Berta Daníelsdóttir framkvæmdastjóri Sjávarklasans ræddi framtíðina hjá Sjávarklasanum í nýlegu viðtali við Sjávarafl.

Nýverið hlaut Íslenski sjávarklasinn viðurkenningu fyrir að bjóða upp á besta „coworking space“ á Íslandi en Nordic Startup Awards afhentu klasanum verðlaunin í byrjun september.  Það var sérlega ánægjulegt að taka við þessum verðlaunum en ennþá meira gaman er að velta fyrir sér hvernig megi áfram byggja á reynslu Sjávarklasans til að efla nýsköpunarstarf á Íslandi og annars staðar.

Oftast verða klasar til í kringum hátækniiðnað. Mörgum þykir sem sjávarútvegurinn sé deyjandi grein en í upphafi settu stofnendur Sjávarklasans sér það markmið að sjávarútvegur og tengdar greinar yrðu sérsvið Sjávarklasans. Ísland er í fararbroddi á mörgum sviðum sem tengjast sjávarútvegi. Engu að síður var viðhorf vel menntaðs fólks það að sjávarútvegurinn væri góð undirstöðugrein en hann kæmi ekki til með að skapa störf. Þeim myndi fækka og betra væri að snúa sér að einhverju allt öðru. Þessu vildi klasinn breyta.

Upphafið

Í upphafi var róðurinn erfiður. Finna þurfti leiðtoga úr íslensku atvinnulífi sem vildu koma í samstarf við klasann og höfðu trú á háleitum hugmyndum hans um að gera Ísland að eins konar Sílíkondal sjávarútvegs í heiminum. Fljótlega komu fyrirtæki á borð við Brim, Icelandair Cargo, Samhenta, Íslandsbanka, Vísi hf, Bláa lónið, Skinney Þinganes, Faxaflóahafnir og Tryggingamiðstöðina um borð og þannig skapaðist grundvöllur til að vinna fyrstu úttektir um umfang alls sjávarútvegsins (að meðtöldum öllum stoðgreinum) og byrja að búa til samstarfsverkefni. Á þeim árum sem liðin eru hafa mörg skemmtileg verkefni litið dagsins ljós. En það verkefni sem hefur líklega skilað hvað mestu til samfélagsins er Hús sjávarklasans.

Á árinu 2011 hófst Klasinn handa við að innrétta 800 fermetra að Grandagarði 16 fyrir ýmis fyrirtæki sem tengjast sjávarútvegi. Þetta varð upphafið að Húsi sjávarklasans. Fyrstu fyrirtækin sem nýttu sér húsnæðið voru 3X, Pólar, Sjávarútvegsþjónustan, Thorice og DIS svo einhver séu nefnd.  Fljótlega kom í ljós að Hús sjávarklasans virkaði eins og sjávarútvegssýning sem er opin allan ársins hring. En auk þess sást fljótt að fólk var spennt fyrir svona samfélagi, að efla samstarf við aðra og búa til eitthvað nýtt. Þarna voru kaffivélarnar mikilvægar en íbúar hússins spjölluðu mikið saman við þær, ræddu hugmyndir og komu síðan hlutum í verk.  Þarna skipti gríðarlega miklu máli hversu gott samstarf varð til á milli Faxaflóahafna og klasans.

Við hönnun á skrifstofurýminu hafa ákveðin grunngildi verið höfð að leiðarljósi sem hafa í grófum dráttum haldist í gegnum næstu uppbyggingar fasa. Húsið er bjart og eru ljósir litir áberandi. Skrifstofurými eru með glerveggjum og fremur opin. Í allri hönnun er reynt að viðhalda ákveðnum karaktereinkennum hússins og tengja saman starfsemina sem fer fram í húsinu og þá starfsemi sem tengist höfninni. Fyrirtæki sem leigja aðstöðu í húsinu hafa aðgang að góðri sameiginlegri aðstöðu, fundarherbergjum og kaffiaðstöðu. Sjávarklasinn er uppbyggður af fremur litlum skrifstofum sem virka nánast eins og kynningar – eða söluskrifstofur. Sum þessara fyrirtækja hafa sett upp framleiðslu í húsnæði í næsta nágrenni við Sjávarklasann. Gott dæmi um þetta er ThorIce, sem er með aðstöðu í næsta húsi við Sjávarklasann.

