Útdráttur úr skýrslu NOFIMA og ECON í Noregi sem nefnist  Markeds- og verdikjedeanalyse: Fase 1 av prosjektet Value Propositions i nordisk marin sektor. Skýrslan kom út sumarið 2011.  Höfundar eru Audun Iversen (Nofima), Jørgen Mørch Klev, Renate Enemark Bergersen, Kristianne Storehaug og Rolf Røtnes (Econ Pöyry).

 

Norðurlandaþjóðirnar eru öflugar í sjávarútvegi og fiskeldi …

 

Norðurlandaþjóðirnar veiða yfir fimm milljón tonn af fiski á ári og framleiða um eina milljón tonna af eldisfiski.  Samanlagt eru Norðurlandaþjóðirnar með meira magn veiða og framleiðslu í fiskeldi en allar aðrar Evrópuþjóðir. Þetta kemur fram í skýrslunni  „Markaðs- og virðisgreining í norrænum sjávarútvegi og tengdum greinum“ sem nýverið kom út á vegum Norrænu nýsköpunarmiðstöðvarinnar.

 

Í skýrslunni er bent á að Norðurlöndin skipti verulegu máli í heimsviðskiptum með fisk, en til samans er útflutningur Norðurlandanna meiri en útflutningur Kínverja sem er sú þjóð í heiminum sem er stærst í útflutningi á fiski.  Norðurlöndin flytja út fisk til um 150 landa. Evrópski markaðurinn er lang mikilvægastur en 2/3 af útflutningnum fer inn á þann markað. Ef litið er til landa Evrópusambandsins að undanskildum þeim þremur Norðurlandaþjóðum er tilheyra sambandinu nam útflutningurinn um 2,6 milljónum tonna 2009.

 

Í skýrslunni eru raktir helstu styrkleikar Noðurlandaþjóðanna í tengslum við sjávarútveg.

 

  • Norðmenn hafa náð gríðarlegum árangri í fiskeldi.  Árið 1985 nam framleiðsla í norsku fiskeldi 50 þúsund tonnum en var um ein milljón tonn árið 2010.
  • Danir hafa náð miklum árangri í markaðs- og sölumálum, flutningum og frekari úrvinnslu.
  • Íslendingar hafa náð árangri í hagkvæmni í sjávarútvegi, m.a. með samlegð veiða og vinnslu.
  • Færeyingar hafa náð góðum árangri í bæði sjávarútvegi og fiskeldi.
  • Svíar starfrækja mörg lítil fyrirtæki sem hafa verið framarlega í nýsköpun í tengslum við sjávarútveg og neytendamarkað.

 

… og þar hafa Íslendingar náð árangri í sjávarútvegi …

 

Í skýrslunni er reynt að bera saman afrakstur sjávarútvegs og fiskeldis á milli  Norðurlandaþjóðanna. Samkvæmt skýrslunni er hagkvæmni fiskveiða mest á Íslandi, en verðmætasköpun fiskveiða á Íslandi er álíka mikil og í Noregi, eða yfir 120 milljarðar á síðasta ári,  þrátt fyrir að afli Norðmanna sé tvöfallt meiri bæði m.t.t. verðmæta og magns.  Verðmætasköpun hvers fiskimanns á Íslandi er um 900.000 NOK á ári sem er um 50% meira en verðmætasköpun á norskan, danskan eða færeyskan sjómann þar sem verðmætasköpunin nemur um 600.000 NOK á ári.

Norðurlöndin eru einnig umsvifamikil þegar kemur að fiskveiðum.  Norðmenn, Íslendingar og Danir eru í hópi 5 mestu fiskveiðiþjóða Evrópu.  Af þessum ríkjum veiða Norðmenn 2,4 milljónir tonna, Íslendingar 1,3 milljónir tonna og Danir 700.000 tonn.  Færeyingar sem eru 8 stærsta fiskveiðiþjóð innan Evrópu veiða svo 500.000 tonn. Samanlögð veiði Norðurlandanna allra árið 2008 var vel yfir 5,3 milljónir tonna, en öflugasta fiskveiðiþjóð Evrópu Rússar veiddu þá rúmar 3 milljónir tonna.

