Íslenski sjávarklasinn og Háskóli Íslands hafa ákveðið að efna til samstarfs um að tengja verkefni á meðal fyrirtækja í Sjávarklasanum við verkefnavinnu nemenda í Nýsköpun og viðskiptaþróun sem er þverfaglegt nám á meistarastigi. Sjávarklasinn hefur óskað eftir því við stór og smá fyrirtæki sem eru í samstarfi við klasann að þau feli nemendunum að vinna tiltekin nýsköpunar- eða viðskiptaþróunarverkefni. Viðbrögð fyrirtækja innan klasans hafa þegar verið mjög góð.
„Það er gaman að tengja nemendur HÍ við Sjávarklasann. Við stigum fyrstu skrefin í því í fyrra og sáum að nemendum fannst mjög gagnlegt að kynnast Sjávarklasanum og þeim anda sem ríkir þar. Það er ánægjulegt að við skulum nú vera að þróa samstarfið frekar,“ segir Dr. Magnús Torfason lektor í nýsköpun og viðskiptaþróun við HÍ.
„Nýsköpun til framtíðar hvílir á því að við fáum stöðugt inn nýja frumkvöðla til að koma hugmyndum í framkvæmd. Skólasamfélagið er frábær vettvangur til þess og við hlökkum til samstarfs við HÍ,“ segir Þór Sigfússon framkvæmdastjóri Íslenska sjávarklasans.