Nýjar vörur og hönnun streyma núna út hjá fyrirtækjum í Húsi sjávarklasans. Ankra kynnti á dögunum nýtt serum sem inniheldur meðal annars kollagen úr þorskroði og ensím frá Zymetech sem einangruð eru og unnin úr maga þorsksins. True Westfjords Trading kynnti Dropa, kaldpressað þorskalýsi, unnið eftir aldagamalli hefð, Ægir Seafood kynnti nýjar umbúðir fyrir niðursoðna þorsklifur og Omnom kynnir kaffisúkkulaði, unnið í samvinnu við Reykjavík Roasters, í lok mánaðarins. Þá er NAVIS að ljúka hönnun á 100 m löngum togara fyrir franska útgerð.

„Það er mikil gróska um þessar mundir og ekkert sem bendir til annars en að þetta sé bara að aukast áfram“ segir Eva Rún Michelsen framkvæmdastjóri Húss sjávarklasans. „Klasinn er einnig að vinna með ýmsum fyrirtækjum sem eru ekki í húsinu en eru að þróa nýjar vörur og tengja þau við fyrirtækin í Húsi sjávarklasans. Sú vinna gengur vel“ bætir Eva við.

Þá er einnig ánægjulegt að segja frá því að fimm fyrirtæki í Húsi sjávarklasans fengu á dögunum verkefnastyrk úr Tækniþróunarsjóði Rannís. Þetta eru fyrirtækin Codland, Lipid Pharmaceuticals, OculisThor Ice og Dropi.