Í síðustu viku fengu tæplega 200 frábærir nemendur í 10. bekk í Réttarholtsskóla og Lindaskóla kynningu á íslenskum sjávarútvegi frá starfsmönnum Sjávarklasans, þeim Heiðdísi Skarphéðinsdóttur og Sigfúsi Ólafi Guðmundssyni. Starfið á vorönn fer því af stað af fullum krafti en framundan eru kynningar víðsvegar á höfuðborgarsvæðinu og á Suðurnesjunum. Þetta er þriðja skólaárið sem Sjávarklasinn stendur fyrir fræðslunni en henni hefur verið tekið einstaklega vel af skólunum.

Markmið kynninganna er að efla áhuga unga fólksins á sjávarútveginum og sýna þeim hvernig hinar ýmsu náms- og starfsleiðir tengjast þessari spennandi grein. Einnig er farið stuttlega yfir sögu og tækniþróun, helstu fiska og lífverur ásamt því að kynna fyrir þeim hinn nýja sjávarútveg með áherslu á nýsköpun.

Kynningarnar eru skólunum að kostnaðarlausu en AVS rannsóknarsjóður í sjávarútvegi og Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi styrkja verkefnið.