrirtæki sem hafa þróað ýmsa tækni og vörur sem tengjast þorskinum en Íslendingar hafa verið í fararbroddi í Norður-Atlantshafi í sköpun aukinna verðmæta úr þorskafurðum og við þróun nýrrar tækni fyrir bolfiskvinnslu.

Skipulögð dagskrá verður vítt og dreift um Hús sjávarklasans frá kl. 14-17 og munu gestir meðal annars fá tækifæri til að smakka fjölda ólíkra matvæla og fæðubótarefni, kynnast lyfjafyrirtækjum og frumkvöðlum í ýmsum öðrum geirum.

Hægt verður að gæða sér á fiskhausasúpu frá Haustaki, niðursoðinni lifur frá Ægi Seafood, Fisherman býður upp á þorska cheviche, Ankra verður að sjálfsögðu með kollagendrykk, Codland með kollagenbombu, Dropi mun bjóða gestum að smakka kaldpressaða þorskalýsið sitt og Sjóminjasafnið ætlar að kíkja í heimsókn og bjóða upp á snittur.

Hlökkum til að sjá ykkur!

Dagur þorsksins verður einnig haldinn í Portland, Maine í Bandaríkjunum og í Nuuk, Grænlandi í samstarfi við New England Ocean Cluster, KNAPK og Sermersooq Business Council.

Samstarfsaðilar Dags þorsksins eru Marel, Þorbjörn, Vinnslustöðin, Skinney-Þinganes og Hraðfrystihúsið-Gunnvör.