Á fimmtudaginn sagði Morgunblaðið frá samningi Kerecis við Rannsóknarmiðstöð bandaríska sjóhersins um þátttöku í verkefni vegna þróunar rannsóknarmiðstöðvarinnar á nýrri tækni til meðhöndlunar á slösuðum hermönnum. Rannsóknarmiðstöðin hefur alls tæpa tvo milljarða króna til verkefnisins og verði það árangursríkt getur það því skilað Kerecis talsverðum tekjum. Öll vinnan við verkefnið fer fram hér á landi.

Það er ánægjulegt að segja frá því að Kerecis og fulltrúi rannsóknarmiðstöðvarinnar hittust fyrst fyrir tilstilli Íslenska sjávarklasans og Bandaríska sendiráðsins í Húsi sjávarklasans. Á þeim fundi voru saman komin nokkur fremstu sjávarlíftæknifyrirtæki á Íslandi og kynntu starfsemi sína. Blake McBride fulltrúi Rannsóknarmiðstöðvarinnar sýndi merkilegu rannsóknastarfi Kerecis strax mikinn áhuga. McBride sagði nýlega í bréfi til Íslenska sjávarklasans að samskiptin við Kerecis „hefðu ekki komið til án Íslenska sjávarklasans“.

„Við erum auðvitað fyrst og fremst stolt af frábæru rannsóknarstarfi Kerecis en við erum líka ánægð með að sjá hvað öflugt sendiráð, eins og Bandaríska sendiráðið, og frábært starfsfólk þess getur haft jákvæð áhrif á aukið samstarf og viðskipti yfir landamæri,“ segir Þór Sigfússon framkvæmdastjóri Íslenska sjávarklasans.