Systurklasi Íslenska sjávarklasans í New Bedford borg í Massachusetts fylki í Bandaríkjunum, New Bedford Ocean Cluster (NBOC), var stofnaður í dag, fimmtudaginn 21. september. Klasinn er annar systurklasi Íslenska sjávarklasans í Bandaríkjunum en sambærilegur klasi í Maine, New England Ocean Cluster, var stofnaður árið 2014. Báðir bandarísku klasanna verða hluti af neti klasa sem Íslenski sjávarklasinn setti á laggirnar og hefur að markmiði að efla alþjóðlegt frumkvöðlastarf í tengslum við hafið. Borgarstjóri New Bedford, Jon Mitchell og Þór Sigfússon stofnandi Íslenska sjávarklasans undirrituðu stofnsamninginn að viðstöddu fjölmenni. New Bedford borg liggur við Norður Atlantshaf og er stærsta uppskipunarhöfn á sjávarafurðum í Bandaríkjunum með ársveltu sem samsvarar um 40 milljörðum íslenskra króna. Í borginni eru 30 fiskvinnslufyrirtæki. NBOC og Sjávarklasinn hafa skrifað undir samstarfsyfirlýsingu þar sem meðal annars eru sett sameiginleg markmið um að efla samstarf á milli frumkvöðla og veita þeim færi á að tengjast frumkvöðlum á öðrum svæðum. Áherslur einstakra klasa taka mið af aðstæðum á hverjum stað. Vegna nálægðar við öfluga háskóla í Massachusetts mun NBOC leggja áherslu að að nýta það samstarf til að tengja nýsköpunarstarf skólanna betur við frumkvöðla í klasanum. Þá verður horft til nýtingar vindorku á hafinu, sjálfvirknivæðingar og meiri nýtingar sjávarafurða og afurða í fiskeldi. „Með stofnun New Bedford Ocean Cluster er ætlunin að auka veg nýsköpunarfyrirtækja sem tengjast hafinu og örva þau til að efla einnig tengsl yfir landamæri,“ segir Þór Sigfússon stofnandi Sjávarklasans. „Stofnun klasans í New Bedford er mikilvægur liður í þessari uppbyggingu. Það eru mikil tækifæri i þessari gamalgrónu sjávarútvegsborg.“ Forystumenn klasans í New Bedford eru þeir Ed Washburn hafnarstjóri New Bedford og Chris Rezendes fjárfestir og framkvæmdastjóri ImpactLABS í New Bedford sem er frumkvöðlavettvangur. Húsnæði ImpactLABS verður nýtt undir starfsemi frumkvöðlafyrirtækja sem tengjast NBOC. Þá verður íslenskum fyrirtækjum, sem tengjast klösunum, jafnframt boðin aðstaða í þeim húsakynnum. Nánari upplýsingar veita Berta Daníelsdóttir í s. 698-6200 og Þór Sigfússon í s. 618-6200