100% Fiskur og framtíð í sjálfbærni

Þrátt fyrir að hringrásarhagkerfið, sem felur í sér að deila, leigja, endurnýta, og endurnýja vörur eins lengi og hægt er, hafi um árabil haft matarsóun sem eitt sitt helsta baráttumál, má segja að fiskur og meðferð hliðarafurða úr fiski hafi ekki verið ofarlega á blaði í umræðunni víða um heim. Þetta á þó síður við um Ísland en önnur lönd þar sem sóun á hliðarafurðum fisks er með því minnsta sem þekkist í heiminum. Hér eru þó líka tækifæri til að gera betur.

Eins og með flest af því sem snýr að höfum heimsins hefur meðferð fisks og hliðarafurða fisks verið í einskonar svartholi. Það mikla flæmi, sem höf heimsins eru, hefur ekki verið rannsakað nema að litlum hluta og því hefur vantað aukna þekkingu og tölur til að vinna með takmarkaðar en þó gríðarlegar auðlindir hafsins. Vegna þessa hefur sjávarútvegur orðið að einhverju leiti einangraðri frá öðrum matvælagreinum.

Það er ekki fyrr en á síðustu árum sem þetta svarthol hefur verið lýst upp og þá hafa tækifærin og áskoranirnar komið í ljós. Þetta á ekki síst við um hliðarafurðir fisks og meðferð þeirra. Mörg ríki og alþjóðastofnanir eins og FAO eru að beina sjónum sínum að þessu viðfangsefni. Í kjölfarið birtast nú fleiri og fleiri tölur og niðurstöður rannsókna um tækifæri í betri nýtingu og fleiri dæmi um verðmætasköpun í hliðarafurðum líta dagsins ljós. Í kjölfarið vex áhugi rannsakenda og frumkvöðla á því að draga úr úrgangsflóðinu.

Nú þegar umræðan um hliðarafurðir eykst og stöðugt fleiri fyrirtæki, rannsakendur, svæði og lönd, hefja vinnu við að grynnka á heilum fjöllum af vannýttum hliðarafurðum þá er mikilvægt að skoða hvernig fullnýting á fiski getur best komið inn í verkefni sem tengjast því sem nefnt hefur verið “samlíf” (industrial symbiosis) en þar er átt við að samnýta hliðarafurðir sem annars hefði verið fargað og hámarka nýtingu auðlinda.

Kortleggja þarf hvernig hægt er að nýta best hliðarafurðir úr sjávarútvegi og eldi í samlífi iðnaðar. Með því að koma fiskinum og öðrum hliðarafurðum hafsins inn í hið stóra mengi fullnýtingar alls iðnaðar þá græða allir; umhverfið þó mest.

Íslenski sjávarklasinn hefur talað fyrir fullnýtingu fisks í á annan áratug. Ísland er nú orðið leiðandi í umræðu og athöfnum í sambandi við fullnýtingu eða það sem Sjávarklasinn hefur nefnt 100%fisk. Tugir fyrirtækja á Íslandi eru nú sérhæfð í nýtingu hliðarafurða sem víða annars staðar eru nýttar sem landfylling. Fjölmörg fyrirtæki hafa umbreytt þessum hliðarafurðum í verðmætar vörur fyrir heilsu- og lækningageirann og ýmsa aðra markaði.

Nú þarf að skoða betur hvernig skapa má enn fleiri tækifæri til fullnýtingar með samlífi iðnaðar með oft mjög ólíka hliðarstrauma. Fiskur og aðrar afurðir hafsins geta spilað þar mikilvægt hlutverk; nýtt hliðarstrauma frá öðrum greinum og um leið geti aðrar greinar nýtt strauma frá sjávarútvegi og eldi.

Sem dæmi má nefna að frávatn frá fiskvinnslum getur nýst með ýmsum hætti eins og sem áburður í plönturæktun og prótín fyrir kjötframleiðslu, úrgangur úr fiskeldi getur verið nýttur til lífgasgerðar, rækjuskel getur komið í stað annarra efna fyrir beinagerð í fólki og svona mætti lengi telja. Þá má nefna að aukaaefni úr þara má nýta til að lengja líftíma matvæla og lífplastgerðar og nýta sem náttúruleg prótín í dýrafóður svo eitthvað sé nefnt.

Með sama hætti getur afgangshiti og afgangsorka í orkuframleiðslu verið nýtt í landeldi á fiski eða þörungum og ýmsir aðrir hliðarstraumar matvælaframleiðslu sem fóður í eldi.

Núna þegar kastljósinu hefur verið beint í auknum mæli að tækifærum með nýtingu hliðarafurða sjávarútvegs er mikilvægt að efla samtal á milli haftengdra greina og hringrásarhagkerfisins; kortleggja tækifærin og láta svo árangursrík dæmi tala sínu máli. Gríðarleg tækifæri eru til staðar til að stuðla að samvinnu haftengdra greina og annarra greina þegar kemur að betri nýtingu auðlinda. Þau tækifæri felast ekki síst í því að með þeim má efla sjávarbyggðir víða um heim sem hafa átt undir högg að sækja. Samvinna um hliðarstrauma úr ólíkri starfsemi í smærri byggðum getur opnað á fleiri tækifæri fyrir minni samfélög til að efla atvinnu og skapa verðmæti. Hér getur íslensk þekking og reynsla átt mikinn þátt í að stuðla að betri nýtingu.

Nýtt verkefni, sem Sjávarklasinn hefur unnið að í samstarfi við Kjartan Eiríksson frumkvöðul, Græni iðngarðurinn á Suðurnesjum, hefur einmitt það að markmiði tengja saman fyrirtæki í ólíkum greinum og nýta betur hliðarstrauma þeirra. Fyrirmyndina að uppbyggingu Græna iðngarðsins má finna víða um heim í iðngörðum sem setja nýtingu hliðarstrauma á oddinn. Markmið Sjávarklasans í Græna iðngarðinum er ekki síst að ryðja brautir fyrir samlífi fisks og annarra verðmætra strauma úr öðrum áttum.

Danski sjávarklasinn, systurklasi Íslenska sjávarklasans er einnig að vinna með sömu hugmyndafræði. Ýmsir hliðarstraumar, sem tengjast meðal annars laxi, vannýttum hita og fleira, verða samnýttir í stóru verkefni klasans á Norður Jótlandi.

Aukin nýting hliðarafurða í sjávarútvegi, þegar hún er bæði efnahagslega og umhverfislega gerleg og hagkvæm, getur stuðlað að auknum tekjum sjómanna og eflt þannig sjávarbyggðir.
Þannig getur aukin samvinna um nýtingu hliðarstrauma orðið hvati fyrir lítil byggðarlög að fara betur með hliðarafurðir um leið og verðmæti eru sköpuð.

Fyrir frekari upplýsingar hafið samband við Þór Sigfússon: Thor@sjavarklasinn.is

>Samlíf (industrial symbiosis) á reykjanesi