Eftir því sem sókn eftir aðstöðu á hafinu eykst fyrir fjölbreytta starfsemi kann að vera stutt í að stjórnvöld þurfi að taka ákvarðanir um forgangsröðun og stefnu varðandi hvernig svæðum á hafinu verði ráðstafað. Munu fjölnota rými (multi use space) á hafsvæðinu við Ísland bjóða upp á tækifæri til að nýta betur hafsvæði og á hagkvæmari hátt og stuðla að frekari framleiðslu matvæla og orku? Þurfa stjórnvöld að skoða betur hvernig best verður staðið að nýtingu svæða á hafinu og verða, ólíkt því sem oftast gerist, betur undirbúin þegar eftirspurn fyrirtækja eftir aðgangi að hafsvæðum eykst. Um það er fjallað í þessari samantekt Sjávarklasans.

Hafsvæði hafa lengstum verið talin svo gríðarlegt flæmi að lítil þörf hefur verið talin að skipuleggja þau fyrir ólíka starfsemi. Þetta á ekki síst við um hafsvæði sem umlykja lönd á borð við Ísland þar sem efnahagslögsagan er margfalt stærri en landið.

Þó er ljóst að eftir því sem sókn eftir gæðum hafsins eykst kann hafsvæðið í kringum landið að verða takmörkuð gæði og vanda þarf til verka ef gæta á að umhverfinu, jafnræði, og hamla ekki starfsemi sem nýst getur strandsvæðum og þjóðfélaginu öllu. Nú þegar eru merki um að ásókn í hafsvæði vex hratt; fiskeldi, þörungaeldi, vindorka á hafi, sjávarfallavirkjanir, auðug fiskimið, hvalaskoðun, sjóstangaveiði, námugröftur á hafsbotni og skemmtiferðaskip svo eitthvað sé nefnt. Allt eru þetta atvinnugreinar sem þurfa svæði til að athafna sig. Ofan á þetta bætast friðlýst svæði og auðvitað atvinnugreinar og ýmis nýsköpun á hafinu í náinni framtíð sem ekki hafa enn hlotið heiti.

Samkeppni um hafsvæði eykst

Búist er við að heimshöfin muni gegna stærra hlutverki í að takast á við áskoranir í umhverfismálum og fæðuöflun. Þannig kann samkeppni um hafsvæði að aukast. Þótt ekki hafi mikið borið á þessari auknu ásókn í hafsvæði hér við land, ef undan eru skildir firðir þar sem sjóeldi hefur komið sér fyrir, bendir margt til þess að samkeppni um hafsvæði hér eins og í ýmsum löndum eigi eftir að aukast. Íslendingar þurfa því að huga vel að þessum málaflokki. Nýjar og hefðbundnari greinar munu takast á um yfirráð yfir svæðum og þar þarf skýrar reglur og gagnsætt kerfi.

Hjá systurklasa Íslenska Sjávarklasans í New Bedford borg í Massachusetts fylki í Bandaríkjunum, var að sögn heimamanna, hagsmunum sjávarútvegsins (gömlu atvinnugreinarinnar) sumpart fórnað fyrir hagsmuni orkuöflunar á hafi. Nú er verið að setja upp stórar vindmyllur á hafsvæðinu rétt utan borgarinnar. Við ákvörðun um staðsetningu þeirra var ekki tekið tillit til þess hvar helstu veiðisvæði skelfisks væru, sem er verðmætasta fisktegund sjávarútvegsins í borginni. Rétt eins og í dæmi New Bedford borgar voru uppi háværar gagnrýnisraddir frá sjávarútvegi í Noregi fyrir aldamótin að hagsmunir olíuiðnaðarins hafi notið forgangs í ráðstöfun hafsvæða; stór og “spennandi” iðnaður var þar tekinn framyfir rótgróna starfsemi sem var talin hafa takmarkaða möguleika til vaxtar. Ein af þeim hugmyndum, sem skotið hafa upp kollinum, til að mæta væntanlegum skorti á svæðum fyrir starfsemi á hafinu, eru fjölnota rými á hafi, einskonar eyjar fyrir fjölbreytta starfsemi (multi use space). Með því að samnýta rými á hafinu getur náðst fram hagræðing og hún skapar mögulega rými fyrir nýsköpun sem getur orðið til við hlið meginstarfsemi. Sem dæmi mætti taka af úthafseldi eða vindorkugörðum á hafinu þar sem nýsköpun á borð við þörungaræktun til kolefnisförgunar gæti nýtt sér nálægð við stærri mannvirki.

Í Noregi hafa ólíkir hagsmunir tekist á um yfirráð yfir hafsvæðum um árabil; olíuvinnsla, sjávarútvegur og sjóeldi hafa verið þar fyrirferðamest. Norðmenn hafa því mun lengri reynslu á þessu sviði en við Íslendingar og mikilvægt er fyrir okkur að nýta reynslu þeirra í þessum efnum.

Det Norske Veritas (DNV) birti þessa mynd nýverið til að lýsa hugmyndum um manngerðar eyjar fyrir fjölbreytta starfsemi á hafi úti.

Hugmyndin um fjölnota rými á hafi hefur því verið rædd um árabil í Noregi og rannsóknir þar sýna að fjölnota rými geta skilað ábata. Ef til að mynda úthafseldi eykst hefur verið sýnt fram á að samstarf úthafseldis og vindorkuvera á fjölnota eyjum getur leitt til umtalsverðrar hagræðingar.

