Hvaða hlutverki gegna fiskihafnir í „bláa hagkerfinu“, þeirri vaxandi starfsemi sem umbreytir auðlindum hafsins í lyf, fæðubótarefni, lækningavörur og aðrar verðmætar afurðir? Við þessari spurningu er ekki auðsótt svar, en færa má rök fyrir því að fyrsta skrefið sé að kortleggja hvort tvegga, fiskihafnir og aðra þátttakendur hins bláa hagkerfis.  
Íslenski sjávarklasinn hefur unnið kortlagningu á fiskihöfnum og haftengdri þekkingar- og nýsköpunarstarfsemi á helstu sjávarútvegssvæðum við Norður-Altantshaf; Íslandi, Noregi, Danmörku, Grænlandi, Færeyjum, Skotlandi og austurströnd Kanada og Bandaríkjanna.
 
Verkefnið er hluti af verkefni á vegum norræna atlantssamstarfsins (NORA) sem miðar að því að efla hafnsækið samstarf á Norður-Atlantshafi.
Niðurstöðurnar voru færðar á gagnvirkt kort sem deilt er niður á fimm flokka; fiskihafnir, háskóla, rannsóknastofnanir, klasa og samtök og fyrirtæki.
Fiskihafnir: U.þ.b. 10 stærstu fiskihafnir á hverju svæði, með yfir 10.000 tonn af lönduðum afla árlega.
Háskólar: Háskólar sem bjóða upp á bakkalárs- eða meistaragráðu með áherslu á haftengdar greinar á borð við sjávarlíftækni og sjávarútvegsfræði.
Rannsóknastofnanir: Rannsóknarstofnanir með áherslu á haftengda starfsemi eða sérstaka deild á því sviði.
Klasar og samtök: Starfandi klasar eða samtök í haftengdum greinum.
Fyrirtæki: Fyrirtæki sem stunda vinnslu úr afurðum hafsins aðra en hefðbundna framleiðslu á matvælum og dýrafóðri. 
Hafa þarf í huga að kortlagning á borð við þessa er og verður seint tæmandi. Til þess er heimurinn of hverfull og óreiðukenndur. Þó má gera ráð fyrir því að hægt sé að útbúa þónokkuð heildstæða heildarmynd með skipulegri rannsóknarvinnu á vefnum, fyrirspurnum til gagnabanka og samtölum við ýmis samtök og lykilaðila á hverju svæði fyrir sig. Einnig bendum við á að til einföldunar tekur kortlagningin ekki til hefðbundinna útgerða og fiskvinnslufyrirtækja enda hafa rannsóknir þegar gefið til kynna sterk landfræðileg tengsl fiskihafna og hefðbundinnar fiskvinnslu.
Hægt er að fylgjast með afdrifum verkefnisins hér. Allar ábendingar og fyrirspurnir eru velkomnar á sjavarklasinn@sjavarklasinn.is