Slorið fær verðmiða 

Ágrip af sögu nýsköpunar í sjávarútvegi 

Eftir Þór Sigfússon 

Nýsköpun í bláa hagkerfinu á Íslandi hefur tekið mikinn kipp á undanförnum árum. Áhugavert er að skoða hvernig þessi þróun hefur verið og hvaða ástæður kunna að liggja að baki.  Í þessari samantekt verður bent á hvernig áhugi útgerða, auknir styrkir og rannsóknir og  fjölgun sprota hefur drifið áfram nýjungar og vöxt í bláa hagkerfinu. 

 

Slorið fær verðmiða 

Nýsköpun í íslenskum sjávarútvegi, ekki síst í betri nýtingu afurða, á sér langa sögu.  Um miðja 19. öld  kom fram gagnrýni á þann sóðaskap sem varð til við fiskvinnslu þar sem ýsu- og þorskhausar í þúsundatali grotnuðu m.a. í fjörunni á Pollinum á Akureyri. Norðlenskt rit hvatti til þess að fiskimenn gerðu betur og bent var á að í öðrum landshlutum væru hausar hertir eða myljaðir og þeir gefnir kúm og hestum. En áratugina á eftir hélt úldið slor áfram að menga hafnir allt í kringum landið. Á síðari hluta 19. aldar hófu ýmsir frumkvöðlar í útgerð að nýta gufu til að bræða þorskalýsi og vinna að vöruvöndun sjávarafurða. Víða mátti finna fyrir andstöðu við vélvæðingu og óttuðust margir að með tilkomu véla mundi hagur verkafólks versna.  Í bókinni “Iðnbylting hugarfarsins” eftir Ólaf Ásgeirssonar sagnfræðing segir höfundur að í upphafi 20. aldar hafi tekist á hópar “iðjusinna” annars vegar og “varðveislusinna” hins vegar. Framfaratrúin varð þó ofan á í sjávarútvegi og fiskvinnslu sem hefur haldist æ síðan. 

Árið 1913 var fyrsta fiskimjölsverksmiðjan á Íslandi reist í Vestmannaeyjum og þá tók peningalykt við af pestarlyktinni!  Þótt peningalyktin hafi ekki notið vinsælda þá var hún góður málsvari  meiri nýtingar hliðarafurða; allt í einu fékk slorið verðmiða! Á þeim árum sem fóru síðan í hönd í upphafi 20. aldar jókst áhugi á frekari vinnslu og sölu á lifur og verksmiðjur voru settar á stofn sem höfðu að markmiði að vinna úr fiskúrgangi. Upp frá því má segja að áhuginn fyrir að gera betur í dag en i gær hafi orðið samofinn íslenskum sjávarútvegi.  

Með stofnsetningu fyrstu verksmiðju Lýsis hf árið 1938 má segja að grunnur hafi verið lagður að frekari vinnslu þorskalýsis og þar með meiri fagmennsku í tengslum við fyllnýtingu hliðarafurða. Áratugina á eftir efldust fyrirtæki m.a. í niðursuðu og hausaþurrkun. Árið 1974 komst nefnd skipuð af iðnaðarráðherra að þeirri niðurstöðu að mikið magn hráefna fyrir lífefnaðinað væri til staðar hérlendis, ekki síst í sjávarútvegi, en forsenda nýtingar væri efling rannsókna.  Þrátt fyrir fögur fyrirheit varð lítið um efndir og fjármagn til rannsókna var takmarkað.   Á níunda áratugnum og byrjun þess tíunda komu fram frumkvöðlar sem hófu að skoða nýtingu m.a. á ensímum úr þorski (Ensímtækni hf.) og efnum úr rækjuskel (Primex hf.) .  Stofnendur og stjórnendur þeirra fyrirtækja, sem komið höfðu fram á sjónarsviðið á þessum áratugum, ýmsar útgerðir,  ásamt lykilfólki úr rannsóknargeiranum eins og hjá Matís (Rannsóknarstofnun fiskiðnaðarins) og Háskóla Íslands voru afar mikilvægir brautryðjendur á sviði fullnýtingar. Fleiri fóru að tala um “Gull úr gor” en umhverfi fyrir sprota í fullnýtingu á þeim tíma, sem þessi hópur frumkvöðla er að hefja sína vegferð, var þó mun erfiðara en nú og ekki ósvipað því sem Sjávarklasinn sér núna í mörgum öðrum löndum. Utan Íslands eru frumkvöðlar í m.a. fullnýtingu að taka sín fyrstu spor í umhverfi sem er oft ekki reiðubúið fyrir nýsköpun á þessu sviði. 