Í skýrslu Sjávarklasans “Framtíð fiskeldis á Íslandi” sem út kom árið 2021 var meðal annars fjallað um úthafseldi sem einn af þeim möguleikum sem eldisfyrirtæki hefðu til vaxtar í náinni framtíð. Úthafseldi hefur verið ein af þeim leiðum, sem stór eldisfyrirtæki, m.a. í Noregi, hafa skoðað sem leið til að auka framleiðslu án þess að skaða annað lífríki eða menga strandsvæði. Úthafseldi felur í sér ýmsar tæknilegar og fjárhagslegar áskoranir en það hefur þó ekki hindrað stærstu eldisfyrirtæki heims í að halda áfram að vinna að rannsóknum og uppbyggingu á því sviði. Ástæður eru meðal annars þær að á opnum hafsvæðum er rými til stækkunar, gífurleg burðargeta og minni útsetning fyrir neikvæðum umhverfisáhrifum sjóeldis en þekkist við strandsvæði. Á sama tíma eykst stöðugt þörf fyrir prótein á heimsmarkaði. Í bókinni “Aquaculture Perspective of Multi-Use Sites in the Open Ocean” eftir Bela H. Puck og Richard Langan benda höfundarnir á að sparnaður við fjölnota rými á hafinu, sem getur orðið til vegna sameiginlegra leyfisveitinga, -innviða og -flutninga, getur verið umtalsverður. Höfundarnir telja að fjárhagslegur ábati samfélagsins og þeirra fyrirtækja, sem velja að eiga samvinnu á fjölnota svæðum, í tengslum við mögulega samvinnu eldis og orkuöflunar, sé töluverður.

Lög um skipulag haf- og strandsvæða hérlendis tóku gildi árið 2018. Þar er hnykkt á því að “nýting og vernd auðlinda haf- og strandsvæða verði í samræmi við skipulag sem hefur efnahagslegar, félagslegar og menningarlegar þarfir landsmanna, heilbrigði þeirra og öryggi að leiðarljósi.” Frekari skipulagsvinna í samræmi við nýju lögin hefur takmarkast við svæði þar sem fiskeldi hefur verið stundað útaf Vestfjörðum og Austfjörðum. Þrátt fyrir nýja löggjöf er líklegt að mikil óvissa muni ríkja um hvernig fara á með hafsvæði utan fjarða og stranda þegar eftirspurn eykst. Hvernig verður gætt til dæmis að hagsmunum sjávarútvegs, strandbyggða og lífkerfis sjávar? Liggur fyrir hvernig stefnu stjórnvöld muni taka þegar fyrirtæki með áform eða hugmyndir um m.a. nýtingu hafsbotnsins, uppsetningu á vindmyllum á hafi eða stórfellda fiski- eða þörungarækt svo dæmi séu tekin munu óska eftir hafsvæðum fyrir sína starfsemi?

Eðlilega hlýtur skipulagsvinna sem þessi að taka mið af þeirri eftirspurn sem til staðar er. Í dag er hún takmörkuð en eins og áður segir kann hún að aukast hratt. Rétt eins og Norðmenn hafa sett fram ólíkar sviðsmyndir um mögulega nýtingu kann að vera hyggilegt fyrir íslensk stjórnvöld og atvinnulíf að horfa til sambærilegrar vinnu hérlendis til að vera betur búin undir þær áskoranir sem aukin eftirpurn mun hafa.

Sviðsmyndir og stefnumörkun í framhaldi af þeim gætu styrkt samkeppnisstöðu Íslands og auðveldað stjórnvöldum og áhugasömum fyrirtækjum að taka sameiginlega skref í þessa átt. Í skýrslunni “Marine næringsparker” eftir Björn Hersoug og Eirik Mikkelsen sem gefin var út af norsku stofnuninni Senter for hav og arktis árið 2022, er lagt til að Norðmenn hefji víðtækt samstarf hagsmunaaðila og stjórnvalda um fjölnota rými á hafi og geri úttekt á hvar æskilegast sé að þróa fjölnota rými á hafinu við Noreg. Hérlendis ættu stjórnvöld að setja af stað vinnu við að afla gagna um reynslu annarra þjóða á þessu sviði og skoða mögulegar sviðsmyndir um tækifæri til uppbyggingar fjölnota rýma á hafsvæðum í kringum Ísland.

Fyrir frekari upplýsingar, vinsamlegast hafið samband við höfund, Þór Sigfússon, Thor@sjavarklasinn.is

(Íslenski sjávarklasinn gengst fyrir “hakkaþoni” hinn 5. og 6. október nk., sem stutt er af Nordic Innovation, þar sem leitað verður svara við því hvaða tækifæri kunni að vera fyrir nýsköpun með fjölnota rýmum á hafinu.)

Fyrir frekari upplýsingar, vinsamlegast hafið samband við höfund, Þór Sigfússon, Thor@sjavarklasinn.is

(Íslenski sjávarklasinn gengst fyrir “hakkaþoni” hinn 5. og 6. október nk., sem stutt er af Nordic Innovation, þar sem leitað verður svara við því hvaða tækifæri kunni að vera fyrir nýsköpun með fjölnota rýmum á hafinu.)