Mikilvægi og gildi góðrar hönnunar, arkitektúrs og staðarprýðis verður samfélagi okkar sífellt skýrari. Hönnun var ein þeirra atvinnugreina sem reis með mjög áberandi hætti upp úr óreiðu eftirhrunsáranna og hefur sett sterkan svip á hvers konar nýsköpun sem nú stendur í miklum blóma. Samþætting vandaðrar hönnunar við rótgrónar atvinnugreinar er ein tegund nýsköpunar og afar mikilvæg í heimi harðnandi alþjóðlegrar samkeppni á flestum sviðum.

Íslenski sjávarklasinn hefur allt frá stofnun lagt höfuðáherslu á að leiða saman ýmis konar hönnuði annars vegar og frumkvöðla og stjórnendur í sjávarútvegi og öðrum greinum sjávarklasans hins vegar. Þetta hefur fyrst og fremst verið gert með það fyrir augum að aðstoða frumkvöðla og fyrirtæki við að móta og markaðssetja vörur sínar og hámarka verðmæti þeirra. Í Húsi sjávarklasans hefur hönnun líka mikið komið við sögu til að ýta undir samvinnu og opið viðmót í opnu og skapandi umhverfi.

Íslenski sjávarklasinn hefur auk þess átt í afar góðu samstarfi við Hönnunarmiðstöð Íslands undanfarin ár og tekið þátt í HönnunarMars síðastliðin ár. Þá er einn menntaður hönnuður í starfsliði Íslenska sjávarklasans, Milja Korpela, en hún hefur unnið að hönnunarverkefnum fyrir fjölmörg fyrirtæki í samstarfsneti Íslenska sjávarklasans að undanförnu, meðal annars fyrirtækin Codland, Breka, Margildi, Bergsson, Pólar toghlera, Iceland Sustainable Fisheries og Ægi Seafood.

Á myndunum hér að neðan má sjá nokkur sýnishorn af vandaðri hönnun innan sjávarklasans á allra síðustu misserum.