Mynd1Í dag tók Lilja Alfreðsdóttir utanríkisráðherra á móti fyrsta Fish and Ships poka Íslenska sjávarklasans úr hendi Þórs Sigfússonar framkvæmdastjóra klasans. Í Fish and Ships pokanum eru ýmsar afurðir sem framleiddar hafa verið úr hliðarafurðum íslenskra sjávarafurða og skapað hafa mikil verðmæti fyrir íslenskt þjóðarbú.

Fish and Ships pokinn er hluti af samnefndu verkefni Íslenska sjávarklasans í samstarfi við Atvinnuvegaráðuneytið og Íslandsstofu sem miðar að því að kynna hvernig Íslendingar hafa nýtt þekkingu í sjávarútvegi til þess að búa til verðmæti úr afurðum sem víðast hvar í heiminum eru ekki nýttar. Um leið eru kynntar þær tæknilausnir sem Íslendingar hafa upp á að bjóða til að gera öðrum kleift að nýta betur hliðarafurðir.

Í Fish and Ships pokanum eru m.a. fiskileður og fylgihlutir frá Sjávarleðri og Valfoss, Pensím frá Zymetech, lýsisperlur frá Lýsi og Dropa, fiskikollagen frá Ankra, stoðefni frá Kerecis, niðursoðin þorsklifur frá Ægi Seafood, Spot Doc frá Andrá og fiskiprótein frá Iceprotein. 

„Með Fish and Ships verkefninu viljum við efla samstarf íslenskra fyrirtækja í sölu og markaðssetningu á íslenskri þekkingu og ýmsum vörum sem orðið hafa til úr vinnslu hliðarafurða,“ segir Þór Sigfússon framkvæmdastjóri Íslenska sjávarklasans. „Við viljum virkja enn betur fulltrúa Íslands á erlendum vettvangi og beina því til þeirra að þeir kynni þessar afurðir og tækni á ferðum sínum um heiminn.“