Ljótu kartöflurnar hlutu viðurkenninguna sem áhugaverðasti Matarsproti ársins, Matarsprotinn 2017 var veittur í Sjávarklasanum í dag 28. nóvember.

Markmiðið með Matarsprotanum er að vekja athygli á þeim krafti og grósku sem einkennir nýsköpun í mat og drykk og kemur í kjölfarið á Matur og Nýsköpun sem nýlega fór fram í Sjávarklasanum. Að Matarsprotanum 2017 standa Íslenski sjávarklasinn og Landbúnaðarklasinn. Matarsprotinn var fyrst veittur á síðasta ári og þá hlaut Eimverk Distillery viðurkenninguna fyrir framleiðslu á áfengi úr hágæða íslensku hráefni.

Ljótu kartöflurnar framleiða kartöfluflögur úr stórum og aflöguðum kartöflum sem hingað til hafa ekki verið nýttar til hefðbundinnar matreiðslu. Ljótu kartöflurnar leitast alltaf við að nota innlent hráefni og flögurnar koma í þremur bragðtegundum.

Íslenski sjávarklasinn óskar Ljótu kartöflunum til hamingju með viðurkenninguna.

 

DSC07014