Fullnýtt ár

Ársuppgjör Íslenska sjávarklasans

Á meðan við setjum okkur í stellingar fyrir 2024 er ekki úr vegi að líta um öxl og taka saman hvað síðasta ár bar með sér og hvernig við sjáum fyrir okkur að halda áfram að vaxa á nýju ári.

Árið 2023 var ár 100% fisksins. Samstarfsverkefni og rannsóknarverkefni sem við ýmist leiðum eða tökum þátt í, hér heima og alþjóðlega, um fullnýtingu héldu áfram að stækka og teygja anga sína víðar. Verkefnin miða að því að hámarka notkun hliðarafurða fisks, minnka úrgang og stuðla að sjálfbærum og ábyrgum veiðum um heim allan.

Þankatankur Sjávarklasans

Frá upphafi hafa starfsmenn klasans unnið að yfir 100 útgáfum. Á þessu ári fjölluðum við meðal annars um gervigreind í sjávarútvegi og hvernig hún getur bætt rekstur og umhverfi. Við fjölluðum um tækifæri til samnýtingar á hafi, erlenda fjárfestingu í bláa hagkerfinu og um þverrandi peningalykt af fiski. Við munum halda áfram að virka sem eins konar þankatankur fyrir bláa hagkerfið hérlendis. Hér má glöggva sig á útgáfum klasans.

100% árið

Samstarfsverkefni og rannsóknarverkefni sem við ýmist leiðum eða tökum þátt í, hér heima og alþjóðlega, um fullnýtingu héldu áfram að stækka og teygja anga sína víðar. Verkefnin miða að því að hámarka notkun hliðarafurða fisks, minnka úrgang og stuðla að sjálfbærum og ábyrgum veiðum um heim allan. Sjávarklasinn er til að mynda að vinna með frábæru fólki og fyrirtækjum á Great Lakes-svæðinu í Bandaríkjunum og Kanada við að auka fullvinnslu og nýta afurðir betur.

Þar hafa Marel, Matís og Curio einnig komið að verkefninu og kynnt sínar lausnir fyrir áhugasömum samstarfsaðilum ytra. Alexandra Leeper framkvæmdarstjóri alþjóðastarfs klasans kynnti verkefnið fyrir fylkisstjórum á svæðinu í haust.

Íslenski sjávarklasinn hefur í samstarfi við ýmsa aðila hérlendis hafið markvissa kynningu utan Íslands á mikilvægi þess að draga úr sóun í sjávarútvegi. Á meðan Íslendingar nýta allt að 90% af hverjum veiddum fiski eru margar þjóðir að henda hliðarafurðum sem nema allt að 30-40% af afla; verðmæt auðlind sem oft endar sem landfylling eða er hent í sjóinn í öðrum löndum.

Sjávarklasinn var líka þátttakandi í viðburði á vegum Business Iceland í Seattle og var hluti af landsliði Íslands í panel um 100% fisk og bláa hagkerfið ásamt Marel, Kerecis og fleirum. Verkefnið var líka kynnt í einu virtasta tímariti um nýsköpun í heiminum.

Undir lok árs var verkefni Sjávarklasans „nýtum allt – hendum engu“ tilnefnt til Earthshot prize verðlaunanna 2024. Earthshot prize var stofnað af Vilhjálmi Bretaprins til þess að hvetja til örari aðgerða og lausna á umhverfisvandamálum jarðarinnar. Verðlaunin árið 2024 eru tileinkuð því að vernda og endurheimta náttúruna.

100% bókin

Bókin „100% Fish – How smart seafood companies make better use of resources“ eftir Þór Sigfússon stofnanda Sjávarklasans kom út í haust, en í henni er fjallað um sjávarútvegsfyrirtæki og nýsköpunarfyrirtæki víða um heim sem eru að leiða grænu byltinguna í sjávarútvegi og stuðla að betri umgengni um auðlindir hafsins.

 

Tekin eru dæmi af m.a. íslenskum fyrirtækjum sem hafa verið í fararbroddi á heimsvísu í betri nýtingu sjávarafurða og hvernig þau hafa tileinkað sér nýja tækni sem hefur bætt samkeppnisstöðu þeirra og gert þeim kleift að verða leiðandi í hringrásarhagkerfinu. Jafnframt er rætt við leiðtoga sjávarútvegsfyrirtækja víða um heim sem hafa tekið sjálfbærni og betri nýtingu traustum tökum.

