Fiskifýla, betur þekkt hér á landi sem peningalykt, hefur reynst þröskuldur fyrir sölu á fiskipróteinum til manneldis. Í nýrri grein, sem birtist í vísindatímaritinu Applied and Environmental Microbiology, segir að með tiltekinni ensímvinnslu megi eyða þessari lykt.

Í dag er 10 milljónum tonna af hliðarafurðum sjávarafurða hent. Ef hægt er að draga úr fiskifýlunni opnast dyr fyrir hliðarafurðir sjávarafurða að verðmætum prótein mörkuðum þar sem eftirspurn er mikil en lítið framboð af náttúrulegum, sjálfbærum og rekjanlegum próteinum. Markmið Sjávarklasans er að draga úr sóun hliðarafurða um heiminn, undir merkjum “100% Fish”. Þessar niðurstöður geta skapað gríðarleg tækifæri fyrir sjávarútveginn og nýsköpunarfyrirtæki í geiranum.

Hérlendis hafa nýsköpunarfyrirtæki sem hafa unnið með fiskprótein rekist á hindranir vegna fiskilyktar. Í einhverjum tilfellum höfðu fyrirtækin kynnt prótein í hylkjum, en þegar bera fór á fiskilykt af hylkjunum dróg úr ánægju neytenda með vörurnar. Peningalyktin virðist ekki vera allra!

Er möguleiki á því að niðurstöður þessarar nýju rannsókna, sem benda til þess að hægt sé að ná ”fiskilykt” úr fiskpróteinum, geti verið mikilvæg vítamínsprauta fyrir fjölda fyrirtækja í bláa hagkerfinu? Er þetta tækifæri fyrir íslensk sjávarútvegsfyrirtæki til að ná enn lengra í fullvinnslu – skapa verðmæti og áhugaverð störf?

Þótt rætt sé um að þessi breyting geti haft mikil áhrif á nýtingu hliðarafurða, þá má ekki gleyma því að umbreyta má flökum og afskurði úr hvítfiski í auknum mæli í próteinduft sem heilsuefni, lyf eða innihaldsefni í önnur matvæli. Þannig væru fleiri flök mögulega seld í hylkjum og virði flaka gætu þannig margfaldast. Þetta er svo sem ekki nýtt hvað varðar aðra hluta fisksins og má nefna að lifur þorsksins er auðvitað að skapa mun meiri verðmæti þegar hún er seld sem omegaolía í hylkjum fremur en niðursoðin. Sama á núna við um fiskroðið sem selst á góðu verði sem kollagenprótein.

En hvað hafa þessar rannsóknir, sem hér er rætt um, leitt í ljós?

Fiskprótein sem unnin eru úr aukaafurðum frá sjávarútvegi og fiskeldi hafa mikið næringargildi og mikla möguleika á manneldismarkaði. Hins vegar lykta fiskprótein sem stafar aðallega af efni sem nefnist trímetýlamín (TMA). Reynt hefur verið að ná lyktinni úr hingað til með uppgufun, hjúpun eða síun en árangur hefur verið takmarkaður. Í þeirri rannsókn, sem hér er fjallað um, nýttu rannsakendur ensím til að ná lykt úr próteinunum með efnahvörfum. Ensím eru hvatar, upprunnir úr lifandi frumum, sem hvetja efnahvörf í frumunum. Þorskensím hafa lengi verið nýtt hérlendis en frumkvöðull á því sviði var dr. Jón Bragi Bjarnason. Rannsóknir hans sýndu að þorskensímin hröðuðu endurnýjunar- og „viðgerðarferli” líkamans. Þessi ensím eru nú seld á alþjóðamarkaði m.a. undir heitinu “ColdZyme” en ensímin virka sem forvörn gegn kvefveirum.

Á Vísindavefnum eru efnahvörf skýrð á þennan hátt:

“Það er kallað efnahvörf þegar frumefni eða efnasambönd breytast í önnur, til dæmis: A -> B, það er að segja að efnin A breytast í efnin B. Orðið hvati (e. catalyst) er almennt heiti yfir efni sem auka hraða efnahvarfa án þess að eyðast í hvörfunum þegar upp er staðið. Einföld samlíking er að hvörfin séu eins og maður ætli að færa sig yfir fjall úr einum dal í annan. Ef jarðgöng eru boruð gegnum fjallið er auðveldara fyrir manninn að komast um göngin milli dalanna, hann notar til þess minni orku og er fljótari að því, en stöðuorka hans fyrir og eftir flutning breytist ekki. Hvatinn er þá í hlutverki gangagerðarmanna, flýtir fyrir hvörfunum en breytir ekki orkugildi A eða B, eða með öðrum orðum orkunni í upphafs- og lokaástandi.”

Þótt ensím hafi sýnt ótrúlega hæfni við þessa “gangagerð” – þá hafa þau verið viðkvæm fyrir hitastigi. Í, þeirri rannsókn, sem hér er vitnað í tókst vísindafólki að sýna fram á að ensímafbrigði, sem áður þoldi ekki háan hita, er nú hægt að hanna til að verða stöðugra við aukinn hita sem opnar á frekari nýtingu þeirra við baráttuna við peningalyktina (Goris et al., 2023).

Á Íslandi hefur verið lögð áhersla á að byggja upp sterka innviði í fullvinnslu, þar sem hugvit og hátækni koma saman til að tryggja gæði hráefnis og góða nýtingu. Á sama tíma hefur þetta tryggt aðgengi að hráefni sem hefur getið af sér rannsóknir og þróun á ótal hliðarafurðum, sem nú eru orðin verðmæt fyrirtæki. Nú sem endranær er mikilvægt fyrir okkar rannsóknarstofnanir eins og Matís, háskóla og sjávarútvegs- og eldisfyrirtæki, tæknifyrirtæki og nýsköpunarfyrirtæki innan Sjávarklasans að einhenda sér í samstarf um að nýta þessar niðurstöður til að skapa enn meiri verðmæti og tækniþekkingu.

Heimild:

Goris, M., Cea-Rama, I., Puntervoll, P., Ree, R., Almendral, D., Sanz-Aparicio, J., Ferrer, M., Bjerga, G. E. (2023). Increased Thermostability of an Engineered Flavin-Containing Monooxygenase to Remediate Trimethylamine in Fish Protein Hydrolysates. Applied and Environmental Microbiology, 6, 89. https://doi.org/10.1128/aem.00390-23

Fyrir frekari upplýsingar, vinsamlegast hafið samband við höfunda, Heiðu Kristínu Helgadóttir og Alexöndru Leeper, heida@sjavarklasinn.is og alexandra@sjavarklasinn.is