Undanfarin ár hafa hundruðir nemenda í framhaldsskólum fengið þjálfun í stofnun og rekstri fyrirtækja. Sá hópur framhaldsskólanemenda, sem stundað hefur nám á þessu sviði, hefur vaxið mjög hratt síðustu ár. Ástæða þess er ekki síst tilkoma Fyrirtækjasmiðju Ungra frumkvöðla – JA Iceland sem boðið hefur skólum að liðsinna við nám á þessu sviði hérlendis. Í náminu eru nemendur hvattir til að koma viðskiptahugmynd í framkvæmd með því að stofna fyrirtæki.  Haldin hefur verið sýning á þessum fyrirtækjum nemendanna  í Smáralind um árabil. Sjávarklasinn er aðili að þessu verkefni.

Um 600 nemendur tóku þátt í Fyrirtækjasmiðju Ungra frumkvöðla – JA Iceland á árinu 2019 og stefnt var að töluverðri aukningu á þessu ári.

Stór hluti þessara nemenda hefur á síðustu árum heimsótt nýsköpunarfyrirtæki og kynnt sér stofnun þeirra og rekstur. Þar sem ekki getur orðið að því um þessar mundir ákvað Sjávarklasinn að láta gera kennsluefni sem gæti nýst nemendum í fjarnámi. Þar eru viðtöl við stofnendur nýsköpunarfyrirtækja sem segja frá tilurð sinna fyrirtækja og hvernig hugmyndin hefur þróast í raunverulegt fyrirtæki. Þá gefa stofnendurnir nemendunum, sem nú eru að undirbúa stofnun sinna fyrirtækja í fyrirtækjasmiðju framhaldsskólanna, góð ráð.  

Fyrstu níu kynningarnar liggja nú fyrir og eru aðgengilegar á youtube rás Sjávarklasans.

Þá er stefnt að því að kynningarnar verði á menntavef RÚV innan skamms. Von er á fleiri kynningum fljótlega ef aðstæður leyfa.

Ísfélag Vestmannaeyja og Marel eru stuðningsaðilar þessarar kennslumyndbanda.

Nánari upplýsingar veitir Sigurður D. Stefánsson nýsköpunarstjóri Sjávarklasans í síma 8697717