Vistvænt-skipEin mikilvægasta áskorunin í sjávarútvegi og annarri haftengdri starfsemi er að gera skip og skipasiglingar umhverfisvænni. Til að stuðla að því efna Íslenski sjávarklasinn, atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið og Íslensk nýorka til samkeppni sem hefur það að markmiði að auka áhuga á umhverfisvænum lausnum og nýsköpun í tengslum við orkunotkun, skipatækni, veiðarfæri og annan tækni- og hugbúnað um borð í skipum.

Takmarkið er að draga úr umhverfisáhrifum skipaútgerðar!

Sjávarútvegur er undirstöðuatvinnugrein á Íslandi. Með hugviti hefur tekist að skapa greininni sess framarlega á heimsvísu og með nýsköpun hefur tekist að auka verðmæti afurða, draga úr kostnaði og skapa nýjar afurðir.
Nú er komið að því að beita hugviti og nýsköpun til að finna grænar lausnir sem minnka mengun, auka hlutdeild endurnýjanlegra orkugjafa og bæta almenna umgengni okkar við hafið og lífríki þess.

Hafsjór hugmynda – og þær bestu fá vegleg verðlaun. 

Samkeppnin nær yfir allar hugmyndir sem miða að því að draga úr orkunotkun skipa eða því að auka hlut annarra orkugjafa en jarðefnaeldsneytis. Endurbætur eða breytt hönnun skipa koma þannig til greina og hugmyndir sem stuðlað geta að orkusparnaði eða orkuskiptum skipa. Hugmyndirnar geta einnig snúist um umhverfisvænar lausnir um borð í skipum, t.d. breyta hönnun eða nýja tegund veiðarfæra, upplýsingatækni o.þ.h. sem stuðlað getur að orkusparnaði um borð.
Ekki er nauðsynlegt að skila inn nákvæmum teikningum eða útfærslum – heldur er fyrst og fremst kallað eftir nýjum hugmyndum um það hvernig hægt er að gera skip vistvænni.

Vegleg verðlaun verða veitt þeim þremur hugmyndum sem þykja skara framúr. Fyrstu verðlaun eru 1,5 m.kr. og hugmyndirnar í 2.-3. sæti fá 500 þús. hvor um sig.
Valdar hugmyndir verða kynntar á ráðstefnunni „Making Maritime Application Greener – 2016“ sem haldin verður á Grand hótel þann 4. október næstkomandi.

Allar nánari upplýsingar hér.