Haraldur Árnason mun leiða nýtt markaðsfyrirtæki sem sett hefur verið á laggirnar á sviði skipa­lausna, Knarr Ma­ritime. Að hinu nýja  fyr­ir­tæki standa ís­lensku fyr­ir­tæk­in Skag­inn 3X, Nautic, Kæl­ismiðjan Frost, Brimrún, Naust Mar­ine og Skipa­tækni sem öll hafa á und­an­förn­um árum komið að hönn­un, þróun, smíði og sölu á búnaði og skip­um til veiða og vinnslu á sjáv­ar­fangi.

Haraldur Árnason starfaði um árabil hjá Hampiðjunni í markaðs- og sölumálum og er því öllum hnútum kunnugur í markaðsmálunum. „Það er gaman að segja frá því að þegar við vorum að undirbúa stofnun klasans árið 2011 þá var það Haraldur sem bauð fram aðstöðu Hampiðjunnar til að halda fyrsta sameiginlega fund tæknifyrirtækja í sjávarútvegi. Við höfum alla tíð átt gott samstarf við hann og ég held að fáir menn hafi jafn gott auga fyrir mikilvægi samstarfs íslensku fyrirtækjanna á þessu sviði og hann,“ segir Þór Sigfússon hjá Sjávarklasanum.

„Við fögnum þessu samstarfi og trúum því að fleiri slík tækifæri til samstarfs geti skilað árangri,“ segir Þór. Hann bendir á að íslensku fyrirtækin séu að keppa við risa á alþjóðamarkaði þegar kemur að skipasmíði og skipatækni. „Með þessu kemur hópur fyrirtækja fram sem ein heild undir merki Knarr Maritime og auðvitað Íslands.“