Árið 2004 var stofnaður opinber samkeppnissjóður sem nefndur var “Aukið virði sjávarfangs” (AVS) og var mikilvæg forsenda þeirra breytinga sem urðu í kjölfarið. Þessi sjóður ásamt umbótum á fiskveiðistjórnunarkerfinu, lagði grunninn að þeirri byltingu í tækni og viðhorfum sem urðu á Íslandi á sviði aflameðferðar og vinnslu. Engin spurning er að upptaka kvótakerfisins hafði sitt að segja, en sagan sýnir þó að viðhorf til meiri nýtingar á hliðarafurðum nær töluvert lengra aftur í tímann eins og áður er nefnt.  

Árið 1913 var fyrsta fiskimjölsverksmiðjan á Íslandi reist í Vestmannaeyjum og þá tók peningalykt við af pestarlyktinni!  Þótt peningalyktin hafi ekki notið vinsælda þá var hún góður málsvari  meiri nýtingar hliðarafurða;

Vél- og tæknibúnaður 

Saga véla- , netagerðar- og tækniþjónustu við útgerð á sér langa sögu hérlendis. Á þriðja og fjórða áratug síðustu aldar verða til fyrirtæki á borð við Héðinn og Hampiðjuna sem líkt og Lýsi í fullnýtingu, verða brautryðjendur hérlendis í frekari uppbyggingu stoðþjónustu við sjávarútveginn. Bæði þessi fyrirtæki verða til og eflast á árunum á eftir vegna náinna tengsla frumkvöðla og samstarfs við útgerðir og fiskvinnslu. Saga Marels, sem hefst fimmtíu árum síðar, er einnig dæmi um hvernig samstarf Háskóla Íslands, útgerða og fjárfesta leysir úr læðingi nýja krafta í nýsköpun.   Mikilvægt er að dregin verði saman heildstæð saga véla- og tækniþjónustu við útgerð sem nær mun lengra aftur í tímann. Sú þekking sem varð til við skipasmíðar og þjónustu og viðgerðir báta fluttist án efa milli kynslóða og varð uppistaða þeirrar samstarfsmenningar eða klasastarfsemi, sem nú er til staðar á þessu sviði hérlendis. Fróðlegt væri að skoða hvaða áhrif m.a. vélvæðing í sveitum hafði síðar á þjónustu við vélbáta og útgerð og hvernig skipasmíðar efldust en lognuðust síðar útaf. Þá væri einnig áhugavert að skoða þau áhrif sem koma erlendra skipa, sem hingað sóttu þjónustu, hafði á uppbyggingu þekkingar á þessu sviði. 

Þegar Sjávarklasinn var stofnaður var uppistaðan í nýsköpun í tengslum við sjávarútveg öflug tæknifyrirtæki með lausnir fyrir fiskvinnslu og veiðar og síðan nokkur hópur þeirra fyrirtækja í fullnýtingu hliðarafurða sem hér hafa verið nefnd. Á þeim tíma skráðu starfsmenn klasans um fjörutíu minni og meðalstór tæknifyrirtæki sem voru með fjölbreyttan innlendan tæknibúnað fyrir veiðar og vinnslu. Þá voru innan við tíu lítil fyrirtæki eða sprotar í nýsköpun tengdri fullnýtingu afurða.  Frá stofnun klasans árið 2011 hafa starfsmenn hans fylgst grannt með þróun tæknifyrirtækja sem þjóna sjávarútvegi og þótt sú saga nái yfir skamman tíma þá hafa athyglisverðar breytingar átt sér stað í þeim efnum. Flest þeirra tæknifyrirtækja, sem Sjávarklasinn skoðaði, nutu þess hversu mikill áhugi var á nýjungum hjá útgerðum og fiskvinnslum víða um land.  Samstarf á milli tæknifólks og útgerða bjó til fjölmargar nýjar tæknilausnir sem spöruðu tíma og mannafla í vinnslu, stuðluðu að betri meðferð afla, lengri hillutíma sjávarafurða og umhverfisvænni vinnslu. Fljótt varð ljóst að þessar lausnir voru spennandi útflutningsvara, ekki einungis hjá Marel og Hampiðjunni heldur fjölda minni fyrirtækja. Áskorun margra tæknifyrirtækja var útrásin með þeirra tækni en vegna smæðar sumra þeirra reyndist útflutningur erfiður. Eftir því sem þau stækkuðu og sameinuðust batnaði samkeppnisstaðan.  Um leið hafa mörg þessara fyrirtækja fært út kvíarnar og þjóna núna ekki einungis sjávarútvegi heldur ekki síður öðrum matvælagreinum eins og kjúklinga- og svínaræktendum. Þar fór Marel fremst en síðan hafa fjölmörg önnur tæknifyrirtæki fylgt í kjölfarið eins og Skaginn3X, Frost og Thorice.   