Þó margt sé líkt með hinum norrænu ríkjum eins og t.d. tæknivæddur og nútímalegur floti er þó ýmislegt sem greinir löndin að.   Íslendingar reka arðsaman sjávarútveg sem ræðst m.a. af fiskveiðstjórnunarkerfi sem hvetur til aukinnar hagkvæmni.   Íslenski flotinn er þannig að skila svipaðri rekstrarniðurstöðu og norski flotinn þó síðarnefndi flotinn sé að veiða tvöfallt meira magn og hafi tvöfalt meiri veltu.

Í Noregi og reyndar hinum Norðurlöndunum líka eru meiri skil á milli veiða og vinnslu en á Íslandi þar sem útgerð og fiskvinnsla er oft á einni hendi. Þetta leiðir til meiri samhæfingar og aukinna gæða í íslenskum fiskiðnaði að mati skýrsluhöfunda.  Norðmenn flytja út meira af óunnum eða lítt unnum fiski en Íslendingar.

… en Norðmenn skara framúr í fiskeldi.

Á meðan umsvif í fiskeldi hafa ekki aukist mikið á Íslandi hefur mikilvægi þess aftur á móti aukist verulega í Noregi, en Norðmenn eru í dag langstærstir í eldi í Evrópu með um milljón tonna framleiðslu.  Ólíkt Norðmönnum og Íslendingum eru Danir, Svíar og Finnar innan vébanda  Evrópusambandsins og njóta nálægðar við markaðinn og lægri tolla. Fyrir þessi ríki hefur sjávarútvegur aftur á móti fremur litla þýðingu.  Hjá Finnum er hlutdeild sjávarútvegs í vergri landsframleiðslu aðeins um 0,04%, í Svíþjóð vegur sjávarútvegur um 0,1% og í Danmörku vegur hann um 0,3%. Hér má geta þess að fiskeldi í Færyeyjum og í Danmörku hefur einnig færst í vöxt.

Markaðsþróunin á næstu árum bendir til áframhaldandi vaxtar …

Í skýrslunni er m.a. fjallað sérstaklega um þá þætti sem höfundar telja að muni hafa mest áhrif á neyslu sjávarafurða á komandi árum.  Rakin er neysla sjávarfangs í heiminum í dag en þar kemur m.a. fram að hver Íslendingur neytir tæplega 90 kílóa af sjávarfangi á ári á meðan meðaltal í Evrópuríkjum er um 10-25 kíló.

Neysla á fiskmeti í Evrópuríkjum nam um 10.5 milljónum tonna og er að aukast, en fyrir 20 árum nam neyslan rúmlega 8 milljón tonnum á ári.  Á meðan fiskneysla hefur verið að aukast í ríkjum Evrópusambandsins hefur dregið úr veiðum, þær voru í upphafi þessa tímabils um 8 milljónir tonna, en eru nú um 5,5 milljónir tonna.

Með vaxandi velmegun í heiminum eru líkur til þess að neysla fisk- og kjötmetis muni aukast. Skýrsluhöfundar benda á að með auknum áhuga fyrir bættri heilsu skapist tækifæri fyrir sjávarútveg og fiskeldi.  Þá benda höfundar skýrslunnar á að meiri krafa sé gerð til þess að auðvelt sé að matreiða fisk og kjötmeti og þar séu áskoranir fyrir sjávarútveg og fiskeldi þar sem neytendur eru síður kunnugir matreiðslu fisks en kjöts.

… og þar eru tækifæri í fullvinnslu.

Í skýrslunni segir að á síðustu árum hafi rannsóknir og nýsköpun aukist umtalsvert í sjávarútvegi og fiskeldi.  Mikill áhugi sé fyrir fullvinnslu afurða og að breyta fiskmeti í heilsubótarefni, snyrtivörur og lyf svo eitthvað sé nefnt.

Á endanum skiptir arðsemin þó mestu máli.

Það er niðurstaða skýrsluhöfunda að bæði í veiðum og vinnslu séu Íslendingar og Norðmenn með bestu afkomu af Norðurlandaþjóðunum í þeim greinum sem um ræðir.  Þar eru Norðmenn í forystu í arðsemi af fiskeldi en Íslendingar með afgerandi forystu í sjávarútvegi.

Samantekt: Vilhjálmur Jens Árnason og Þór Sigfússon