Sea food trade center

Hugmyndin …

um Seafood Trade Center – Iceland er að verða aðstaða fyrir helstu fyrirtæki sem tengjast sjávarútvegi. Hér getur bæði verið um að ræða íslensk og alþjóðleg fyrirtæki og stofnanir sem tengjast sjávarútvegi. Margt er áunnið með að leiða saman félög innan afmarkaðs geira í sama húsnæði. Aukið samstarf fær byr í seglin vegna nálægðarinnar og afkastageta til að leysa fjölbreytt verkefni eykst.

Sérhæfð skrifstofuhús hafa einnig átt vaxandi fylgi að fagna þar sem þau hafa aukið samlegðaráhrif fyrirtækja og stuðlað að verðmætasköpun. Dæmi um þetta hérlendis er Hús sjávarklasans.

Reynslan af …

rekstri Húss sjávarklasans er góð. Allskyns þekking og kunnátta finnst innanhúss og stutt er í sérfræðinga á hverju sviði. Þegar finna þarf lausnir við úrlausnarefnum er stutt að leita vegna fjölbreytileikans í vitneskju á þessu tiltekna sviði. Ýtt er undir samstarf þar sem þessi breiði hópur mætist í klasanum. Að sama skapi má sjá fyrir sér að Seafood Trade Center virki eins þegar stærri fyrirtæki mætast.

Hús sjávarklasans hefur reynst vinsæll og góður staður fyrir fyrirtæki í sjávarútvegi að reka starfsemi sína. Spurn eftir aðstöðu hefur verið vonum framar og bitist er um skrifstofur sem losna. Vinsældunum fylgir að takmarkað pláss stendur eftir til boða og sérlega erfitt er að koma fyrir stærri fyrirtækjum í sjávarútvegi í húsinu. Nú þegar hefur all mörgum fyrirtækjum verið vísað frá.

Nú er tækifæri til þess að bjóða uppá aðstöðu sambærilega Húsi sjávarklasans í Örfirisey (sem gæti smám saman fengið viðurnefnið á ensku „The Seafood District“) fyrir stærri fyrirtæki. Vöntun hefur verið á aðstöðu fyrir burðugri fyrirtæki í geiranum til þess að koma saman líkt og gert er í Húsi sjávarklasans. Við höfum þurft að vísa frá stærri fyrirtækjum sem eru á ýmsum sviðum sjávarútvegs og matvæla og eru með 15-30 starfsmenn. Auðséð þörf er fyrir hús sem býður stærra rými fyrir öflug fyrirtæki á þessu sviði

Markhópurinn okkar …

yrðu öll sölufyrirtæki sem tengjast sjávarútvegi en líklega eru um 30 nokkuð öflug eða mjög öflug fyrirtæki starfandi á því sviði hérlendis. Þýðingarmest hér er auðvitað að ná til sín veigamestu fyrirtækjunum eins og Iceland Seafood og því sem eftir verður af Icelandic en einnig eru ýmis önnur fyrirtæki sem gagn hefðu af nálægð hvers annars.

Auk þess mætti hugsa sér að bjóða stærstu útgerðarfélögum landsins aðstöðu í húsinu – hugsanlega útibú þeirra í Reykjavík eða þess háttar. Þá má nefna fyrirtæki sem tengjast fiski eins og stærstu fiskeldisfyrirtækin en þau eru mjög líkleg til að byggja höfuðstöðvar sínar á Reykjavíkursvæðinu. Þá má nefna ýmis önnur þjónustu- og fjármálafyrirtæki, stærri nýsköpunarfyrirtæki, verkfræðifyrirtæki o.fl. Loks er vel hugsanlegt að með svona aðstöðu sjái erlend fyrirtæki ástæðu til að skoða aðstöðu hérlendis.

Hugmyndafræði …

Seafood Trade Center yrði í nokkru samræmi við hugmyndafræði klasahússins. Þar væri lögð áhersla á að fyrirtækin hefðu sameiginlega aðstöðu til að bjóða viðskiptavinum sínum til stærri og minni fundahalds. Þannig væri haldið í hugmyndafræði deilihagkerfisins. Þó yrði meira kapp lagt á að fyrirtækin hefðu einnig sína eigin aðstöðu til minni fundahalda og meira næði sé þess óskað.

Mótttaka í húsinu yrði einnig nokkuð formlegri en það sem er í Húsi Sjávarklasans en þó væri stefnt að því að gengið yrði inn á sama stað og fiskveitingastaður fyrir húsið væri staðsettur. Þó væri þar einnig móttaka fyrir gesti fyrirtækjanna í húsinu. Á neðstu hæð væru einnig fundaherbergi.

Móttakan yrði einnig mögulega með stórt fiskabúr þar sem í væri Atlantshafsþorskur og þar væri sögð sagan af mikilvægi Atlantshafsþorsksins fyrir lífsviðurværi ríkjanna við Norður Atlantshaf.

Niðurstaðan er …

að með Seafood Trade Center er verið að mæta vissum skorti á spennandi samastað fyrir lykilfyrirtæki í einni mikilvægustu atvinnugrein Íslands. Húsið og starfsemin gæti verið einkennandi fyrir allt svæðið og ísland sem leiðandi sjávarútvegsland á heimsvísu.

 

Hugsanlegt er að veitingastaður verði starfræktur hjá móttöku Seafood Trade Center. Á meðfylgjandi mynd er veitingastaður sem nýtir sér fiskúrgang til ræktunar á kryddplöntum og salati.

Áhugavert væri að hafa áberandi búr með lifandi þorski í móttöku til að gefa til kynna tengingu hússins við sjávarútveg og um leið til að segja merka sögu Atlantshafsþorsksins í
efnahagssögu Íslands og Noður Atlantshafsins alls.