Sá grunnur, sem lagður var með nánu samstarfi sjávarútvegsfyrirtækja og tæknifyrirtækja, er sumpart forsenda þeirrar samstarfsmenningar sem þrífst núna á mun fleiri sviðum bláa hagkerfisins. Gríðarleg aukning hefur átt sér stað í fjölda nýsköpunarfyrirtækja í bláa geiranum á síðastliðnum áratug og fjölbreytnin orðið miklu meiri. Í tengslaneti Íslenska sjávarklasans eru nú vel á annað hundrað nýsköpunarfyrirtækja.  

Fullnýtingarbyltingin 

Hin síðari ár hafa fyrirtæki í fullvinnslu eflst til muna og fjöldi nýrra frumkvöðlafyrirtækja komið fram sem eiga eftir að efla enn  frekar þessa grein. Þar er bæði um að ræða þróun á prótínum eins og kollageni, lýsi, leðurvörum, snyrtivörum, heilsuvörum og lyfjum.   Hér má nefna rótgtróin fyrirtæki eins og Lýsi, Akraborg, Haustak, Ensímtækni og Primex. Ný eða tiltölulega ný á þessum lista eru fyrirtæki á borð við  Marine  Collagen, Kerecis, Langa-Kollagen, Eylíf, Feel Iceland, Foodsmart, North Seaood Solutions, Sea Growth, Loki, Næra, Feed the Viking, Margildi, Nordic Fish Leather, Nanna Lín, Dropi, Unbroken, Bifrost Foods, Lipid og Genis.  Mörg þessara fyrirtækja hafa notið styrkja frá öflugum samkeppnissjóðum hérlendis en ekki síður sjóðum á Norðurlöndunum og Evrópusambandinu sem hafa haft mikið að segja um að koma þessum fyrirtækjum af stað og opnað þeim síðar gáttir inn í fjárfestaheiminn. Aldrei hefur verið meiri áhugi á nýsköpun á þessu sviði en eftir Kerecis söluna í lok árs 2023. Salan á Kerecis jók trú á að alvöru fullnýting sé verulega ábatasöm. Fleiri slík ævintýri munu án efa fylgja í kjölfarið á næstu árum. 

Í framhaldi af vaxandi áhuga erlendis á fullnýtingu hafa fyrirtæki eins og Marel, Héðinn/HPP, Skaginn 3X, Samey og Thorice og fleiri fyrirtæki í fullvinnslu og kælingu komið fram með margvíslegar tæknilausnir sem hjálpa munu öðrum þjóðum að nýta betur hliðarafurðir. Í þessum efnum er þó ennþá þörf fyrir fleiri smærri tæknieiningar  sem sinnt geta minni sjávarplássum sem vilja vinna hliðarafurðir. Það er aðkallandi að finna leiðir til að þjóna betur smærri byggðum með vélakost til hagkvæmrar vinnslu hliðarafurða sem ekki eru endilega í tugþúsundum tonna. 

