Í dag var Sjávarakademía Sjávarklasans sett á laggirnar í nánu samstarfi við Fisktækniskóla Íslands. Í Sjávarakademíunni mun nemendum gefast kostur á að kynnast frumkvöðlastarfsemi sem tengist hafinu, læra um sjálfbærni og hvernig bæta megi umhverfi og afurðir hafsins.  Aðalkennslan fer fram í Húsi sjávarklasans en einnig fer kennsla fram í haftengdum fyrirtækjum og stofnunum á Suðurnesjum.

Sjávarakademían býður upp á nám sem stendur yfir í eina önn og hefst námið í haust. Í sumar verður sérstakt 4 vikna námskeið Sjávarakademíunnar þar sem lögð er áhersla á nýsköpun, sjálfbærni og tækifæri í bláa hagkerfinu. Þetta námskeið er ætlað fólki sem hefur áhuga á umhverfismálum og öllu er við kemur hafinu.

Á sumarnámskeiði Sjávarakademíunnar munu þátttakendur hitta frumkvöðla og kynnast því hvernig þau komu hugmynd í framkvæmd, læra að stofna fyrirtæki, kynnast fjölmörgum tækifærum til að nýta betur sjávarauðlindir, læra um sjálfbærni og umhverfismál.

Námskeiðið er stutt af Menntamálaráðuneytinu og er námskeiðsgjaldi því stillt mjög í hóf. Námskeiðsgjald er 3.000 krónur.

“Ef einhvern tíma var þörf þá er núna nauðsyn að efla áhuga fyrir haftengdum greinum. Aldrei áður í sögunni hefur jafn mikið verið rætt um fæðuöryggi hérlendis eins og undanfarna mánuði og tækifærin í þeim efnum í hafinu við Ísland eru mikil,” segir Ólafur Jón Arnbjörnsson skólastjóri Fisktækniskólans. 

“Við viljum vekja áhuga fólks á þeim tækifærum sem Ísland hefur upp á að bjóða í tengslum við hafið. Við þurfum meira af fólki sem mun í framtíðinni vinna við eða skapa störf tengd umhverfismálum á hafinu, markaðssetningu íslenskra vara, sjálfbærni, útflutningi tækniþekkingar, þörungaeldi og sjávarlíftækni svo eitthvað sé nefnt,” segir Þór Sigfússon stofnandi Sjávarklasans. “Ísland á að vera í forystu á þessu sviði á heimsvísu og Sjávarakademían er einn vettvangur sem nýtist í þeim tilgangi.”

“Nú viljum við breikka aðeins sviðið, benda þátttakendum á urmul nýrra tækifæra sem tengjast hafinu en nýta um leið þá miklu reynslu sem til staðar er hjá nýsköpunarfyrirtækjum sem þátttakendur munu kynnast.” segir Berta Daníelsdóttir framkvæmdastjóri Sjávarklasans og kennari á námskeiðinu.

Nánari upplýsingar um Sjávarakademíuna og sumarnámskeið má finna hjá Söru Björk Guðmundsdóttir verkefnisstjóra námsins á sarabjork@sjavarklasinn.is