 

Lögð hefur verið áhersla á það í húsinu að þar sé að stærstum hluta athafnafólk sem þróar hugmyndir sínar í samvinnu við aðra. Í gegnum formleg og óformleg samskipti sem eiga sér stað vegna þess að fyrirtækin deila sameiginlegu rými flæða upplýsingar hraðar á milli aðila og hugmyndir þróast.

Oft þróast þær reyndar í allt aðrar áttir en upphaflega var ætlað í gegnum samtöl og samvinnu ólíkra fyrirtækja sem koma oft að borðinu með mismunandi sýn og nálgun. Í nýlegri athugun Íslenska sjávarklasans á samstarfi fyrirtækja í Húsi sjávarklasans kemur i ́ ljós að um 70% fyrirtækjanna i ́húsinu höfðu átt samstarf við annað fyrirtæki i ́húsinu á sl. tveim árum. Þetta hlutfall er töluvert hærra en fram kemur i ́ niðurstöðum athugana á erlendum húsum sem bjóða svipaða þjónustu. Áætlað hefur verið að sprotafyrirtæki eða minni fyrirtæki í Húsi sjávarklasans hafi vaxið á ári um allt að fimmtán til tuttugu prósent að meðaltali.

 

Hugmyndasmiðja á heimsmælikvarða

Í kringum klasa myndast gjarnan þéttur hópur fyrirtækja og það finnum við á nærumhverfinu við Hús sjávarklasans. Það gerist gjarnan þegar fyrirtæki mynda klasa  af þessu tagi að umhverfið allt í kring eflist.

Eins og staðan er núna komast ekki fleiri fyrirtæki að í Íslenska sjávarklasanum og nokkur fyrirtæki eru á biðlista. Stækkunarmöguleikar eru ekki miklir. Við höfum sett fram hugmyndir um frekari stækkun á Granda sem mundi líka þýða að útvegað verði hraðvaxandi fyrirtækjum innan klasans húsnæði. Það er auðvitað erfitt í dag. Við viljum sjá tæknifyrirtækin okkar, hvort sem er í búnaði fyrir sjávarútveg eða fiskvinnslu, eða líftæknifyrirtæki, sem mörg hver vaxa hratt, geta vaxið hér á þessu svæði, svo við getum búið til umhverfi til stór og smá fyrirtæki sem sérhæfa sig í að nýta þekkingu til að þróa nýjar vörur og búnað sem tengist okkar grein.

Við erum búin að viðra þessar hugmyndir við borgina og fjárfesta á svæðinu sem hafa áhuga á að starfa með okkur að þessari uppbyggingu. Það eru mikil tækifæri fyrir íslendinga að verða leiðandi í sjávarútvegi í okkar heimshluta og uppbygging Grandasvæðisins og áframhaldandi vinna klasans tel ég að geti stuðlað að því.

Næstu verkefni

Starfsemi Íslenska sjávarklasans hefur spurst út til annarra landa og reglulega koma fyrirspurnir erlendis frá hvort hægt sé að gera svipaða hluti í öðrum höfnum.  Íslenski sjávarklasinn hefur þegar opnað eins konar systurklasa á Nýja Englandi og annars staðar.

Um leið og við horfum til annarra landa og eigum okkur draum um frekari uppbyggingu á Grandanum eru fjölmörg verkefni, sem unnið er að á vettvangi klasans, sem lúta að nýsköpun og vinnu við hugmyndir sem aukið gera verðmæti okkar samstarfsfyrirtækja. Við erum stögugt að leita leiða til að efla samstarf um nýsköpun. Ný verkefni á þeim sviðum eru m.a. í umhverfismálum, veiðarfæratækni, flutningum, samstarf í útflutningi nýsköpunarfyrirtækja, pælingar í sambandi við þörunga, nýsköpun í matvælum tengdum sjávarútvegi og landbúnaði svo eitthvað sé nefnt.  Framtíðin er björt.