Föstudaginn 4. desember nk. kl. 12-18 verður sannkölluð jólastemning í Húsi sjávarklasans og haldinn verður jólamarkaður með ýmsum nýjum og spennandi vörum úr sjávarútvegi þar sem hægt verður að versla beint við framleiðendur og hönnuði. Á markaðnum verða t.d. Íslenski sjávarklasinn með gjafapokana sína með nýjungum úr sjávarútvegi, Dagný Land Design verður með húsgögn úr rekaviði, Blámar með hágæða fisk, Bergsson RE með gjafabréf, hnetusteik og veitingar, Aflakló með spilið sitt, Dropi með lýsi, Kristbjörg Keramiker með bolla, skálar og fleiri gjafavörur, Icemedico með Hap+, Valfoss með gjafavörur úr fiskroði og margt fleira.

Svo er sérstaklega gaman að segja frá því að nemendur úr Fjölbrautaskólanum í Breiðholti verða með alveg nýja og einstaka vöru frá nemendum í frumkvöðlanámskeiði við skólann, smjörhníf sem var sérstaklega hannaður með sjávarútvegsþema.

Það verður því margt skemmtilegt að finna og einstakar jóla- og/eða tækifærisgjafir. Það eru allir velkomnir að kíkja við og svo er hægt að kíkja í allar hinar skemmtilegu búðirnar og veitingahúsin á Grandanum.