Íslandsbanki gaf út nýja skýrslu í gær sem nefnis Íslenski sjávarútvegurinn en árlega hefur bankinn sent frá sér skýrslu um sjávarútveg á Íslandi. Í tilefni útgáfunnar var efnt til morgunverðarfundar sem haldinn var í Húsi Sjávarklasans að Grandagarði 16. Starfsfólk Íslandsbanka, þeir Rúnar Jónsson og Rafn Árnason sögðu nánar frá skýrslunni og sagði Ingólfur Árnason, framkvæmdastjóri Skagans frá nýjum samningum sem gengu í garð fyrir skömmu. Fundarstjóri var Friðrik Sophusson, stjórnarformaður Íslandsbanka

Í skýrslunni er fjallað um helstu hagstærðir, þýðingu sjávarútvegs fyrir efnahag landsins og rekstrarárangur fyrirtækja í greininni. Meðal lykilatriða sem koma fram í skýrslunni má nefna:

  • Sjávarafurðir námu um 38% af heildarútflutningsverðmæti vöru frá Íslandi árið 2011 en um 26% af heildarvirði útfluttrar vöru og þjónustu.
  • Samanlagt virði útfluttra sjávarafurða árið 2011 var tæpir 252 milljarðar íslenskra króna og hefur það aldrei verið hærra.
  • Sjávarútvegur var með 11% beint framlag til landsframleiðslu árið 2011, 25% ef tekið er tillit til óbeinna áhrifa sjávarklasans.
  • Bretland er helsta útflutningsland íslenskra sjávarafurða með 18% markaðshlutdeild, næst koma Spánn (9%), Noregur (7%) og Frakkland (7%).
  • Þorskur er verðmætasta fisktegundin með um 31% af heildarútflutningsverðmæti sjávarafurða.
  • Makríll var verðmætasta uppsjávartegundin árið 2011 og jókst verðmæti hans um 185% á milli ára.
  • Á Íslandi starfa um 9.000 manns beint í sjávarútvegi sem er um 5,3% af heildarvinnuafli landsins, 80% starfanna eru á landsbyggðinni.
  • Ísland er í átjánda sæti yfir umsvifamestu fiskveiðiþjóðir heims með 1,6% af heildarafla.
  • Ísland er með mestu neyslu sjávarafurða á íbúa (88 kg/íbúa) skv. gögnum frá FAO fyrir árið 2009.
  • Góð EBITDA framlegð hefur verið af rekstri sjávarútvegsfyrirtækja síðustu þrjú ár, skuldsetning minnkað og hagnaður aukist.

Frétt Íslandsbanka um útgáfuna má nálgast hér.

Áhugasamir geta lesið skýrsluna í heild sinni á vef Íslandsbanka.