Svo má segja að fyrir 6-7 árum hafi áhugi á þróun efna úr m.a. þörungum aukist umtalsvert. Stóru sigurvegararnir þar eru fyrirtæki eins og Algalíf og Vaxa.  Svo hafa komið fram mörg áhugaverð fyrirtæki sem eru að þróa vörur fyrir neytendamarkað sem tengjast þörungum. Hér má nefna sprota og  fyrirtæki á borð við Taramar, Key Natura, Florealis, Örlö (Vaxa), Sjávarsmiðjuna, Algó, Blábjörg, Mýsköpun og Zeto. Í skógum hafsins við Ísland felast fjölmörg tækifæri. 

Salan á Kerecis jók trú á að alvöru fullnýting sé verulega ábatasöm. Fleiri slík ævintýri munu án efa fylgja í kjölfarið á næstu árum.

Eldisbylgjan opnar tækifæri 

Þegar síðan eldi hefst hérlendis af krafti fyrir tæpum tíu árum verður ný bylgja í nýsköpun sem hefst með því að stóru tæknifyrirtækin eins og Marel, Valka og Hampiðjan þróuðu búnað sinn fyrir laxeldi. Benchmark Genetics og Vaki fiskeldiskerfi eru tæknifyrirtæki sem tengjast eldi og eru á heimsmælikvarða. Þá hafa landeldisfyrirtæki, sem hafa eflst verulega á síðustu árum, fyrirtæki á borð við Geosalmo, Landeldi Samherja og Matorku sýnt mikinn áhuga á fullnýtingu og samstarfi í tækni við innlend nýsköpunarfyrirtæki. Þetta hefur haft þau áhrif að mörg nýsköpunarfyrirtæki eru að koma fram á þessu sviði. Sá þekkingargrunnur sem lagður hefur verið á Islandi í fullvinnslu hvítfisks þarf að verða nýttur til að fullvinna laxinn. Þar er Ísland í einstakri stöðu. Í þeim efnum verðum við að gera betur en flestar aðrar eldisþjóðir.   

Í landeldi eru áhugaverð tækifæri að skapast þar sem íslensk nýsköpunarfyrirtæki hafa þegar lagt fram sinn skerf til að leysa þær stóru umhverfisáskoranir sem eldið er að takast á við, m.a. varðandi nýtingu seyru til gas-, eða áburðarframleiðslu. 

 

Gervigreindin bankar upp á 

Á síðustu tveim árum hafa starfsmenn Sjávarklasans séð hratt vaxandi áhuga fyrir nýtingu gervigreindar í tengslum við bláa hagkerfið. Gervigreind er sú tækni sem getur leitt til mestu framleiðniaukningar í íslenskum sjávarútvegi á komandi árum. Það mun taka lengri tíma fyrir alþjóðlegan sjávarútveg að tileinka sér gervigreind í samanburði við aðrar atvinnugreinar erlendis. Alþjóðlegur sjávarútvegur er yfirleitt svifaseinni en aðrar atvinnugreinar í tækniþróun. Á Íslandi gegnir þó oft öðru máli og íslenskur sjávarútvegur hefur verið í forystu á mörgum sviðum tækni og getur hér náð forystu í notkun gervigreindar á heimsvísu. Hér hafa stór tækni- og hugbúnaðarfyrirtæki á borð við Marel og Skagann rutt brautir. Sú tækni sem þessi fyrirtæki hafa komið fram með á undanförnum árum má segja að sé undanfari nýtingar gervigreindar í fiskvinnslu. Nýsköpunarfyrirtækjum á þessu sviði fjölgar hratt hérlendis og mörg þeirra eru eða munu fljótlega fara að nýta sér gervigreind. Hér má nefna fyrirtæki á borð við Hefring Marine, Ankeri, Visk, Oceans of Data, Optitog, Stika og Learn Cove svo einhver séu nefnd. 

Svo eru fyrirtækin sem eru utan þess ramma sem hér hefur verið fjallað um en sýna vel breiddina í nýsköpun á Íslandi. Nokkur tæknifyrirtæki sem spennandi verður að fylgjast með vexti á næstunni eru m.a. Alvar, Wise Fish, Rafnar, Kapp, Fisheries Technologies, Sjótækni, Sidewind, Alda Öryggi, Trackwell og SeaSaver.  

 

Gervigreind er sú tækni sem getur leitt til mestu framleiðniaukningar í íslenskum sjávarútvegi á komandi árum.

