Það hefur verið mikið um nýja klasameðlimi hjá okkur á síðustu mánuðum. Eins og áður er þar mikil breidd af nýsköpun. Hér eru bara þau fyrirtæki sem tengjast bláa hagkerfinu og eru nú hluti af klasanum.
Fyrst er að nefna Primex sem flutti nýverið í Hús sjávarklasans en þetta fyrirtæki hefur verið í fararbroddi nýsköpunar með rækjuskel og er með höfuðstöðvar á Siglufirði. Þá er Rotovia móðurfélag Sæplasts og iTUB búið að koma sér fyrir í klasanum. Fiskmarkaður Íslands hefur einnig nýverið komið í okkar hóp. Þá er nýsköpunarfyrirtækið Stika að koma sér fyrir hjá okkur en þetta fyrirtæki á án efa eftir að koma eins og stormsveipur inn í umhverfismál sem tengjast m.a. sjávarútvegi. Þá var sérlega gaman að fá tvær arkitektastofur til okkar, annars vegar JSVT sem hafa unnið að framtíðahugmyndum um uppbyggingu í Örfirisey og Urban Arkitektar sem hafa unnið náið með eldisfyrirtækjum um landið. Loks má nefna að fyrirtækin Eylíf og Marintech hafa bæði fjölgað starfsfólki hjá okkur í húsinu.