Líkt og greint var frá í fréttum um helgina mun Íslenski sjávarklasinn hefja viðræður við Reykjavíkurborg um að taka við húsnæðinu við Hlemm með það fyrir augum að starfrækja þar mathöll (e. food hall). Íslenski sjávarklasinn sótti um að taka við húsnæðinu eftir auglýsingu borgarinnar frá því fyrr í sumar.

Ásamt Íslenska sjávarklasanum standa að umsókninni þeir Leifur Welding hönnuður, Ólafur Örn Ólafsson framreiðslumaður og annar stofnenda Krás Götumatarmarkaðar og Þórir Bergsson veitingamaður. Þá höfum við einnig fengið góð ráð frá Niels L. Brandt, framkvæmdastjóra Torvehallerne í Kaupmannahöfn, sem heimsótti okkur í sumar og hyggst vera ráðgjafi hópsins.

uti

Byggingin Hlemmur, sem Gunnar Hansson teiknaði og var reist 1978, er einstök og á sér merkilega sögu. Nærumhverfi Hlemms er nú í mikilli sókn og uppbyggingu en bæði íbúum og atvinnuhúsnæði fjölgar þar nokkuð hratt og hverfin eru að taka á sig sterkari og jákvæðari mynd en áður var. Við sjáum því mikil tækifæri í uppbyggingu mathallar á Hlemmi sem gætt getur matarmenningu Reykjavíkur enn meira lífi og skapað vettvang fyrir sölu á hágæða matvælum með áherslu á lífræna og umhverfisvæna framleiðslu. Þá skapast með þessu stórt tækifæri til aukinnar nýsköpunar og samstarfs í matarvælaframleiðslu og veitingageiranum, en Íslenski sjávarklasinn hefur mikla reynslu af vinnu með nýsköpunarfyrirtækjum í matvælaiðnaði.

dosir

„Hlemmur á fyrst og síðast að þjónusta þá sem búa og starfa í næsta nágreinni Hlemms en einnig gesti miðborgarinnar sem vilja versla afbragðs mat og drykk“ segir Bjarki Vigfússon, verkefnastjóri hjá Íslenska sjávarklasanum. Hann bætir einnig við að með þessu skapist tækifæri til að styrkja ímynd Reykjavíkur sem öflugrar matarborgar og Íslands sem matvælalands með einstaka matarhefð og öfluga frumkvöðla. „Við höfum mikla reynslu af vinnu með nýsköpunarfyrirtækjum í sjávarútvegi og nú erum við örlítið að færa úr kvíarnar en hugmyndafræðin er enn sú sama, að styrkja og efla góð og skapandi fyrirtæki“ bætir Bjarki við.

Áform Íslenska sjávarklasans um að starfrækja mathöll á neðri hæð Húss sjávarklasans standa eftir sem áður óbreytt enda ekki minni gerjun og uppbygging sem nú á sér stað við Vesturhöfnina og úti á Granda.

Framtíðin er því mjög spennandi í þessum efnum.