Þáttur blárra fjárfesta vex 

Eitt af því sem hefur líka breyst á mjög skömmum tíma er að sjávarútvegsfyrirtæki hafa fjárfest í nýsköpunarfyrirtækjum í meira mæli en nokkru sinni fyrr.  Sjávarklasanum er ekki kunnugt um önnur dæmi slíks vaxtar í heiminum. Stofnun Driftar frumkvöðlaseturs á Akureyri er annað dæmi um beinni aðkomu sjávarútvegsfyrirtækja að nýsköpunarheiminum. Þessi aukna þátttaka öflugra fyrirtækja  getur verið einn af leikbreytum fyrir nýsköpun og sjávarútveg á komandi árum.   

Þá hafa erlendir fjárfestar sýnt bláum nýsköpunarfyrirtækjum meiri áhuga. Um leið og þessi jákvæða þróun á sér stað er rétt að meta hvaða áhrif það hafi að sum af kraftmestu fyrirtækjunum í bláa hagkerfinu séu seld til erlendra fjárfesta. Þátttaka erlendra fjárfesta í bláum nýsköpunarverkefnum í litlu landi eru mikilvæg en tryggja þarf sem best að höfuðstöðvar blárra sigurvegara verði áfram á Íslandi. Til þess þarf lítið og blátt hagkerfi eins og það íslenska að hafa yfirburði yfir önnur svæði. Þá þarf að skoða vel hvaða áhrif það hefur þegar verðmæt og oft víðtæk einkaleyfi á nýtingu okkar fisktegunda eru alfarið í höndum erlendra aðila. 

 

Öll virðiskeðjan 

Þessi mikla aukning í fjölda nýsköpunarfyrirtækja hefði ekki getað átt sér stað nema fyrir öflugar rannsóknarstofnanir, háskóla og útgerðarfyrirtæki sem hafa haft þessa nýjungagirni í sínu DNA. Þannig þarf öll virðiskeðjan að vera virk til þess að bláa hagkerfið virki. Efla þarf enn frekar rannsóknir í bláa hagkerfinu sem er undirstaða frekari vaxtar. Samkeppnissjóðirnir hafa skipt miklu máli en skoða ber hvernig íslenskar rannsóknarstofnanir, sem eru litlar á heimsmælikvarða, en oft ótrúlega sprækar, geti mögulega tengst betur erlendum rannsóknarstofnunum og eflst fjárhagslega. Matís og aðrar rannsóknarstofnanir, sem eru grunnur að velgengni margra nýsköpunarfyrirtækja, geta orðið mun öflugri og stærri á alþjóðavísu en nú er. En til þess að svo megi verða þarf mögulega að endurhugsa rekstrargrunn þessara stofnana og mögulega aðkomu fjárfesta eða lífeyrissjóða að þeim eða hluta þeirra starfsemi. Þannig geti þessar stofnanir orðið miklu fjárhagslega burðugri og keppt betur við eða starfað með alþjóðlegum rannsóknarstofnunum.  Hér geta systurklasar Íslenska sjávarklasans víða um heim komið að gagni þar sem samstarf yfir landamæri getur skipt afar miklu máli þegar kemur að rannsóknum og fjárfestingum, ekki síst á nýjum sviðum líftækni, gervigreindar o.s.frv. 

 

Sjávarklasinn 

Það er nokkuð ljóst í hugum margra að Íslenski sjávarklasinn og Hús sjávarklasans hafa haft mikið að segja við að breyta möguleikum blárra sprota til þess að taka sín fyrstu skref. En fleiri aðilar hafa þar komið hraustlega við sögu og þar verður fyrst að nefna sprotahraðla Klaks sem hafa haft mikið að segja og aðila eins og Startup Iceland. Ný sprotasamfélög hafa síðan skotið upp kollinum eins og Breið, Blámi, Eimur og Orkidea sem öll hafa hlúð að mörgum áhugaverðum sprotaverkefnum sem tengjast mismikið bláa hagkerfinu en þó eru margir snertifletir á milli greina sem mikilvægt er að hlúa að. Í því sambandi má nefna vaxandi áhuga tengingu orkuverkefna og verkefna bláa hagkerfisins. Þar hefur Íslenski orkuklasinn unnið gott starf. 

