Þór Sigfússon, framkvæmdastjóri Íslenska sjávarklasans er þessa dagana staddur í Portland, Maine í Bandaríkjunum þaðan sem hann fer til Boston á Boston Seafood Expo. Þór kynnir Íslenska sjávarklasann og fer yfir atriði tengd nýtingu aukaafurða, klasasamstarfi og nýsköpun í sjávarútvegi. Þar verður Sjávarklasinn meðal annars kynntur sjávarútvegstengdum fyrirtækjum í Portland auk National Seafood Marketing Coalition, sem eru sameiginleg markaðssamtök í sjávarútvegi í Bandaríkjunum.

„Bandaríkjamenn, rétt eins og margar aðrar fiskveiðiþjóðir við Norður-Atlantshaf, líta nú til reynslu Íslendinga af því að gjörbæta verðmætasköpun í sjávarútvegi og nýtingu aukaafurða.“ segir Þór og bendir á að tækifæri Íslendinga til útflutnings á þekkingu í sjávarútvegi hafi aldrei verið stærra en nú, þegar flestar fiskveiðiþjóðir heims leggja aukna áherslu á að efla nýtingu sjávarafurða. „Við finnum fyrir miklum áhuga þjóðanna í kringum okkur á auknu samstarfi á þessu sviði.“ segir Þór.