Á miðvikudaginn var haldinn stofnfundur nýrrar deildar innan Miðborgarinnar – deild Gömlu hafnarinnar og Grandans. Miðborgin okkar er samstarfsvettvangur rekstraraðila í miðborginni og hlutverk hans er að stuðla að aukinni kynningu og markaðassetningu miðborgarinnar.

Um 35 rekstraraðilar verslana, veitingahúsa, ferðaþjónustufyrirtækja og aðrir atvinnurekendur á svæðinu sóttu fundinn og var mikill hugur í fólki að vinna saman að því að efla svæðið, merkja það, kynna og gera að sjálfsögðum viðkomustað þeirra sem leggja leið sína í miðborgina. Skipað var fulltrúaráð 48 aðila og 7 manna bráðabirgðastjórn hverrar formaður er Guðbrandur Benediktsson, forstöðumaður Borgarsafna. Þeir sem vilja skrá sig í hópinn eru hvattir til að senda póst á Guðbrand.

Fundurinn var haldinn á Bergsson RE og fulltrúar frá Íslenska sjávarklasanum voru meðal þátttakenda. Íslenski sjávarklasinn hefur mikinn metnað fyrir því að halda áfram því jákvæða uppbyggingarstarfi sem á sér stað við Reykjavíkurhöfn og vonar að samstarfið verði farsælt.

midborgarfundur-grandi