Stuðningur við frumkvöðla er stærsta verkefni klasans!

Sjávarklasinn leggur sérstaka áherslu á að hvetja frumkvöðla áfram og styðja við störf þeirra með öllum ráðum og dáð.

Árlega veitir Sjávarklasinn sérstaka viðurkenningu þeim frumkvöðlum sem hafa eflt samstarf og nýsköpun á sínu sviði. Valið er aldrei einfalt enda úr auðugum garði að gresja en að þessu sinni hlutu þau Kristján Þórarinsson stofnvistfræðingur, Ólöf Tryggvadóttir frumkvöðull, Bryndís Thelma Jónasdóttir fyrir hönd Co/Plus og Ólafur Jón Arnbjörnsson viðurkenningu sem Guðlaugur Þór Þórðarson umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra veitti. Við óskum þeim enn og aftur innilega til hamingju og þökkum fyrir framlag þeirra til frumkvöðlastarfsins innan Sjávarklasans.

Annar klasabúi, Halla Jónsdóttir, einn af stofnendum Optitog, hlaut sérstaka viðurkenningu frá Global Women Inventors & Innovators Network (GlobalWIIN) á árinu. Optitog stefnir að því að gjörbylta rækjuveiðum með því að taka á þeirri miklu orkunotkun sem tengist hefðbundnum veiðarfærum. Frumkvöðlahugur Höllu Jónsdóttur hefur leitt til lausnar sem eykur arðsemi og stuðlar að verndun hafsins.

Við fylgdumst stolt með fyrrum klasabúunum í Oculis fá félag sitt skráð á Nasdaq markaðinn. Þau hafa þróað tækni, sem gerir mögu­legt að með­höndla sjúk­dóma í aft­ur­hluta aug­ans með augn­drop­um. Sjúk­dómar í aft­ur­hluta aug­ans eru í dag með­höndl­aðir með augná­stungum og tækni Oculis felur því í sér bylt­ingu fyrir þær tug­millj­ónir sjúk­linga sem þjást af slíkum sjúk­dóm­um. 

Annar núverandi klasabúi, Akthelia Pharmaceuticals, hlaut 900 milljóna króna styrk, ásamt Háskóla Íslands, frá Evrópusambandinu fyrir verkefnið IN-ARMOR. Verkefnið miðar að þróun nýrra lyfja sem styrkja náttúrlegar ónæmisvarnir líkamans og vinna þannig gegn vaxandi hættu af sýklalyfjaþolnum bakteríum.

Kerecis varð fyrsti íslenski einhyrningurinn og væntanlega fyrsti slíkur sem tilheyrir 100% fisk fjölskyldunni. Saga og árangur félagsins er mikilvæg sönnun þess að verðmætasköpun og vöruþróun úr auðlindum okkar úr hafinu er rétt að byrja.

Samstarfsfyrirtækjum fjölgar

Sjávarklasinn vill vaxa og stækka með samstarfi við ólíka aðila í bláa hagkerfinu. Samstarf við öflug fyrirtæki er mikilvægur þáttur í starfi klasans.
ALVAR Mist ehf. og Íslenski sjávarklasinn undirrituðu samstarfssamning snemma á árinu. ALVAR hefur verið í stöðugum vexti frá stofnun árið 2014, en gaman er að geta þess að fyrirtækið hóf starfsemi sína hér í Húsi sjávarklasans.

Þokukerfi fyrirtækisins stuðlar að 80- 90% minnkun á notkun vatns og kemískra sótthreinsiefna við sótthreinsun og stuðlar þar með að umhverfisvænni framleiðslu.

Landeldisfyrirtækið Geo Salmo bættist líka í hóp samstarfsaðila klasans á árinu. Fyrirtækið áformar byggingu á hátækni landeldisstöð sem mun rúma 24.000 tonn í Ölfusi við Þorlákshöfn. Fyrirtækið leggur mikla áherslu á að samtvinna nýjustu tækni og þróun í landeldi og áformar að framleiða þar hágæða vöru til útflutnings.