Um 200 sprotar hafa nýtt sér aðstöðu í Húsi sjávarklasans á síðustu 10 árum og mörg þeirra hafa náð miklum árangri. Það sem breyttist með tilkomu Húss sjávarklasans var ekki síst að fjölbreyttari hópur sá tækifæri til að taka þátt í nýjum verkefnum. Sjávarklasinn hefur lagt áherslu á að kynna nýsköpun fyrir ungu námsfólki og hafa þúsundir nemanda heimsótt klasann og tekið þátt í frumkvöðlakeppnum sem hafa meðal annars haft bláa hagkerfið sem fókus. Þetta langtímaverkefni er eitt af því sem hefur án efa skipt hvað mestu um að tengja betur nýja kynslóð við nýsköpun í sjávarútvegi og tengdum greinum. Sjávarútvegurinn hafði verið fremur karllægur en þegar fyrstu leigjendur komu inn sem fóru að hanna vörur og þróa, þá varð eins konar bylgja í nýsköpun ungra frumkvöðla, og ekki síst kvenna. Nú er fjöldi þeirra fyrirtækja, sem hér hafa verið nefnd sem hafa verið stofnuð af konum eða er stjórnað af konum. Það á ekki síst við um fullnýtingargeirann, “100% fish”, þar sem konur hafa raðað sér í fyrirtæki sem eru að fá meiri verðmæti út úr afurðunum en áður þekktust. Þannig má segja að konurnar séu að velja greinarnar þar sem von er á meiri ábata. 

 

Blá nýsköpun orðin sjálfsögð 

Stærsti sigurinn fyrir nýsköpun í bláa hagkerfinu er ugglaust sá að nú þykir miklu sjálfsagðara að sprotar horfi til nýsköpunar á þessu sviði. Það er eins og augu frumkvöðla hafi betur opnast fyrir þessum tækifærum. Við stofnun Sjávarklasans fyrir röskum 13 árum síðan fengu hugmyndir um klasa fyrir sjávarútveg og fyrirhugað nýsköpunarhús klasans blendin viðbrögð í sprotaheiminum. Fólk var yfirleitt jákvætt á framtakið en ungir frumkvöðlar horfðu forviða á starfsmenn klasans og spurðu hvort Sjávarklasinn teldi virkilega að það væru svona mikil sprotatækifæri í greinum sem tengjast haf- og vatnasviði landsins. Nú vita fleiri að þarna er hafsjór tækifæra en að byggja upp áhuga og öflugt vistkerfi er langhlaup þar sem allir partar virðiskeðjunnar í bláa hagkerfinu verða að eiga aðkomu.  

Eins og þessi samantekt ber með sér hafa margir þættir haft áhrif á þann mikla vöxt sem orðið hefur í tengslum við bláa hagkerfið hérlendis. Segja má að þessi samantekt sýni að klasahugmyndafræðin, eins og komið hefur fram í nánu samstarfi tæknifyrirtækja og sjávarútvegs um áratugaskeið, á sér miklu lengri sögu en Sjávarklasinn! Starf Sjávarklasans undanfarinn áratug hefur þó ugglaust ýtt undir enn frekara samstarf og á fleiri sviðum bláa hagkerfisins. Hér hafa einnig verið nefndir þættir eins og öflugir samkeppnissjóðir og rannsóknarstofnanir, kraftmikið sprotastarf, sem hefur komið fram á undanförnum árum, og almennur áhugi fyrir tækifærum á þessu sviði. Öll þessi atriði hafa einhvern veginn smollið vel saman hérlendis og myndað eina kraftmikla heild; eins konar “sílíkondal” sjávarútvegs í heiminum! Þessu langhlaupi er þó fjarri því lokið. Enn á eftir að uppgötva margt í bæði tækni og fullvinnslu og bláa hagkerfið mun teygja sig betur inn á fleiri svið eins og nýtingu skóga hafsins, umhverfisvænni orkugjafa fyrir skip og báta og orkuöflun á hafi. Þá þurfa fleiri fjárfestar að stíga fram til að leggja nýjum sprotum og rannsókna- og þróunarstarfi lið.