Umhverfisfyrirtækið Íslenska gámafélagið hefur gengið til liðs við Íslenska sjávarklasann og mun því framvegis taka virkan þátt í samstarfi á vegum hans. Stefnt er að stofnun nýs undirklasa sem sérstaklega mun fjalla um umhverfismál í tengslum við sjávarútveginn en Haukur Björnsson forstjóri Íslenska gámafélagsins og Berta Daníelsdóttir framkvæmdastjóri Íslenska sjávarklasans gengu frá þjónustusamningi þess efnis í vikunni.

Frá stofnun Íslenska gámafélagsins árið 1999 hefur fyrirtækið einsett sér að vera leiðandi á sviði umhverfismála í sorphirðu, endurvinnslu og endurnýtingu. Fyrirtækið leitast við að finna markvissar lausnir í umhverfismálum og leitar stöðugt nýrra tækifæra í vistvænni nýtingu orku og auðlinda.

Sjávarklasinn hefur stuðlað að fullnýtingu sjávarafurða og innleiðingu umhverfisvænni tæknilausna með góðum árangri. Innganga í Sjávarklasann er þannig í fullu samræmi við markmið og tilgang Íslenska gámafélagsins.  Samningsaðilar eru þess fullvissir að samstarfið muni leiða til frekari nýsköpunar í sjávarútvegi á sviði endurvinnslu, minni sóunar og hreinna hafs.