 

Alþjóðlegur áhugi fyrir Húsi sjávarklasans

Hús sjávarklasans er einstakt á heimsvísu. Jafn öflug starfsemi blárra nýsköpunarfyrirtækja og hér er til staðar hefur stuðlað að því að bæði hafnir víða um heim, einstaklingar og hópar hafa sóst eftir því að kynna sér þessa starfsemi.
Á árinu fengum við til okkar fjölbreytta flóru gesta sem fræddust um hvernig íslenskt hugvit, reynsla og þekking er að skapa verðmæti og búa til sterk og öflug fyrirtæki sem eru að leysa stór vandamál. Carrin F. Patman, sendiherra Bandaríkjanna er ein þeirra sem fékk fræðslu um íslenskan sjávarútveg, starf okkar og verkefni, ásamt því að hitta frumkvöðla og fyrirtæki í húsinu.

Rannsóknarhópur frá Háskólanum í Lundi og Marine Centre í Svíþjóð heimsótti okkur í febrúar til að læra af reynslu okkar Íslendinga og fá innsýn í það hvernig megi byggja upp net þekkingar, frumkvöðla, tækni og markaðssetningar.

Suður-Kórea hefur sýnt starfi og hugmyndafræði klasans mikinn áhuga. Sendinefnd Korea Institute of Marine Science & Technology og Korea Institute of Ocean Science & Technology heimsótti okkur í sumar til þess að kynna sér sjávarlíftækni á Íslandi sem og starfsemi Íslenska Sjávarklasans. Skrifað var undir samstarf við Kóreu um samstarf við að efla fullnýtingu afurða þar í landi í samræmi við áherslur Sjávaklasans.

Forsætisráðherra Portúgals, António Costa, heimsótti Klasann þegar hann var hér á landi vegna leiðtogafundar Evrópuráðs 16. og 17. maí 2023. Costa var borgarstjóri Lissabon áður en hann tók að sér embætti forsætisráðherra og því lá beint við að fá borgarstjóra Reykjavíkur, Dag B. Eggertsson, til þess að fara yfir sögu hafnarsvæðisins. Alexandra Leeper, leiddi svo forsætisráðherrann um Sjávarklasann ásamt því að fara stuttlega yfir sögu sjávarútvegs Íslands. 100% vöruborðið okkar þar sem alls kyns vörur unnar úr sjávarafurðum eru til sýnis sló í gegn hjá gestunum og sérstaklega Fish and Chips snakkið og orkudrykkurinn Collab sem inniheldur kollagen úr þorski.

Erlent kvikmyndagerðarfólk í Húsi Sjávarklasans. Bandaríska sjónvarps-þáttaröðin Hope in the Water mun fjalla um klasann í nýrri þáttaröð sem sýnd verður þar í landi núna í vor. Kóreska sjónvarpið kom og tók upp efni um 100% fish verkefnið okkar og loks heimsótti okkur franskt og þýskt þáttagerðarfólk sem mun fjalla um stofnun Íslenska Sjávarklasans.

Vinnustofur, viðburðir og góðir gestir

Það var okkur sönn ánægja að taka á móti Guðlaugi Þór Þórðarsyni umhverfis-, orku- og loftlagsráðherra og helstu leiðtogum hringrásarfyrirtækja í húsi Sjávarklasans til að ræða tækifærin fyrir þessa ört vaxandi atvinnugrein sem mun leiða okkur inn í framtíð minni sóunar og minni innflutnings. Þetta var í fyrsta skipti sem þessi hópur kom saman og segja má að krafturinn hafi verið áþreifanlegur.

Í maí stóðum við að viðburði ásamt Gagarín Astrid, Ocean Voices, þar sem vísindamenn, listamenn, frumkvöðlar og fræðimenn skiptust á sögum af störfum sínum sem tengjast hafinu á einn eða annan hátt. Viðburðurinn var hluti af Nýsköpunarviku Reykjavíkur 2023.

Í lok maí héldum við svo opið hús og fögnuðum blárri nýsköpun í Sjávarklasanum. Yfir 50 fyrirtæki og frumkvöðlar kynntu vörur sínar og vinnu fyrir gestum meðal annars kollagen úr fiski, rækjuveiðar með ljósum, síldarlýsi, sárameðferð úr fiskroði, veiðitækni, rafmagnsbáta, fiskleður, siglingakerfi, salt með beinamarningi, þjálfunarhugbúnað fyrir fiskvinnslu, fiskisnakk, fiskidrykki, líforkuver, endurunnin fiskikör, snyrtivörur úr skel, rækju, þangi og fæðubótarefni úr rækju og þorski.

Viðburðurinn „Fishing for Fashion: Utilizing Fish Skins in the Fashion Industry” sem miðaði að því að kanna nýstárlegar leiðir til að nýta fiskroð sem verðmæta auðlind í tísku-heiminum var haldinn á haustmánuðum og er frábær viðbót við bláa hagkerfið sem heldur áfram að gefa.

Við stóðum fyrir hakka­þoni um samnýtingu í hafinu undir yfirskriftinni „Hökkum hafið” á haustmánuðum, sem miðaði að því að skoða hvernig mætti samnýta aðstöðu og innviði ólíkra hagaðila á hafi úti. Þannig var horft til þess hvernig mætti nýta hafið til matvælaframleiðslu, orkuöflunar og alls sem þessu hæfileikafólki alls staðar að af Norðurlöndunum datt í hug með hringrás og umhverfið í huga.

Við höfum þegar hafið skipulagningu á fleiri viðburðum undir þessum formerkjum og erum spennt að fá Háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið til liðs við okkur til að halda annað hakkaþon á vormánuðum 2024. Þar munu fólk og fyrirtæki úr bláa hagkerfinu, opinberar stofnanir og nemendur úr háskólunum koma saman með það fyrir augum að greina tækifæri til lausna á fyrirliggjandi áskorunum í bláa hagkerfinu.

Guðmundur Fertram Sigurjónsson forstjóri Kerecis ræddi við Kristinn Lár í Northstack um sögu Kerecis í september. Hús Klasans var þétt setið enda stórmerkilegt frumkvöðlafyrirtæki á ferð og fór Guðmundur vel yfir söguna sem leiddi að stofnun Kerecis og svo söluna til Coloplast á 175 milljarða króna síðasta sumar.

Sjávarklasinn hélt einnig vinnustofu um gervigreind í bláa hagkerfinu. Markmið vinnustofunnar var að efla þekkingu og deila hugmyndum varðandi möguleikana sem þessi tækni opnar, hvar tækifærin liggja og hverjar séu helstu áskoranir. 

Vinnustofan sýndi vel að það er tilefni til að kafa dýpra ofan í þetta viðfangsefni og vinna að auknu samstarfi milli hins opinbera og einkageirans og munum við beita okkur fyrir því á nýju ári.

Sjávarklasinn og Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi buðu viðskipta- og hagfræðinemum Háskóla Íslands í vísindaferð þar sem þau fræddust um verðmætin sem leynast í hafinu. Kerecis kynnti lækningavörur sínar og Ölgerðinni fór yfir sögu vinsæla orkudrykksins Collab sem inniheldur kollagen úr þorskroði. Og að sjálfsögðu var boðið upp á dýrindis þorsk frá Fiski dagsins!

Við lokuðum svo árinu með að fagna með vinum okkar í Fisktækniskólanum í Grindavík sem útskrifuðu 74 nemendur úr hinum ýmsu greinum eins og fiskeldistækni, gæðastjórnun, veiðafæratækni og vélstjórnun í húsnæði Sjávarklasans þar sem þau áttu ekki heimangengt.

Afar ánægjulegt að geta lagt til húsnæði fyrir þennan gleðilega viðburð og við óskum nemendunum öllum aftur innilega til hamingju með árangurinn!

Græni iðngarðurinn

tífalt stærri en Hús sjávarklasans

Stóra systir Sjávarklasans fæddist í marsmánuði – Græni Iðngarðurinn á Reykjanesi, sem stofnandi klasans, Þór Sigfússon, leiðir ásamt Kjartani Eiríkssyni.
Græni iðngarðurinn er tífalt stærri að grunnfleti en Hús sjávarklasans og mun hýsa fjölþætta iðnaðarstarfsemi í bland við aðstöðu fyrir frumkvöðla sem þurfa aukið rými en húsnæði okkar á Grandagarði býður upp á. En iðngarðurinn er fyrst og síðast stórt hringrásarverkefni því með þessu er verið að nýta innviði sem fyrir voru á svæðinu og er áhersla lögð á að þau fyrirtæki sem veljast inn í húsið hafi hag af hvort öðru og að hugsað sé um allt umhverfi og innviði sem eina hringrás.

Spennandi ár framundan!

Árið 2024 fer vel af stað og við hlökkum til að segja ykkur frá því sem að höndum ber í mánaðarlegu fréttabréfi. Ekki hika við að hafa samband við okkur ef hugmyndir eða spurningar vakna.

Við hvetjum ykkur öll að heimsækja nýju heimasíðuna okkar, fylgja okkur á samfélagsmiðlum og koma í kaffi að vild!